Blóðgjafar og blóðsöfnun

Þegar Elías Eyvindsson tók til starfa sem forstöðumaður Blóðbankans við opnun hans í nóvember 1953 var hann eini læknirinn við stofnunina. Og jafnvel hann gegndi þeirri stöðu í hlutastarfi, meðfram starfi sínu sem fyrsti svæfingarlæknirinn sem ráðinn var við Landspítalann. Svæfingarlækningar voru þá fremur ung sérgrein, rétt eins og blóðbankastarfsemi var ungt svið innan heilbrigðisgeirans. Auk Elíasar störfuðu við bankann í byrjun Halla Snæbjörnsdóttir hjúkrunarfræðingur, Ívana Eyjólfsdóttir aðstoðarstúlka, Sonja Hákonardóttir skrifstofustúlka og Guðmunda Guðmundsdóttir starfsstúlka. Alls voru starfsmennirnir því fimm. Á engan er hallað þó sagt sé að áðurnefnd Halla hafi verið hjartað í starfsemi bankans framan af. Halla hafði sótt sér sérmenntun á sviði blóðbankastarfsemi til Bandaríkjanna og var fyrst Íslendinga til að að mennta sig sérstaklega í þeirri grein. Framan af snéri starfsemi bankans að mun meira leyti en síðar hefur orðið að blóðflokkagreiningu, blóðsöfnun og geymslu blóðs og því sá Halla í þá daga að miklu leyti um daglega starfsemi stofnunarinnar. Sjálfstætt vísindastarf og jafnvel hinar ýmsu þjónusturannsóknir sem gerðu kröfu um annars konar sérmenntun komu ekki til kasta Blóðbankans fyrr en nokkru síðar.

En þótt umsvif bankans hafi verið margfallt minni í árdaga hans en síðar varð gat það reynst fullt eins erfitt þá og nú að fá nægilega marga blóðgjafa til að mæta þörfum spítalanna. Að vissu leyti er það skiljanlegt, Blóðbankinn var eftir allt saman ung stofnun og blóðbankastarfsemi var ung grein. Starfsfólk heilbrigðiskerfisins var vitanlega kunnugt starfseminni og þær blóðgjafasveitir sem stofnaðar höfðu verið áratugina áður en Blóðbankinn kom til sögunnar voru enn um sinn helstu bakhjarlar blóðsöfnunarstarfsins. En þekking alls þorra fólks á starfsemi og mikilvægi bankans var eðli málsins samkvæmt mun minni en varð í tímans rás. Nákvæmar tölur yfir blóðsöfnun á fyrstu árum stofnunarinnar hafa því miður ekki varðveist en áætlanir þeirra sem best til þekkja gera ráð fyrir að um það bil þúsund einingar blóðs hafi safnast árlega hin fyrstu ár. Á eftirfarandi mynd má sjá þróun blóðsöfnunar frá 1953 til 1992:

 

null

 

Eins og sjá má er þróunin fremur hæg framan af, allt fram á miðjan 7. áratuginn þegar hún tekur kipp og eykst þá hratt – með örlitlu bakslagi á fyrri hluta 8. áratugarins – uns blóðsöfnun nær hámarki sínu árið 1983. Þá gerði tilkoma HIV-veirunnar og ótti almennings við smit Blóðbankanum slæma skráveifu og blóðgjafir drógust talsvert saman, sem fyrr segir. Með markvissum aðgerðum í þágu öryggis bæði blóðgjafa og blóðþega tókst að draga úr ótta fólks og þegar kom fram á 10 áratuginn höfðu blóðgjafir aftur náð sér á góðan skrið sem síðan hefur haldist.

Engu að síður krefst starfsemi Blóðbankans stöðugs og öflugs kynningarstarfs til að anna eftirspurn eftir blóði. Með opnun Blóðbankans varð eðlisbreyting á blóðgjöfum þar eð ekki var þá lengur nauðsynlegt að stefna blóðgjafa og -þega saman. Engu að síður varð áfram að vinna ötullega að því að hvetja fólk til blóðgjafa og eins og oft síðar reyndist það gjarnan þrautin þyngri.

Í blábyrjun gekk söfnun blóðs reyndar allvel og nóg blóð fékkst fremur auðveldlega. Aðstaða í hinum nýja blóðbanka var mun betri en aðstæður til blóðgjafa höfðu áður verið. Blóðgjafar lögðust á blóðrauða bekki sem voru nokkuð frábrugðnir þeim sem síðar komu til sögunnar, háir og flatir og minntu helst á skoðunarbekki heimilislækna. Hverjum blóðgjafa voru teknir fjögurhundruðogfimmtí mililítrar blóðs, sem leitt var í þartilgerða glerflösku svo og í minna glas til skoðunar. Út í blóðið var svo bætt storkuvara og flaskan því næst færð í sérstakt kæliherbergi þar sem ávallt var fjögurra gráðu hiti. Við þessar aðstæður var hægt að geyma blóðið í þrjár vikur áður en það varð ónothæft. Að blóðgjöf lokinni þáði blóðgjafinn svo veitingar á kaffistofu Blóðbankans eins og allar götur síðan.

Fljótlega eftir opnun bankans fór þó að draga nokkuð úr aðsókninni og ekki leið á löngu þar til erfitt var orðið að fá nægilegan fjölda blóðgjafa. Á þessum tíma varð hann því mjög að reiða sig á hin ýmsu félagasamtök, nemendur hinna ýmsu skóla, fyrirtækja og þar fram eftir götunum, ekki ólíkt því sem verið hafði áður en bankinn sjálfur tók til starfa. Sem fyrr segir fjölmenntu nemendur Stýrimannaskólans til að gefa blóð strax í kjölfar stofnunar bankans og á næstu árum voru þeir áfram duglegir að gefa og meðal traustustu gjafa. Þá samþykkti sambandsráð Íþróttasambands Íslands á fundi sínum vorið 1954 áskorun til íþróttamanna innan vébanda sambandsins þess efnis að þeir gæfu blóð ættu þeir þess yfirleitt nokkur tök. Skemmtileg saga af viðlíka framtaki er líka sú af slysavarnadeildinni Bræðrabandinu í Vestur-Barðastrandarsýslu og skal nú drepið á henni.

Skömmu fyrir stofnun Blóðbankans, árið 1952, stofnaði slysavarnadeildin Bræðrabandið í Rauðasandshreppi blóðgjafasveit og skyldu meðlimir hennar fara í Blóðbankann og gefa blóð í hvert sinn sem þeir ættu leið um Reykjavík. Var Bræðrabandið fyrst slysavarnadeilda landsins til að taka upp slíka starfsemi og það þó heimasveit hennar væri talsvert fjær Reykjavík en margra sambærilegra deilda. Það varð reyndar nokkur bið á því að einhver félaganna ætti erindi til Reykjavíkur en í mars 1956 varð Þórður Jónsson bóndi að Hvallátrum og formaður Bræðrabandsins fyrstur þeirra til að gefa blóð, fjórum árum eftir að blóðgjafasveit deildarinnar var formlega stofnuð.

Þótt ýmis félög tækju sig saman og stofnuðu til blóðgjafasveita varð Blóðbankinn fljótlega að leita í fjölmiðla til að vekja athygli á starfsemi sinni og eggja fólk til blóðgjafa. Þannig birtist ákall til Reykvíkinga um að gefa blóð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins undir lok júlí 1954. Síðar í sömu viku var rætt við Elías Eyvindsson yfirlækni í blaðinu og hafði hann þar á orði að kalli bankans í Sunnudagsblaðinu hefði verið svarað vel. Í sama viðtali kvartar Elías þó nokkuð undan almennu tómlæti fólks til blóðgjafa. Grein svipaðs efnis má finna í Vísi árið á eftir þar sem blaðamaður tiltekur sérstaklega háskólastúdenta sem lata til blóðgjafa. Er sú gagnrýni að líkindum til komin vegna þess að samanburður háskólanema við nemendur ýmissa annarra skóla var neikvæður, en sem fyrr segir voru nemendur Stýrimannaskólans til að mynda meðal ötulustu blóðgjafa framan af. Þótti það til nokkurrar minnkunar fyrir háskólanema að standa sig ekki sem skyldi á þessu sviði.

Líkt og tölur yfir söfnun blóðeininga bera með sér urðu breytingar í þessum efnum fremur hægfara. Það koma enda vel í ljós á fimm ára afmælisári bankans, 1958, að áhyggjur heilbrigðisstarfsfólks voru á rökum reistar. Upp kom þá sú staða að þegar sjúkrahúsið Hvítabandið falaðist eftir tveimur flöskum af A+ blóði fyrir dauðvona sjúkling hjá Blóðbankanum var aðeins til ein flaska af blóði í þeim tiltekna flokki. Viðbótarblóð fékkst þó daginn eftir og ekki er að sjá að frekari eftirköst hafi orðið af þessu óheppilega atviki. Reyndar olli það dálitlum misskilningi í Alþýðublaðinu, sem upphaflega birti frétt þess efnis að alls ekkert blóð hefði verið til í téðum flokki. Blaðamanni virðist þar hafa hlaupið helst til mikið kapp í kinn því tveimur dögum síðar birtist leiðrétting þar sem raunverulegir málavextir eru skýrðir. Það gekk sannarlega á ýmsu á þessum fyrstu árum Blóðbankans.

Séu dagblöð frá tímabilinu skoðuð má líka sjá hve mjög Blóðbankinn lagði sig fram um að vekja fólk til vitundar um starfsemi sína og minna rækilega á sig. Frá síðari hluta 6. áratugarins og lengi vel þess 7. birtust daglega, eða að minnsta kosti nokkrum sinnum í viku, smáauglýsingar þar sem minnt er á starfsemi blóðbankans, staðsetning hans tiltekin og opnunartímar. Ekki hafa þessar auglýsingar verið taldar nákvæmlega en víst er að þær hlaupa á mörgum hundruðum alls, ef ekki þúsundum. Viðlíka auglýsingar birtust svo reglulega allt fram á tölvuöld, þótt aldrei hafi þær verið jafn tíðar og á ofangreindu tímabili. Þegar kemur fram á 9. áratuginn er síðan farið að ráðast í sérstök skammtímaátök til að vekja athygli á Blóðbankanum og fjölga blóðgjöfum. Í þessu skyni var einkum höfðað til ungs fólk og sérstaklega var til þess horft að fjölga blóðgjöfum meðal námsmanna. Sé saga kynningarstarfs Blóðbankans svo skoðuð í víðara samhengi og borin saman við bæði sögu hans í heild og jafnvel almenna sögu Íslands og heimsins má sjá að sjaldan hefur kynningarstarf verið eins brýnt og einmitt á 9. áratugnum. Einkum fræðsla um mikilvægi blóðgjafa. Ræðst það af tilkomu HIV-veirunnar í byrjun umrædds áratugar sem olli vægast sagt gríðarmiklum ótta í samfélaginu. Þennan ótta má meðal annars merkja af fjölmörgum blaðagreinum frá tímabilinu en eins bera tölur Blóðbankans yfir heildarmagn gefins blóðs, sem sjá má að ofan, það með sér svo ekki verður um villst að fólk fældist um þetta leyti frá blóðgjöfum – í fyrsta sinn frá stofnun Blóðbankans þremur áratugum fyrr drógust blóðgjafir saman á ársgrundvelli.

Var því líkt farið hvarvetna á Vesturlöndum. Þó kom þetta minna að sök en ætla mætti hérlendis þar sem blóðbankastarfsemi var hröðum skrefum að breytast, blóðhlutavinnsla jókst til muna og nýting blóðs þar með. Á þann hátt tókst að vinna vel úr samdrættinum jafnvel þótt að árið 1986 væri byrjað að gera hjartaskurðaðgerðir á Landspítala sem eins og gefur að skilja kröfðust gríðarmikils blóðs. Með kraftmiklum aðgerðum til að tryggja öryggi blóðgjafa og -þega tókst að eyða ótta fólks við smit um blóðgjafir. Til að byrja með var hert á almennum varúðarráðstöfunum við flutninga blóðs. Fyrst og fremst var haft eftirlit með vissum áhættuhópum, kannað hvaðan blóðgjafar koma og hvar þeir hefðu verið en í nóvember 1985 var byrjað að skima allar blóðeiningar fyrir alnæmi, um líkt leyti og sambærileg skimun hófst erlendis. Áður höfðu sýni verið geymd um alllangt skeið í sama tilgangi. Skimun byrjaði reyndar á Borgarspítalanum eftir að samningar tókust á milli Blóðbankans og Borgarspítala en hún færðist svo yfir á rannsóknarstofu Blóðbankans fyrir veiru- og veirumótefnaskimpróf um áramót ´85-´86. Gaf Íslandsdeild Rauða krossins tæki til að sinna þessu verki.

Sama ár mátti engu að síður litlu muna að illa færi. Lyfjainnflytjendur og heildsalar lögðu þá hart að heilbrigðisyfirvöldum að kaupa blóðefni frá Frakklandi, sem voru talsvert ódýrari en þau blóðefni sem keypt voru frá Norðurlöndum. Ekki varð af umræddum áformum, einkum vegna andstöðu Þórarins Ólafssonar, yfirlæknis á svæfingadeild Landspítalans. Frönsku blóðefnin reyndust ekki vera skimuð fyrir alnæmisveiru og í sambandi við þessi viðskipti kom upp mikið hneykslismál, hið mesta í tengslum við franskt heilbrigðiskerfi á síðari árum. Ólafur Jensson, yfirlæknir Blóðbankans, sagði lán að storkuþáttur VIII sem notaður var til meðferðar dreyrasjúklinga hefði verið keyptur frá Finnlandi, en þaðan hafði hann verið keyptur allt frá árinu 1973. Sýktur, innfluttur storkuþáttur hefði meðal annars verið í umferð í Danmörku, Þýskalandi og á Englandi. Ólafur Ólafsson, landlæknir sagði ennfremur að íslenskum heilbrigðisyfirvöldum hefðu boðist ódýrt blóðefni frá Bandaríkjunum á árunum 1970-1989, en að þau hefðu stutt fyrrnefndan Ólaf Jensson í þeirri afstöðu að kaupa heldur af Finnum. Þá benti landlæknir líka á að í Bandaríkjunum og víðast hvar á meginlandi Evrópu væri sá háttur hafður á að kaupa blóð, sem byði upp á óheppilega blóðgjafa, en að íslensk heilbrigðisyfirvöld hefðu það fyrir stefnu að kaupa blóð þaðan sem það væri gefið. Segja má að Blóðbankanum og íslensku heilbrigðiskerfi hafi gengið vel að takast á við þann mikla vanda sem steðjaði að blóðgjafastarfsemi í kjölfar tilkomu HIV-veirunnar. Nokkur smit greindust sem rekja mátti til blóðgjafa, árið 1989 höfðu fjórir einstaklingar smitast við blóðgjöf svo vitað var og höfðu öll tilvikin átt sér stað áður en byrjað var að skima blóð fyrir veirunni árið 1985. Smám saman fjaraði hinn mikli ótti við smit út og þegar kom fram á 10. áratuginn höfðu blóðgjafir aftur náð fyrri dampi og tóku að aukast á nýjan leik.

Síðla árs 1987 heimsóttu fulltrúar Rauða krossins og Blóðbankans Háskóla Íslands þar sem þeir fengu að fara inn í kennslustundir til að kynna blóðgjafastarfsemi. Uppteknum hætti var haldið fram á næsta ár og í febrúar 1988 fór fram allsérstæð keppni í Menntaskólanum í Reykjavík, nefnilega keppni í blóðgjöfum. Ekki var það reyndar einstaklingskeppni en slíkt framtak væri í hæsta máta vafasamt heldur kepptu bekkir sín á milli. Sá bekkur sem gaf hlutfallslega mest blóð fékk fyrir vikið svokallaðan blóðbikar. Bekkurinn 5. X stóð uppi sem sigurvegari með áttatíuogníu prósent gjafahlutfall. Um það var talað í kjölfar keppninnar að bíll hefði verið í viðstöðulausum akstri á milli Menntaskólans og Blóðbankans morguninn sem keppnin fór fram.

Ráðist var í viðlíka átök af og til næstu ár en um sinn snemmsumars 1990 töldu reyndar ýmsir bjartsýnir menn horfur á því að senn yrði slík viðleitni óþörf. Birtist þá greinin „Geta kýr leyst vanda Blóðbankans?" í tímaritinu Bóndanum en tilefni hennar voru tilraunir vísindamanna í Boston í Bandaríkjunum með vinnslu á gjörhreinsuðu hemóglóbíni úr kúablóði. Blaðamaður Tímans greip hugmyndina á lofti og spurði í fyrirsögn í blaðinu: „Rennur kúablóð innan tíðar um æðar manna?" Voru höfundar beggja greina bjartsýnir á að hemóglóbínið kæmi til með að leysa blóð af hólmi í lækningum og að þá yrði vandi margra blóðbanka jafnframt leystur, framboð af kúablóði væri svo gott sem ótakmarkað og hemóglóbínið bæði fullkomlega laust við veirusmit og óháð blóðflokkum. Sem raun ber vitni varð þó ekki af kúablóðsbyltingunni og áfram mátti Blóðbankinn vinna að því að vekja athygli fólks á starfi sínu.

Þegar nálgast fór árið 2000 hljóp allnokkur kraftur í slíka viðleitni. Árið 1999 var til að mynda efnt til Heilsuátaks Blóðbankans í samstarfi við Landlæknisembættið og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Árið eftir var svo enn reynt að höfða til ungs fólks en í þetta sinn með nokkuð nýstárlegum hætti þegar útvarpsstöðin Mónó 87,7 efndi í samvinnu við Blóðbankann til svokallaðs blóðsugudags í verslunarmiðstöðinni Kringlunni. Reyndar var það átak tilkomið af jafnvel enn verri nauðsyn en oft áður en blóðbirgðir bankans voru þá komnar að hættumörkum. Mikið var um að vera í kringum uppákomuna, popparar tóku lagið og fleira. Dagurinn bar enda tilætlaðan árangur og mikill fjöldi hlustenda stöðvarinnar mætti í Kringluna til að gefa blóð í hreyfanlegri blóðgjafarstöð sem þar hafði verið komið upp. Vegna þess hve vel gekk var efnt til blóðsugudags á ný árið eftir en þá í samstarfi við útvarpsstöðina Radíó X.

Um vorið 2001 var líka höfðað til ungs fólks á nýstárlegan hátt þegar Blóðbankinn auglýsti að þeir sem kæmu til að gefa blóð fengju miða í kvikmyndahús, þó ekki á hvaða mynd sem er heldur einmitt hina afar viðeigandi Dracula: 2001. Það sama ár réðst bankinn líka í verkefni sem miðaði að því að fjölga blóðgjöfum framtíðar og vekja börn til meðvitundar um mikilvægi blóðgjafa þegar hann gaf út barnabókina Blóðgóða, eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson. Var hún gefin blóðgjöfum til að áframgefa til barna sinna, barnabarna eða annarra. Börn fengu líka virkt hlutverk við samningu bókarinnar því haldin var samkeppni þeirra á meðal til að finna nöfn á söguhetjurnar. Hið öfluga auglýsingastarf bankans sannaði gildi sitt hinn 25. nóvember 2002 þegar metfjöldi fólks mætti til að gefa blóð, alls 197 manns. Var það mikla átak ekki tilkomið af góðu einu en dagana á undan hafði birgðastaða bankans verið afar slæm.

Árið á eftir hófu Blóðbankinn og símfyrirtækið Og Vodafone farsælt samstarf um auglýsingaherferðir en það sama ár varð bankinn einmitt fimmtíu ára. Eftir fimmtíu ára starf safnaði bankinn um fimmtánþúsund einingum blóðs árlega og blóðgjafar töldu um tíuþúsund. Afmælinu var meðal annars fagnað með opnu húsi í bankanum. Árið 2005 var herferðinni „Hetjur óskast", í samstarfi við Og Vodafone hrundið af stað. Var átakinu ætlað að draga fram þá staðreynd að sérhver blóðgjafi sé hetja í hvert skipti sem hann gefur blóð og athygli vakin á því að til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu þarf Blóðbankinn um sjötíu blóðgjafa á dag. Þessu átaki var svo haldið áfram árið á eftir undir lítillega breyttu heiti – „Allir geta verið hetjur." Sem fyrr segir var samstarf Blóðbankans og Vodafone farsælt og því til staðfestingar hlaut Blóðbankinn til að mynda verðlaun fyrir auglýsingu sína „Ert þú gæðablóð?" á málræktarþingi íslenskrar málnefndar sem fram fór í hátíðarsal Háskóla Íslands hinn 19. nóvember 2005.

Jákvæð athygli samfélagsins beindist svo enn að starfsemi bankans vorið 2006 þegar Guðbjörn Magnússon, rafeindavirki, var útnefndur Hvunndagshetja Fréttablaðsins fyrir að hafa reglulega gefið blóð allar götur frá árinu 1965. Þegar blaðið ræddi við hann vegna útnefningarinnar lét hann afar vel af Blóðbankanum og starfsfólki hans. Í desember sama árs náði Guðbjörn svo þeim merkilega áfanga að gefa blóð í hundraðogfimmtugasta skipti, og hafði hann þá gefið oftar en nokkur annar Íslendingur. Skömmu síðar, í byrjun janúar 2007, náðist enn merkur áfangi í blóðgjöfum þegar fimmtugasti blóðgjafinn bættist í hóp þeirra sem gefið höfðu blóð hundrað sinnum eða oftar. Skömmu síðar flutti Blóðbankinn svo í núverandi húsnæði sitt. Síðustu ár hefur Blóðbankinn eftir sem áður verið duglegur að vekja athygli á sér óg hvetja fólk til blóðgjafa með hinum ýmsu auglýsingaherferðum og uppátækjum.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania