Aðrar erfðafræðirannsóknir

Þrátt fyrir að rannsóknir á arfgengri heilablæðingu hafi lengi vel verið fyrirferðarmiklar við Blóðbankann voru þær fjarri einu rannsóknirnar sem þar voru stundaðar. Þegar kom fram á 9. áratuginn var tekið að stunda fjölbreyttar rannsóknir við stofnunina, ekki aðeins á mönnum heldur einnig hvölum.

Þegar Ísland hóf veiðar á hvölum í vísindaskyni seint í júní 1986 voru vísindamenn á vegum Blóðbankans meðal þeirra sem að þeim komu. Snéri hlutverk þeirra á næstu árum einkum að erfðarannsóknum á sýnum úr veiddum langreyðum. Nánar tiltekið snéru þær að fækkun, fjölbreytni og skyldleika innan hvalastofnsins. Þessar upplýsingar voru þær einu sinnar tegundar og samkvæmt mati Alfreðs Árnasonar erfðamarkafræðings haldbestu upplýsingar um erfðamörk nokkurrar hvalategundar sem til var í heiminum. Auk þess að vera forstöðumaður erfðarannsóknardeildar Blóðbankans var Alfreð jafnframt fulltrúi í vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins. Veiðum á langreyðum í vísindaskyni var hætt árið 1989 og hvalarannsóknum í erfðafræðideild Blóðbankans lauk tveimur árum síðar.

En rannsóknir á hinum skíðmynntu frændum okkar í hafinu voru ekki einu rannsóknirnar utan þeirra á arfgengri heilablæðingu sem stundaðar voru í bankanum á þessum tímabili. Árið 1986 hóf erfðafræðideild Blóðbankans einnig samstarf sitt við Royal Postgraduate Medical School við Queen Charlotte‘s og Chelsea Hospital í London um rannsóknir á hryggrauf (l. spina bifida) í íslenskri fjölskyldu þar sem fæðingargallinn virtist arfgengur. Árið 1992 var efniviðurinn fyrir meingenaleitinni fluttur frá London til Háskólans í Nijmegen í Hollandi og stofnað til samvinnu við Dr. Edwin Mariman og samstarfsmenn þar.

Þá voru í desember árið eftir birtar í grein í tímaritinu Nature Genetics niðurstöður leitar að og staðsetningu meingena sem valda arfgengum blöðrunýrum. Byggðu niðurstöðurnar sem teljast vera merkur áfangi á þessu sviði meðal annars á íslenskum rannsóknum og meðal höfunda greinarinnar í tímaritinu var Ragnheiður Fossdal, líffræðingur í erfðafræðideild Blóðbankans. Í íslenska rannsóknarhópnum voru auk Ragnheiðar þeir Magnús Böðvarsson læknir og Páll Ásmundsson yfirlæknir á skilunardeild Landspítalans, Jóhann Ragnarsson læknir á lyflækningadeild Borgarspítalans og prófessor Ólafur Jensson, þáverandi forstöðumaður Blóðbankans. Fjórum árum fyrr, árið 1989, höfðu erfðafræðideild Blóðbankans og lyfjadeildir Landspítalans og Borgarspítalans efnt til samstarfs við rannsóknahópinn Concerted Action í Leiden í Hollandi. Hópur þessi var samvinnuhópur Evrópusambandsríkja auk fleiri ríkja um sameindaerfðafræðilegar rannsóknir á arfgengum blöðrunýrum.

Merkur áfangi náðist síðan í mars 1995 í rannsókn á öðrum erfðasjúkdómi, augnsjúkdómi í íslenskum ættum sem nefnist arfgeng sjónu- og æðuvisnun. Eftir tveggja ára rannsóknarstarf í erfðafræðideild Blóðbankans tókst að kortleggja meingenið, sem veldur sjúkdóminum, á efri hluta litnings nr. 11. Grein um niðurstöður þessara rannsókna birtist í marshefti fræðiritsins Human Molecular Genetics, sem er eitt hið virtasta á sviði sameindaerfðafræði erfðasjúkdóma. Höfundar greinarinnar voru áðurnefnd Ragnheiður Fossdal, Loftur Magnússon, augnlæknir á Akureyri, Dr. James L. Weber, erfðafræðingur á Marschfield Medical Research Foundation, í Wisconsin í Bandaríkjunum og Ólafur Jensson sem látist hafði árið á undan.

Árið 1995 var einnig byrjað að vinna með blóðmyndandi stofnfrumur í Blóðbankanum eftir að líffræðingarnir Kristbjörn Orri Guðmundsson og Leifur Þorsteinsson í Blóðbankanum og dr. Sveinn Guðmundsson, forstöðulæknir hans, höfðu einangrað þær úr fylgju- og naflastrengsblóði í samstarfi við prófessor Ágúst Haraldsson á Barnaspítala Hringsins. Frumurnar voru svo nýttar til ýmissa rannsókna á eiginleikum stofnfruma svo sem þroskun blóðmyndandi stofnfruma.

Hér hefur eins og að ofan aðeins verið stiklað á stóru en eftir allt það vísindastarf sem unnið hefur verið í Blóðbankanum liggja ótal greinar, erindi og framsögur; starfsmenn bankans hafa farið ótal ferðir erlendis tengdar rannsóknum sínum, sótt ráðstefnur og málþing og fengið fjölda samstarfsmanna hingað til lands í sama tilgangi. Allt er þetta slíkt að umfangi að ómögulegt er að gera grein fyrir því hér en það bíður betri tíma.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania