Blóðbanki á hjólum

Staðbundin blóðsöfnunarátök hafa fjarri verið eina leið Blóðbankans til að ýta undir blóðgjafir og auka birgðir sínar. Blóðsöfnunarferðir hafa líka verið stór þáttur í starfsemi bankans og raunar þess eðlis að ekki er þar alltaf rétt að tala um átök heldur frekar reglubundinn þátt starfseminnar, þótt ferðirnar hafi vissulega verið misreglulegar eftir tímabilum. Langstærsti hluti blóðsöfnunarferða hefur verið farinn á blóðsöfnunarbílum sem Rauði kross Íslands hefur frá upphafi séð um að fjármagna og útvega Blóðbankanum.

Rauði krossinn festi kaup á fyrsta blóðsöfnunarbílnum árið 1965 fyrir gjafafé frá bönkum landsins og Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Um var að ræða bíl af gerðinni Mercedes Benz sem var innréttaður sérstaklega til verksins árið á eftir og svo loks tekinn í gagnið árið 1967. Ekki var það þó svo að fólki væri tekið blóð í bílnum sjálfum heldur var búnaður fluttur í honum og blóðsöfnunarstöðvum komið upp þar sem safna skyldi hverju sinni. Lagði Blóðbankinn til sérmenntað starfsfólk til reksturs bílsins en félagar í Rauða krossinum komu líka að blóðsöfnun auk þess að sjá um skráningu.

Bíllinn var vígður hinn 1. febrúar með því að ekið var að skrifstofu borgarstjóra og tekið blóð af borgarstjóra og fleira starfsfólki. Um vorið hófst síðan eiginleg söfnun með bílnum. Í síðari hluta maímánaðar var haldið til Hafnafjarðar þar sem meðlimir Hafnafjarðardeildar RKÍ gáfu blóð, alls 31 félagi. Næst var lagt upp hinn 13. júní og haldið í Garðahrepp og næstu mánuði var farið um Reykjanes og suðurland austur að Hvolsvelli, þá um Vesturland og Snæfellsnes. Í september var svo farið alla leið norður til Akureyrar, Húsavíkur og Ólafsfjarðar, í október í Hveragerði og að Laugavatni. Loks voru nokkrir stórir vinnustaðir í Reykjavík heimsóttir í nóvember. Alls fékkst blóð úr 768 gjöfum í söfnunarferðum bílsins það árið. Ekkert var dregið af árið á eftir, fyrst lagt upp í janúar og alls safnaði bíllinn blóði úr 1050 gjöfum á árinu 1968. Enn fjölgaði þeim svo árið 1969 þegar þeir voru 1353, og árið 1970 voru blóðgjafarnir sem gáfu í bílinn 1222. Tölur fyrir árið 1970 eru ófullkomnar, færslur ná ekki nema fram í júní og afrakstur fleiri ára er ekki færður til bókar. Af fréttum dagblaða má þó sjá að áfram fór bíllinn í söfnunarferðir.

Í samtali við blaðamann Tímans síðsumars 1973 ítrekar Ólafur Jensson, yfirlæknir Blóðbankans, mikilvægi bílsins. Á viðtalinu má þó líka sjá að bíllinn má muna sinn fífil fegurri þegar blaðamaður bætir því við að bíllinn sé talsvert mikið notaður, „þótt hann sé svolítið úr sér genginn[...]." Raunin var enda sú að árið eftir var bíllinn góði dæmdur ónýtur og starfsemi hans hætt. Þegar í stað var hafin leit að staðgengli og ráð gert fyrir því að nýr bíll yrði kominn til landsins í nóvember 1974. Aftur má sjá á blaðaumfjöllun að bíllinn var mikið á ferðinni árið 1976. Þá um sumarið var meðal annars sett fjöldamet í einu stoppi bílsins þegar alls hundraðsextíuogsex starfsmenn við Sigöldu gáfu blóð!

Þegar kom fram á 9. áratuginn fólst hreyfanleg starfsemi Blóðbankans einkum í því að bílar á vegum Rauða krossins voru notaðir til að ferja starfsfólk fyrirtækja og stofnana, nemendur skóla á höfuðborgarsvæðinu og fleiri í Blóðbankann. Þó var áfram reynt að safna blóði á landsbyggðinni eftir föngum og meðal annars fór starfsfólk Blóðbankans í sína fyrstu og einu blóðsöfnunarferð með flugi um sumarið 1981. Samstarf Blóðbankans og Rauða krossins var svo með uppteknum hætti á 10. áratugnum og farið var í blóðsöfnunarferðir í skóla, á vinnustaði og út á land þar sem færanlegum blóðsöfnunarstöðvum var komið upp. Þó horfði til breytinga árið 1996 þegar Rauði krossinn ákvað að gefa Blóðbankanum nýjan blóðsöfnunarbíl og afhenti gjafabréf þaraðlútandi á aðalfundi Blóðgjafafélags Íslands í febrúar það ár. Var þar um að ræða bíl allfrábrugðinn fyrri blóðsöfnunarbílum, bókstaflega færanlega blóðsöfnunarstöð sem ekki krefðist annars búnaðar þar sem hún kæmi en aðgangs að rafmagni. Rúmu ári eftir að Rauði krossinn afhenti gjafabréfið var tekið að undirbúa fjármögnun bílsins. Samtökin höfðu þá gefið þrettán milljónir króna til verksins en talið var að tíu til tólf milljónir aukalega þyrfti til. Fjármögnun tók nokkur ár en í desember 2001 undirrituðu fulltrúar RKÍ og Blóðbankans samning um afhendingu bílsins sem fara skyldi fram sumarið á eftir. Þá var tekstur bílsins líka tryggður með yfirlýsingu Landspítala – Háskólasjúkrahúss þar að lútandi.

Það var svo loks hinn 6. september 2002 sem Rauði krossinn afhenti Blóðbankanum bílinn. Má segja að um hafi verið að ræða blóðbanka á hjólum, afar fullkominn. Að grunni til er blóðsöfnunarbíllinn Scania langferðabifreiðs sem var sérútbúin að finnska fyrirtækinu Kiitokuori. Hann er þrettán og hálfur metri að lengd og búinn öllum nauðsynlegum tækjum til blóðtöku. Í bílnum eru samtals fjórir bekkir fyrir blóðgjafa og mögulegt að taka á móti fimmtíu til hundrað blóðgjöfum á dag og jafnvel fleiri í neyðartilvikum. Auk þess er vitanlega dálítil kaffiaðstaða fyrir blóðgjafa í bílnum. Þá er hann ennfremur nettengdur og þannig beintengdur tölvukerfi Blóðbankans. Sem von er olli bíllinn byltingu í möguleikum Blóðbankans á söfnun blóðs, bæði við vinnustaði og skóla í Reykjavík og ennfremur úti á landi. Starfssvæði hans eru einkum byggðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og á Reykjanesi. Blóðbankabíllinn gerði víðreist á fyrsta heila starfsárinu og hlutverk hans efldist til muna frá því byrjað var að nota hann til blóðsöfnunar í árslok 2002. Árið 2003 fór bíllinn í tvær ferðir á viku og þannig söfnuðust nærri tvöþúsund einingar blóðs af þeim tæplega fjórtánþúsund sem alls var safnað á árinu. Eftirfarandi tafla sýnir vel hvílík áhrif tilkoma bílsins hafði, ekki hvað síst á fjölda nýrra blóðgjafa: 

 

 2001

 2002

 2003

 Safnaðar einingar                                                                                                       
 Barónsstígur  13.110  13.835  11.714
 Bíllinn  694  673  1.916
 Samtals  13.804  14.508  13.630

 

 Nýir blóðgjafar                                                                                                             
 Barónsstígur  1.431  1.345  931
 Bíllinn  313  468  1.368
 Samtals  1.744  1.813  2.299

 Blóðbankabíllinn er enn í fullri notkun og er hvergi slegið af. Nú síðast fékk hann heilmikla andlitslyftingu sumarið 2013 og skipar stóran sess í reglubundinni starfsemi Blóðbankans.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania