Blóð á flöskum og pokum

En sem von er hefur fleira sem snýr að tæknilegri hlið blóðsöfnunar breyst en bara bílarnir sem notaðir eru til blóðsöfnunarferða. Óhætt er að segja að gjörbreyting hafi orðið á öllum aðbúnaði og tæknistig aukist til muna. Nánar verður farið út í ýmsar rannsóknir sem snúa að blóðgjafastarfsemi síðar en rétt er að drepa nú á tækjum til söfnunarinnar sjálfrar. Nærtækast er vitanlega að nefna geymsluílátið sjálft – blóðpokann. Eins sjálfsagt og nú þykir að gjafablóð sem geymt á þartilgerðum pokum fer því þó fjarri að alltaf hafi verið notast við þá til að geyma blóð. Þrátt fyrir að blóðpokinn, líkur þeim sem við þekkjum í dag, hafi fyrst komið til sögunnar í Bandaríkjunum árið 1950, þremur árum áður en Blóðbankinn var stofnaður, tók það allnokkurn tíma að koma honum í almenna notkun. Lengi framan af starfsferli Blóðbankans var notast við margnota glerflöskur til að geyma í blóð og gúmmísnúrur sem einnig voru margnota. Tóku flöskur þessar sama magn og plastpokarnir síðar en á notkuninni var sá reginmunur að þær voru að notkun lokinni færðar í Lyfjaverslun ríkisins þar sem þær voru þvegnar og sótthreinsaðar og að því loknu notaðar aftur.

Raunar réð þessi tilhögun og aðkoma Lyfjaverslunarinnar sér í lagi nokkru um það nákvæmlega hvenær flöskunum gömlu og snúrunum var endanlega skipt út fyrir einnota poka og plastsnúrur. Árið 1968 var byrjað að flytja hingað til lands poka og snúrur og nota til flutnings og geymslu blóðs. Ekki urðu plastpokarnir og –snúrurnar þó einráð enn um sinn heldur voru flöskurnar og margnota snúrurnar áfram notaðar jafnframt þeim. Var það fyrirkomulag á um tveggja ára bil, til vorsins 1970. Gerðist það þá í byrjun apríl að eldur kom upp í húsnæði Lyfjaverslunar ríkisins að Borgartúni 6 og stöðvaðist öll starfsemi, þar á meðal í sterildeild. Var þá ekki um annað að ræða en að finna önnur úrræði í skyndi og úr varð að einnota plastumbúðir sem hægt var að panta erlendis frá með skömmum fyrirvara. Var í kjölfarið tekið að panta plastumbúðirnar frá Belgíu og voru þær allnokkru dýrari en þær sem áður hafði verið notast við en þóttu betri, komu hingað til lands sótthreinsaðar og innihéldu storkuvara. Var þá svo komið að alfarið var tekið að notast við plastpoka til geymslu blóðs hérlendist, réttum tuttugu árum eftir að slíkir pokar voru fyrst kynntir til sögunnar.

Ýmsar betrumbætur hafa verið gerðar á blóðpokunum í áranna rás, eins og gefur að skilja. Meðal þess helsta sem nefna mætti í því samhengi er að árið 1984 var tekið að nota nýja gerð plastpoka. Þessir nýju blóðpokar innihéldu andstorknunar- og næringarlausn sem lengdi geymslutíma blóðs svo um munaði, úr þremur vikum í fimm. Á þessum árum hraðaði mjög á þróun í þessum málum og voru stigin fjölmörg stór skref í átt til lengri geymslutíma, meira öryggis og skilvirkari nýtingar blóðs. Í nóvember 1988, aðeins fjórum árum eftir að nýju pokarnir voru teknir í gagnið, var enn tekin í notkun ný gerð af blóðpokum. Voru það svokallaðir SAGM-pokar, fyrir hvítkornasnautt rauðkornaþykkni. Með tilkomu nýju pokanna varð óþarft að þynna innihald poka með saltvatni fyrir notkun. Tilkoma þessara poka þótti valda byltingu í blóðhlutavinnslu sem aftur er mikilvægur liður í betri nýtingu blóðs og verða gerð frekari skil síðar.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania