Blóðgjafir á tuttugustu öld

Nýtt fag verður til 

Að öllu samanteknu má það heita merkilegt að nokkrum hafi þótt blóðgjafir fýsilegar áður en ABO-blóðflokkakerfið var uppgötvað. Mestan heiður af uppgötvun þess á austurríski læknirinn Karl Landsteiner (f. 1868 – d. 1943) sem birti niðurstöður sínar í ritgerð árið 1901. Merkilegt nokk vakti uppgötvun Landsteiners ekki ýkja mikla athygli í fyrstu og raunar varð blóðflokkun ekki að almennu verklegi í læknavísindum fyrr en á 3. áratug 20. aldar. Í því samhengi er auðvelt að skilja hví Landsteiner fékk Nóbelsverðlaun í læknisfræði einmitt árið 1930, tuttuguogníu árum eftir að hann kunngerði uppgötvun sína. Um líkt leyti voru að verða stórstígar framfarir í læknisfræði, þar á meðal voru fyrstu vísarnir að blóðbankastarfsemi að taka á sig mynd. Tilurð þeirra valt mjög á uppgötvunum nokkurra ótengdra hópa vísindamanna sitthvorum megin áramóta 1914-1915, á storkuvara fyrir blóð í geymslu, ákveðna lausn sodium citrate [finna íslenskun]. Varð þá fyrst ónauðsynlegt að stefna blóðgjafa og –þega ævinlega saman, með öðrum orðum varð mögulegt að geyma blóð utan líkama fólks.

Þessar fyrstu þreyfingar í blóðbankastarfsemi voru sem eðlilegt er um margt frábrugðnar því sem síðar varð í faginu og kannski þess vegna eru nokkur áhöld um það nákvæmlega hvenær fyrsti blóðbankinn var settur á legg. Í nútímaskilningi þess orðs var það að líkindum blóðbanki sá sem rússneski læknirinn Sergei Yudin kom á fót við Nikolay Sklifosovskiy-stofnunina í Moskvu árið 1930. Enn frekari framfarir í átt til nútíma blóðbankastarfsemi urðu árið 1935 við Mayo Clinic í Minnesota í Bandaríkjunum þar sem John S. Lundy skipulagði og setti á stofn fyrsta blóðbankann þarlendis. Þar var blóði safnað í þartilgerðar flöskur og það síðan geymt í kæli uns að því kom að nota þurfti það. Þetta sama ár var svo haldið í Róm fyrsta heimsþing Alþjóðlegs félags um blóðgjafir (e. International Society of Blood Transfusion). Allnokkru áður hafði fyrstu skipulögðu blóðgjafaþjónustu veraldar verið komið á legg í Lundúnum, eða þegar árið 1921. Var þar um að ræða þjónustu á vegum Rauða krossins, sem sá um að skrá væntanlega gjafa, blóðflokkagreina þá og hafa samband þegar á þurfti að halda. Má kalla að þar hafi verið um að ræða gangandi blóðbanka. Fyrsti vísirinn að íslenskum blóðbanka var einmitt af þeim meiði og skal nú vikið að þróun þessara mála á Íslandi.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania