Blóðbanki á tölvuöld

Með tilkomu blóðpokanna var stigið stórt skref fram á við í blóðbankastarfsemi hérlendis og þá jafnframt í heilbrigðismálum almennt. Er hún aðeins einn liður í síaukinni tæknivæðingu samfélagsins og sérhæfingu því samfara. Skoða má þá þróun í víðara samhengi og berst sagan þá fljótt að tölvuvæðingunni sem hefur gerbylt vestrænum samfélögum á örfáum áratugum, á minna en einni kynslóð. Tölvur hafa haldið innreið sína í öll svið mannlífsins og víðast hvar orðið að órjúfanlegum þáttum daglegrar starfsemi. Blóðbankastarfsemi, eins og heilbrigðiskerfið allt, er þar ekki undanskilið. Nú er svo komið að nær ómögulegt er að sjá fyrir sér starfsemi á borð við þá sem fram fer í Blóðbankanum án tölvutækni. Starfsemi sem þó var fullkomlega ótölvuvædd fyrir ekki svo ýkja löngu síðan. Er því ekki úr vegi að huga stuttlega að tölvuvæðingu Blóðbankans.

Með nokkurri vissu er hægt að fullyrða að tölvur hafi í fyrsta sinn nýst að beinu leyti við störf unnin í Blóðbankanum þegar hin svokallaða Systkinabarnarannsókn hófst miðsumars árið 1972. Rannsókn þessi var fyrsta mannerfðafræðilega rannsóknarverkefni Blóðbankans og skal nánar vikið að henni síðar. Hér nægir okkur að segja að til rannsóknarinnar hafi verið nýtt gögn sem færð höfðu verið á tölvutækt form að frumkvæði Erfðafræðinefndar. Í því samhengi má geta þess að Ólafur Jensson, sem ráðinn var forstöðumaður Blóðbankans í mars þess árs tók einmitt sæti Sigurðar Sigurðssonar landlæknis í Erfðafræðinefndinni þetta sama ár.

Og þótt þessi fyrsti samsláttur Blóðbankans og tölvualdar snérist ekki að hinni skyldubundnu starfsemi bankans þá var það einmitt Ólafur Jensson sem átti eftir að leiða hann inn eiginlega tölvuöld. Ári eftir að systkinabarnarannsóknin hófst skrifaði Ólafur greinina „Viðfangsefni nútíma blóðbanka" sem birtist í Blaði meinatækna. Í upphafi greinarinnar leggur Ólafur mjög línurnar fyrir það sem koma skyldi, nefnilega tölvutæknina. Reyfar hann þar gagnsemi tölvuskráningar, sem falli sérlega vel að starfsemi blóðbanka, „þar sem unnt er að skrá margar nákvæmar og afdráttarlausar niðurstöður um erfðaeiginleika blóðsins, þ.e. blóðflokkakerfi og mótefni í blóðvökva." Og áfram heldur Ólafur og bendir jafnframt á það hvernig tölvur geti nýst við boðun blóðgjafa: „Tölvutæknin opnar marga nýja möguleika til að nýta spjaldskrá um blóðgjafasveitir. Og þegar kemur að gagnaúrvinnslu og skýrslugerð er hverjum manni núorðið ljósir yfirburðir þessarar tækni. ... Fram til þessa hefur þessi tækni ekki verið notuð í daglegu starfi Blóðbankans, en að því mun þó koma." Og svo framvegis. Ekkert fer á milli mála hvert stefndi að mati yfirlæknisins og möguleikar tölvutækninnar virðast nær óþrjótandi. Sama ár og grein þessi birtist komu tölvur enn nokkuð við sögu þess starfs sem unnið var í Blóðbankanum þegar önnur grein birtist, en reyndar í hinu virta tímariti Annals of Human Genetics. Nefndist grein þessi „The Blood Groups of Icelanders" og var Valtýr Bjarnason fyrrum yfirlæknir Blóðbankans einn höfunda hennar. Við vinnslu greinarinnar var stuðst við gögn úr Blóðbankanum sem færð voru inn í tölvu og keyrð saman við Þjóðskrá en nánar skal vikið að efni hennar síðar. Enn um sinn varð þó bið á því að tölvur yrðu hluti af daglegu starfi Blóðbankans þótt fyrirséð framtíð Ólafs tæki reyndar að láta lítillega á sér kræla. Þetta sama ár var þannig byrjað að undirbúa upptöku samræmds tölvukerfis fyrir ríkisspítalana, en þá þegar hafði verið tekið í gagn tölvukerfi á Borgarstpítalanum.

Næstu árin mjökuðust tölvumál hægt áfram. Frá 14. til 25. apríl 1975 sótti Ólafur námskeið um tölvutækni í blóðbankarekstri á vegum Evrópuráðsins í Montpellier, Toulouse, Rouon og París í Frakklandi, undir stjórn prófessors Paul Cazal. Fátt dró til tíðinda á næstu árum. Árið 1981 var þó hafist handa við það að koma gögnum Blóðbankans yfir blóðgjafa, sjúklinga og vanfærar konur inn í sameiginlegt tölvukerfi Landspítalans. Það var svo loks árið 1985, tíu árum eftir að Ólafur sótti samevrópskt námskeið um tölvutækni í blóðbankarekstri, sem tölvukerfi var tekið í gagnið í Blóðbankanum. Þar var haldin skrá yfir og geymdar upplýsingar um alla blóðgjafa- og þega. Gaf þessi nýjung möguleika á hraðari uppslætti og auðveldaði störf á ýmsa vegu eins og gefur að skilja. Þar að auki var nú hægt að nálgast á einum stað yfirlit yfir alla starfsemi bankans. Tölvuskráning blóðgjafa á Reykjavíkursvæðinu var lokið á árinu og tekið var til við skráningu blóðgjafa í öðrum landshlutum. Um mitt ár hófst líka tölvuskráning sérverkefna og á sama tíma fékkst mikilvæg tenging við tölvubanka erfðafræðinefndar Háskólans sem auðveldaði ættfræðivinnu fjölskyldurannsókna, sem verið höfðu ríkur þáttur í rannsóknastörfum bankans um langt skeið. Í kjölfar þess varð hröð þróun í tölvumálum bankans. Þess má líka geta að árið 1989 veitti tölvunefnd Krabbameinsfélagi Íslands leyfi til að tengja saman krabbameinsskrá félagsins og skrá Blóðbankans yfir blóðflokka í því skyni að afla frekari upplýsinga vegna rannsókna á tengslum blóðflokka og krabbameins. Eru slíkar samtengingar ágætt dæmi um þá ótal möguleika sem tölvutæknin hefur veitt í blóðbankarekstri, aðra en þá sem snéru að reglubundinni starfsemi banka eða rannsóknum innan þeirra. Aftur voru gerðar umfangsmiklar skipulagsbreytingar á tölvu- og tækjavæðingu bankans árið 1994 þegar tekið var upp tölvukerfið ProSang. Slíkt kerfi er enn í notkun í bankanum þó vitanlega sé himin og haf á milli þess og kerfisins sem tekið var í notkun fyrir tæpum tveimur áratugum.

Þá má líka segja að Ólafur reyndist sannspá hvar víkur að gagnsemi tölvutækni við skipulagningu blóðgjafa. Ómögulegt er þó að segja hvort hann sá fyrir sér hversu mjög tölvur hafa nýst í slíkum tilgangi en árið 2003 tók Blóðbankinn í notkun nýja tækni til innköllunar, boðunar og bókunar blóðgjafa. Var umrætt kerfi þróað í samstarfi við starfsfólk Blóðbankans og því sérsniðið að þörfum hans. Nýttist kerfi þetta, sem nefnist REV-Blood Donor, meðal annars við SMS-skilaboð og tölvupóst til boðunar blóðgjafa í bankann.

Er nú svo komið að líkt og víðar eru tölvur algerlega órjúfanlegur hluti af allri starfsemi Blóðbankans. Óþarft er að reyfa að ekki sér fyrir endann á þróun í átt til frekari tölvu- og tæknivæðingar blóðbankastarfsemi.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania