Blóðbankinn í hringiðu heimsmálanna

Líkt og eðli þeirrar starfsemi sem fram fer í Blóðbankanum ber með sér getur svo borið við að blóðbirgðir verði hættulega litlar. Veltur birgðastaðan á ýmsum þáttum sem að takmörkuðu eða engu lagi er í valdi bankans að stýra. Alvarlegt slys getur gert það að verkum að í einni svipan verði þörf fyrir mikið magn blóðs, blóðs sem bankinn á ekki til nema fyrir sjálfviljugar gjafir fólks og mætti því kalla endurnýjanlega en mögulega kenjótta auðlind. Blessunarlega er sjaldnast hætta á því að blóðbirgðir þrjóti en starfsreglur Blóðbankans krefjast þess að ávallt séu til ákveðnar lágmarksbirgðir blóðs í bankanum. Veldur þetta því að stundum þarf að gera sérstakar ráðstafanir til að mæta blóðþörf. En það kemur líka fyrir að í Blóðbankanum þurfi að hafa sérstakan viðbúnað án þess að með honum sé verið að bregðast við orðinni blóðþörf. Þannig hefur nokkrum sinnum brugðið svo við að Blóðbankinn hefur orðið að gera sérstakar ráðstafanir án þess að slys hafi borið að garði, án þess að þörf sé fyrir sérstaklega mikið blóð til gjafar þá stundina. Fæstir leiða sjálfsagt hugann að því að Blóðbankinn er meðal þeirra aðila sem þurfa að hafa sérstakan viðbúnað þegar vissir mektargestir heimsækja Ísland.

Að líkindum hefur aldrei verið viðhafður jafn mikill viðbúnaður vegna komu nokkurra gesta til Íslands og hafður var vegna komu Mikhaíls Gorbachevs aðalritara sovéska kommúnistaflokksins og Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta á leiðtogafundinn sem haldinn var í Reykjavík haustið 1986. Segja má að borgin hafi nokkurn veginn farið á hvolf vegna fundarins, sem var enda stórviðburður á alþjóðasviði stjórnmálanna. Hvarvetna voru blaða- og fjölmiðlamenn, öryggisverðir og aðrir fylgdarmenn leiðtoganna, lögregluþjónar, mótmælendur og svo mætti lengi áfram telja. Og að sjálfsögðu var mikill viðbúnaður í heilbrigðiskerfinu. Sérstakir sjúkrabílar voru hafðir í stöðugri viðbragðsstöðu, svo og teymi lækna og hjúkrunarfólks á sjúkrahúsum. Ekki má heldur gleyma Blóðbankanum sem mátti gjöra svo vel að setja sig í hamfaraham til að verða við ströngum kröfum vegna viðveru leiðtoganna tveggja og fylgdarliða í landinu. Voru yfirlækni Blóðbankans meðal annars kunngjörðir blóðflokkar Gorbachevs og ýmissa annarra í föruneyti hans. Blessunarlega gekk fundurinn þó stórslysalaust fyrir sig, í öllu falli í bókstaflegri merkingu.

Það gerði líka stutt heimsókn Jóhannesar Páls páfa II til Íslands á ferðalagi sínu um Norðurlönd í júníbyrjun 1989. Sem gefur að skilja var þó gríðarmikill viðbúnaður vegna heimsóknarinnar enda höfðu nokkur tilræði verið gerð við líf páfans árin á undan. Meðal þess sem huga varð að var því viðbúnaður í heilbrigðiskerfinu. Í formlegu skeyti sem barst utanríkisráðuneytinu frá skrifstofu páfa í Róm, og var sent áfram til Blóðbankans, eru settar fram ýmsar kröfur um viðbúnað. Þá koma þar fram allítarlegar upplýsingar um blóðflokka páfans og fleiri úr fylgdarliði hans og kröfur um tiltekinn blóðforða. Þannig varð Blóðbankinn meðal þeirra sem hafa þurftu uppi sérstakan viðbúnað vegna heimsóknarinnar.

Þriðja og síðasta dæmið af líkum meiði snertir heimsókn Vaclavs Havels Tékkóslóvakíuforseta til Íslands í febrúar 1990. Havel, þá nýtekinn við embætti, kom í stutta opinbera heimsókn á ferð sinni vestur um haf til Bandaríkjanna. Var hann mjög í sviðsljósi og hringiðu heimsmálanna vegna stöðu Tékkóslóvakíu í því pólitíska breytingaferli sem átti sér stað í Mið- og Austur-Evrópu um þær mundir. Líkt og var í ofangreindum tilfellum var því mikill viðbúnaður hafður vegna komunnar. Litlum spurnum fór af því í fjölmiðlum, en enn var Blóðbankinn virkjaður. Sendi utanríkisráðuneytið bréf þaraðlútandi til ýmissa stjórnenda heilbrigðisstofnana, þeirra á meðal Ólafs Jenssonar yfirlæknis Blóðbankans. Í bréfinu komu fram dálitlar upplýsingar um heilsufar forsetans, þar á meðal blóðflokkur hans, auk Olgu konu hans og forsætisráðherrans Chalfa sem voru með í för. Skyldi hafa blóð í téðum flokkum á hraðbergi, færi svo að eitthvað bæri út af. En líkt og í sögunum sem að ofan voru raktar gekk heimsóknin sem betur fer fyrir sig án teljandi vandræða eða slysa og ekki kom sérstaklega til kasta Blóðbankans.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania