Búðu til blóðflokkaættartré

Hér sérðu blóðflokkaættartré. Botnar þú ekkert í því? Það er svolítið flókið, það er alveg satt. Ef þú skilur hvorki upp né niður í þessu getur þú prófað að prenta myndina út til að skoða hana betur.

En þetta virkar sem sagt svona:

Efst á myndinni eru fjögur systkini sem eru öll hvert í sínum blóðflokki. Foreldrar þeirra, sem eru í næstu línu fyrir neðan, eru í A-flokki og B-flokki, ömmur þeirra báðar í AB-flokki og afar þeirra eru annar í A-flokki og hinn í B-flokki. Þannig að það er kannski ekkert skrýtið að þrjú af börnunum, Ari, Bína og Dóri, séu í A-, B- og AB-flokki. En svo er það hún Eva. Hún er nefnilega í O-blóðflokki. Enginn annar í fjölskyldunni er í þeim flokki, ekki einu sinni langafar hennar eða langömmur.

Hvernig getur staðið á þessu?

Blóðflokkaættartré

Þú getur kannski séð hvers vegna Eva er í O-flokki? O-genið hefur falið sig gegnum margar kynslóðir og birtist svo aftur. Hvað heldur þú að O-genið geti falist lengi? Þú getur athugað það með því að ímynda þér fleiri kynslóðir forfeðra, langalangömmur og -afa, langalangalangömmur og -afa og svo áfram, eins langt og þú kemst.

Athugaðu að það er í lagi að einhver "barnanna" í miðjureitunum séu í O-flokki, því að þeir reitir sýna aðeins hvernig börn fólk getur eignast. Það koma ekki endilega allir möguleikarnir fram og það eignast heldur ekkert allir fjögur börn.

Heldur þú að hin genin, A og B, geti falist svona eins og O? Af hverju/Af hverju ekki?

Þú getur líka prófað að búa til blóðflokkaættartré sjálf(ur)! Þú getur gert ímyndað ættartré eins og þetta hér fyrir ofan eða þá að þú getur reynt að gera ættartré þinnar eigin fjölskyldu. Það er samt nokkuð erfitt því að það er ekki auðvelt að vera viss um genasamsetningu fólks sem er í A- og B-flokkum, en það er samt gaman að prófa!

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania