Blóðgjafafélag Íslands

Minnst hefur verið á mikilvægi þess fyrir starfsemi Blóðbankans að hann standi fyrir öflugu kynningarstarfi. Annað sem hefur í gegnum árin verið mikilvægur þáttur í því að efla blóðsöfnunarstarf og vekja frekari athygli á mikilvægi blóðgjafa hefur verið starfsemi Blóðgjafafélags Íslands.

Blóðgjafafélagið var formlega stofnað þann 16. júlí 1981 í þeim yfirlýsta tilgangi að annars vegar efla tengsl íslenskra blóðgjafa og almennings við Blóðbankann og hins vegar að fræða bæði þá sömu aðila og stjórnvöld um mikilvægi blóðs til lækninga. Til fundarins voru boðnir velkomnir allir blóðgjafar og aðrir þeir sem vildu styrkja blóðsöfnunarstörf og blóðbankastarfsemi í lækninga- og rannsóknaskyni. Forgöngu um stofnunina hafði Ólafur Jensson, yfirlæknir Blóðbankans, sem jafnframt var fyrsti formaður félagsins. Auk tilheyrandi skipulagsmála var á stofnfundinum sett upp lítil sýning þar sem drepið var á atriðum úr sögu skipulagðrar blóðgjafarstarfsemi og blóðbankaþjónustu hérlendis og dregnar upp af henni myndir.

Fyrsta stjórn félagsins var skipuð þeim Ólafi Jenssyni, Hólmfríði Gísladóttur, Jóhanni Diego Arnórssyni, Ómari Friðþjófssyni og Loga Runólfssyni. Síðan hafa alls fjórir einstaklingar gegnt formannsstöðu í félaginu. Ólafur Jensson sat sem formaður til ársins 1993 þegar Anna María Snorradóttir hjúkrunarfræðingur tók við og sat í eitt ár, til 1994. Þá tók við Björn Harðarson líffræðingur sem gegndi stöðunni í áratug, til ársins 2004 þegar Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður tók við formennsku sem hann gegnir enn. Fljótlega eftir stofnun félagsins tók það yfir sjóð sem hafði umsjón með tekjum sem fengust af útflutningi blóðvökva og var því þannig tryggður dálítill tekjustofn og rekstrarfé. Ekki varði þetta fyrirkomulag þó lengi því téður útflutningur lagðist af árið 1985. Var félagið í kjölfarið tekjulaust um árabil en hefur verið úthlutað fé af Alþingi um nokkurra ára bil en þó hefur svo borið við að það hefur orðið að leita til systurfélaga sinna á Norðurlöndum um fjárstuðning til ýmissa verkefna.

Sem fyrr segir felst starfsemi félagsins að miklu leyti í kynningarstarfi. Hefur það meðal annars staðið fyrir allnokkrum fjölþjóðlegum ráðstefnum hér á landi um mál sem varða blóðgjafir, og ennfremur tekið þátt í öðrum. Félagið létt fljótt til sín taka á þessu sviði og sem dæmi um merkilegt framtak mætti nefna komu Rodney R. Porters, prófessors við lífefnafræðideild Háskólans í Oxford og nóbelsverðlaunahafa í ónæmisfræði 1972, til landsins árið 1985. Porter heimsótti landið í boði Blóðbankans og Blóðgjafafélags Íslands og flutti á meðan á heimsókninni stóð tvo fyrirlestra í fyrirlestrasal Geðdeildar Landspítalans. Þá hefur félagið reglulega haldið smærri fræðslufundi um skyld mál. Meðal þess sem félagið hefur sérstaklega beint kröftum sínum að í seinni tíð er kynning á félaginu, starfsemi þess og mikilvægi. Hefur þessi kynning meðal annars falist í því að fræða heilbrigðisyfirvöld um þýðingu þess að halda úti starfsemi hagsmunaaðila fyrir blóðgjafa á Íslandi. Sem dæmi um stærri kynningarverkefni sem félagið hefur ráðist í mætti nefna að það stóð fyrir gerð fræðslumyndbands árið 1997 um blóðgjafir og notkun blóðs á Íslandi.

Þá tekur félagið þátt í því þann 23. maí ár hvert að halda blóðgjafadaginn hátíðlegan í samstarfi við Blóðbankann. Hérlendis hefur það verið gert allt frá árinu 1998 en blóðgjafadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur erlendis árið 1995. Þá heiðrar Blóðgjafafélagið árlega þá blóðgjafa sem náð hafa merkum áföngum á blóðgjafaferlum sínum, gefið blóð fimmtíu sinnum, sjötíuogfimm sinnum, hundrað sinnum og þar fram eftir götunum.

Í apríl 1998 var Blóðgjafafélaginu formlega veitt aðild að Alþjóða blóðgjafasamtökunum I.F.B.D.O. (e. International Federation Of Blood Donor Organizations) á fundi samtakanna í Túnis. Meðal markmiða alþjóðasamtakanna eru sjálfbærni í notkun blóðs sem fengið er frá sjálfboðaliðum, það er að segja gjöfum sem þiggja ekki greiðslu fyrir, og jafnframt að stuðla að auknu trausti almennings á gjafablóði með því að samræma öryggisstaðla og eftirlit með blóðgjöfum. 

Frá stofnun félagsins og allt til ársins 2003 var sá háttur hafður á að litið var á alla blóðgjafa sem félagsmenn. Breytingin sem gerð var þar á árið 2003 fólst í því að þeir sem gerast vildu félagar yrðu að skrá sig formlega í félagið og var hún lögum samkvæm. Önnur allstór breyting var gerð á skipulagi félagsins haustið 2010 þegar stofnuð var ungmennadeild innan þess, UBGFÍ. Hefur ungmennadeildin starfað af talsverðum krafti síðan og látið nokkuð á sér bera, tekið þótt í alþjóðamótum viðlíka deilda og staðið fyrir gerð kynningarmyndabanda í samstarfi við nemendur í Kvikmyndaskóla Íslands.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania