Blóðhlutavinnsla og þjónusturannsóknir

Áður en Blóðbankinn var stofnaður var þess lítill sem enginn kostur hérlendis að geyma blóð til notkunar síðar meir. Var blóði þá dælt beint frá blóðgjafa til -þega þegar á þurfti að halda. Sem gefur að skilja gat þessi tilhögun valdið vandkvæðum í neyðartilvikum. Það segir sig ennfremur sjálft að blóðhlutavinnsla fór ekki heldur fram að neinu marki fyrr en Blóðbankinn kom til sögunnar.

Fyrst um sinn var slík vinnsla þó fyrirferðalítill hluti af starfsemi bankans. Var þá enn að mestu leyti nýst við heilblóð til blóðgjafa. Smám saman tók síðan starfsemi bankans breytingum í takt við framfarir í læknavísindum og á tæknisviðinu. Er nú svo komið að allt það blóð sem í Blóðbankann kemur er unnið í blóðhluta og bankinn lætur ekkert heilblóð frá sér. Með þessum starfsháttum hefur náðst fram mun betri nýting blóðs. Þar fyrir utan hefur vinnsla ýmissa blóðhluta verið mikilvæg í sambandi við sóttvarnir og meðferð við vissum sjúkdómum. Þá hefur Blóðbankinn sinnt ýmsum þjónusturannsóknum á blóði, bæði sem snúa beint að starfsemi hans og fyrir aðila sem einhverra hluta vegna hafa ekki haft tök á að sinna umræddum rannsóknum. Loks má nefna að á síðari árum hefur Blóðbankinn fengið nýtt og æ mikilvægara hlutverk í sambandi við svokallaðar merg- eða stofnfrumumeðferðir sem hvarvetna hafa færst inn á svið blóðbanka.

Þótt aðstæður til slíkra verka væru bágbornar á landinu var reyndar byrjað að vinna blóð að nokkru áður en Blóðbankinn tók til starfa. Var það þá ekki gert að staðaldri heldur aðeins eftir því sem brýn þörf kallaði hverju sinni. Vorið 1950 gekk skæður mislingafaraldur yfir Reykjavík. Til þess að verja þá sem ástands síns eða aðstæðna vegna máttu illa við mislingasmiti var gripið til þess ráðs að útbúa blóðvökva með mótefni til að gefa viðkomandi. Til þess að vinna blóðvökvann þurfti blóð og því voru þeir sem þegar höfðu smitast og höfðu náð 18 ára aldri hvattir til að gefa blóð á Rannsóknastofu Háskólans. Fengju viðkomandi 75 krónur greiddar fyrir blóðgjöfina, að því gefnu að þeir gætu framvísað læknisvottorði smiti til sönnunar, en á þessum árum tíðkaðist það enn víða um lönd að blóðgjafar fengju greitt fyrir viðvikið.

Það kemur því lítt á óvart að áður en Blóðbankinn tók til starfa hafi verið uppi áform um að í honum yrði unnið blóð til annara nota en hefðbundinnar blóðgjafar. Um mitt ár 1951, þegar nokkur kurr var kominn í forvígismenn um stofnun Blóðbankans vegna þess hve það dróst að hann tæki til starfa, skrifaði Níels Dungal grein í Fréttabréf um heilbrigðismál sem jafnframt er lítt dulin ádrepa á stjórnvöld fyrir seinagang í málinu líkt og áður hefur verið rakið. Í greininni rekur Níels uppgötvun bandarískra vísindamanna þess efnis að nýtast megi við gammaglóbúlín í blóði til að bólusetja gegn mænusótt. Segir Níels þar enn fremur að búast megi við mænusóttarfaraldri hvað á hverju á Íslandi og því enn frekari ástæða en ella til að flýta stofnun Blóðbankans því í hyggju sé einmitt að vinna téð gammaglóbúlín í bankanum. Síðar sama ár skrifar Níels í sama blað grein um starfsemi blóðbankans í Miami í Bandaríkjunum. Brýnir hann þar jafnframt mikilvægi blóðbankastarfsemi til að unnt sé að veita krabbameinssjúkum viðeigandi meðferð og má af því ráða að fyrirhugað hafi verið að notast við Blóðbankann til slíkra meðferða.

Sú varð enda raunin og því var frá upphafi nokkur vinnsla blóðs í bankanum. Húsnæði, tækjakostur og starfsmannafjöldi var þó framan af slíkur að ekki var mikið svigrúm til slíkra starfa. Voru framfarir á þessu sviði því hægar framan af. Þegar kemur fram á 7. áratuginn aukast umsvifin þó smám saman og stórt skref er svo tekið fram á við árið 1967 þegar tekin var í notkun ný skilvinda sem gerði kleift að skilja blóðvökva frá blóðkornum. Blóðvökvann var í kjölfar þess hægt að frysta og geyma mun lengur en heilblóð. Um þetta leyti var viðhorf lækna til blóðbankastarfsemi enda talsvert tekið að breytast. Læknafélag Reykjavíkur skipaði árið 1964 nefnd til að fjalla um framtíðarskipulag spítalalæknisþjónustunnar. Nefndarálit lá fyrir 1966 og birtist í Læknablaðinu 1967. Í umfjöllun um svæfingaþjónustu Landspítalans er það fyrirkomulag m.a. gagnrýnt að „[f]rá stofnun Blóðbankans [hafi] sérfróður læknir aldrei annazt eftirlit með starfsemi hans og svæfingarlækni Landspítalans falin forstaða hans í hjáverkum." Þess má geta að á meðal nefndarmanna var Ólafur Jensson, sem skömmu síðar varð fyrsti læknirinn sem ráðinn var í fullt starf sem forstöðulæknir Blóðbankans. Undir lok 7. áratugarins og þegar kemur fram á þann 8. tók starfsemi Blóðbankans miklum breyting, umfang jókst og ný verkefni færðust inn á verksvið hans. Í samantekt sem gerð var um starfsemi bankans árið 1978 var áætlað að umfang blóðgjafastarfseminnar einnar saman hafði að jafnaði aukist um sjö til níu prósent á fyrstu tuttuguogfimm starfsárum bankans. Í samantektinni er Ólafur Jensson ómyrkur í máli þegar kemur að breytingum á starfsemi stofnunarinnar og endurnýjun tækjakosts. Hann skrifar þar eftirfarandi:

Nútíma skurðlækningar, slysameðferð, fæðingahjálp og erfiðari lyflækningar og geislalækningar á illkynja meinum gera sífellt meiri kröfur til blóðbankastarfseminnar: Blóðsöfnunar, blóðflokkagreiningar blóðgjafa og blóðþega og vinnslu einstakra blóðþátta til að fullnægja sérþörfum sjúklinga, sem þurfa meðferð. Þessi þróun hefur gert kröfu til nákvæmari greiningartækni á erfðaþáttum blóðs og vefja bæði hjá sjúklingum og blóðgjöfum og ennfremur til bættra aðferða við samræmingarpróf, svo að komist yrði hjá sem flestum aukakvillum við blóð- og blóðhlutagjafir. Tæplega er hægt að segja að þannig hafi verið búið að blóðbankastarfsemi á Íslandi, að hún væri í samræmi við vöxt og þróun þeirra deilda sjúkrahúsanna, sem helst þurfa að hafa nútíma blóðbankarekstur að bakhjarli.

Í kringum áramótin 1969-1970 voru teknar upp almennar, altækar Rhesus-varnir hér á landi og var landið hið fyrsta í heiminum til að gera slíkt. Helgaðist það meðal annars af fæð landsmanna. Rhesus-blóðflokkakerfið hafði verið uppgötvað af Alexander S. Wiener og Karli Landsteiner árið 1937 án þess þó að þeir gerðu sér þegar í stað grein fyrir mikilvægi þess. Tveimur árum síðar, í júli 1939, birtu Philip Levine og Rufus E. Stetson svo grein þar sem ályktuðu fyrstir manna hverjar orsakirnar væru að baki banvænni mótefnamyndun vegna Rhesus-kerfisins. Þeir báru þó ekki kennsl á umrætt mótefni sérstaklega þegar í stað en vinna þeirra auk áframhaldandi rannsókna Wieners urðu til þess að árið 1940 fannst hugsanleg orsök nýburagulu og aukaverkana eftir blóðinngjöf, sem var anti-D(Rhesus) blóðflokkamótefnið. Árið 1946 varð Wiener svo fyrstur til að finna meðferð við nýburagulu sem meðal annars orsakast af Rhesus-misræmi, og voru það blóðskipti. Blóðskipti björguðu á næstu árum lífi ótal nýbura og í ágúst 1951 framkvæmdi Elías Eyvindsson, sem síðar varð fyrsti forstöðulæknir Blóðbankans, fyrstu blóðskiptin vegna Rhesus-misræmis hjá nýfæddu barni hér á landi. Blóðskiptin voru þó erfið aðgerð og áfram var leitað lausna á þeim vanda sem af misræmi stafaði.

Það var aðeins tæpum áratug áður en almennar Rhesus-varnir voru teknar upp hérlendis, árið 1960, sem enskir og bandarískir vísindamenn fundu út að með því að gefa Rhesus negatífum konum óvirkt Rhesus-mótefni, mætti hindra hjá þeim mótefnamyndun gegn pósitífum blóðkornum. Árið 1968 kom síðan fyrsta Rhesus-mótefnið á markað. Skömmu síðar eða í ársbyrjun 1969 landlæknisembættinu upplýsingar frá Kanada þess efnis að unnt væri að afla nægilegs magns af Rhesus-mótefni til að veita öllum Rhesus neikvæðum konum á Íslandi viðeigandi meðferð. Undirbúningur var hafinn þegar í stað og ákveðið að mistöð Rhesus-varna skyldi vera í Blóðbankanum. Um haustið var Auður Theódórs meinatæknir svo ráðin til að vinna að Rhesus-vörnum og í desember voru komnar í gang samræmdar Rhesusvarnir sem náðu til allra kvenna á landinu. Sem gefur að skilja var þar um að ræða umtalsverða viðbót við og breytingu á starfsemi blóðbankans. Ónæmisaðgerðir með anti-D immúnglóbúlíni höfðu borið árangur fljótlega eftir að þær hófust árið 1969 en árið 1978 kom marktæk fækkun anti-D tilfella vegna Rhesusvarna meðal barnshafandi kvenna fyrst fram.

Enn jukust svo ýmiss konar rannsóknir á næstu árum. Í nóvember 1971 var byrjað að rannsaka allar blóðeiningar frá Blóðbankanum með tilliti til lifrarbólguveiru B en til að byrja með voru rannsóknirnar gerðar á rannsóknastofu Landakotsspítala. Það var svo tæpum tveimur árum seinna, í október 1973, sem þessar rannsóknir færðust alfarið yfir til Blóðbankans sem síðan hafði þær með höndum. Starfsemin hélt svo áfram að taka örum breytingum í átt til frekari tæknivæðingar og sérhæfingar. Síðla árs 1974 eignaðist Blóðbankinn sjálfvirkan storkuefnamæli sem keyptur hafði verið fyrir gjafafé til stofnunarinnar og árið 1975 var erfðarannsóknadeild Blóðbankans sett á stofn. Til starfa við deildina réðst Alfreð Árnason líffræðingur. Það var svo í mars 1976 sem vefjaflokkun hófst af fullum krafti. Skyldi deildin meðal annars veita þjónustu við sjúkdómsgreiningu og samræmingarannsóknir vegna líffæraflutninga. Þá veitti stofnun deildarinnar möguleika á lausn barnfaðernismála. Með tilkomu deildarinnar varð unnt að flokka erfðamörk nákvæmar en áður var á landinu, en fram til þessa hafði rannsóknarstofa Háskólans slíkar rannsóknir með höndum. Lá þegar hér var komið fyrir hali óleystra barnsfaðernismála sem rannsóknastofa Háskólans hafði ekki getað leyst úr vegna „stöðnunar í erfðarannsóknum[,]" eins og Ólafur Jensson orðaði það í viðtali í Morgunblaðinu. Útilokunarprósenta í faðernismálum hækkaði við þetta til muna. Bankinn átti síðan eftir að hætta þessum prófum árið 1986 í kjölfar deilna um greiðslur

Frekari framfarir urðu sama ár þegar byrjað var að nota aðkeyptar próffrumur og ensím-aðferð með papaíni við skimpróf og mótefnagreiningu. Áður höfðu verið notuð rauð blóðkorn úr fullflokkuðum blóðgjöfum til slíkra verka. Þá rýmkaði líka nokkuð um starfsemi bankans þegar hluti af starfsemi rannsóknastofu Háskólans sem verið hafði í kjallara Blóðbankahússins við Barónstíg flutti þaðan burt og bankinn fékk rýmið til afnota. Var ekki vanþörf á enda tæknivæðing orðin hröð og hún gerði kröfu um aukið rými.

Árið 1978 voru tekin upp í vélræn skimpróf á blóði vegna anti-D Rhesus-varna og varð þá unnt að leita mótefna hjá bæði D-jákvæðum og –neikvæðum konum, en fram að því takmörkuðust mótefnaskimpróf við D-neikvæðar. Í kjölfarið fór svo nýgreindum mótefnum hjá D-neikvæðum konum fjölgandi. Seinna sama ár fagnaði Blóðbankinn tuttuguogfimm ára starfsafmæli og í skrifum af því tilefni var til þess tekið hve mjög tækjakostur bankans hafði batnað á undangengnum þremur til fjórum árum. Á sama tímabili hafði deildaskipting innan hans einnig verið fest í sessi líkt og áður hefur að nokkru verið getið. Á 9. áratugnum jókst blóðhlutavinnsla til mikilla muna og má segja þá hafi hafist þróun sem lyktaði svo mörgum árum síðar með því að tekið var að vinna blóðhluta úr öllu blóði sem barst Blóðbankanum svoleiðis að alfarið var hætt að notast við heilblóð. Var það ekki hvað síst þessi þróun sem réði því að vel gekk að takast á við þann umtalsverða samdrátt sem varð á blóðgjöfum í kjölfar tilkomu HIV-veirunnar á fyrri hluta áratugarins. Jókst nýting blóðs til muna. Var það meðal annars vegna þessa sem bankinn réði vel við að anna blóðeftirspurn þegar byrjað var að gera hjartaskurðaðgerðir hérlendis árið 1984, jafnvel þótt slíkar aðgerðir krefðust þá feykimikils blóðs.

Blóðbankinn fékk enn nýtt hlutverk í ársbyrjun 1980 en það var allólíkt þeim sem hann hafði áður gegnt. Var þá byrjað að gera tæknifrjóvganir á Íslandi og til þess notað frosið sæði sem keypt var frá sæðisbankanum Central Sædbank í Kaupmannahöfn, sem þá var eini sæðisbankinn á Norðurlöndum og einn sá stærsti í Evrópu. Sæðið var flutt til landsins í mjóum plaströrum og síðan geymt í kjallara Blóðbankans við nístandi 196 gráðu frost. Að öðru leyti en því hafði bankinn ekki beina aðkomu að þessum málum, þótt því hafi reyndar verið slegið upp í skopfrétt í Helgarpóstinum nokkru síðar að Blóðbankinn væri að hefja sæðistöku með útflutning fyrir augum. Aldrei stóð útflutningur til að því best fæst séð en hins vegar var í byrjun árs 1989 komið á fót frumurannsóknastofu við erfðafræðideild Blóðbankans, í þeim tilgangi að gera glasafrjóvganir mögulegar. Var Leifi Þorsteinssyni líffræðingi falið það verk fyrir hönd deildarinnar. Tekið var að framkvæma glasafrjóvganir í október 1991. Aðgerðirnar fóru fram á Kvennadeild Landspítalans en öll vinna á frumurannsóknastofu var unnin af sérþjálfuðum líffræðingum Blóðbankans.

Á 9. áratugnum hófst eiginleg tölvuvæðing bankans sem hafði mikil áhrif á alla starfsemi hans. Sama ár og tölvukerfi bankans var tekið í gagnið, árið 1985, varð líka að gera aðra breytingu á starfsháttum hans en var sú til komin af illri nauðsyn. Var þá byrjað að skima allar blóðeiningar fyrir alnæmi, um líkt leyti og sambærileg skimun hófst erlendis. Um mitt ár 1990 fékk Blóðbankinn svo efni til að greina lifrarbólgu C í blóði og varð þá um að ræða þriðja veirurannsóknarprófið sem bankinn tók að gera, á eftir alnæmi og lifrarbólgu B. Árið 1991 var skimað fyrir lifrarbólguveiru C í bráðabirgðaúrtaki 3000 manns, en skimprófin voru þá enn vanþróuð og gáfu ósjaldan falska, jákvæða niðurstöðu. Mikil bragabót varð á þessum málum í september 1992 þegar Blóðbankinn fékk ný og fullkomnari blóðskimunartæki en hann hafði áður haft til umráða sem skimað gátu fyrir lifrarbólguveiru C. Miklar framfarið höfðu orðið í blóðskimun á undangengnum þremur árum og á þeim tveimur síðustu höfðu komið fram próf sem reyndust tiltölulega örugg, ólíkt þeim eldri. Búnaður þessi var sjálfvirkur og skimaði jafnframt fyrir lifrarbólgu B og HIV-veiru. Blóðbankinn sjálfur átti frumkvæði að því að skimun þessi var hafin. Ólafur Ólafsson þáverandi landlæknir og nafni hans Jensson í Blóðbankanum höfðu um sinn farið fram á aukafjárveitingu til skimunar þegar hún loks fékkst um haustið 1992.

Umtalsverð breyting varð á blóðhlutavinnslu og þar með blóðflöguvinnslu Blóðbankans í apríl 1994. Í stað þess að vinna blóðflögur úr blóðflöguríku plasma og þess að hver blóðflöguskammtur teldi sex poka sem innhéldu blóð úr jafn mörgum einstaklingum, líkt og áður hafði verið, voru blóðflögur unnar úr svokölluðu buffy coat frá fjórum einstaklingum og hver skammtur rúmaðist í einum poka. Buffy coat er það nefnt sem eftir er í blóðeiningu þegar bæði rauð blóðkorn og plasma hefur verið fjarlægt. Um líkt leyti hófst líka undirbúningur þess að hægt væri að vinna í Blóðbankanum blóðvökva sem nota mætti til lyfjaframleiðslu. Sú vinna bar lokst ávöxt árið 1998 þegar tókst að vinna slíkan blóðvökva. Blóðhlutaframleiðsla tók á þessum árum hröðum og stórstígum framförum. Árið 2002 var svo komið að allt blóðflöguþykkni sem Blóðbankinn framleiddi var hvítkornasíað og á sama ári hækkaði hlutfall þess rauðkornaþykknis sem síað var ennfremur úr 5% upp í 15% af heildarmagni þess. Skipti þetta sérstaklega máli fyrir sjúklinga sem þurftu eða höfðu fengið ígrædd líffæri eða stofnfrumur, sjúklinga í erfiðri krabbameinsmeðferð og öll börn sem fengu blóðhluta. Á vordögum 2003 hófst undirbúningur að stofnfrumu- og nýrnaígræðslum hér á landi og var Blóðbankinn virkur þátttakandi í þeim verkefnum. Í desember sama ár hófst svo stofnfrumumeðferð með blóðmyndandi stofnfrumum á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi. Undirbúningur hafði lengi staðið yfir og fyrst og fremst verið samstarfsverkefni tveggja eininga á LSH, Blóðbankans og blóðlækningadeildar 11G ásamt fleiri starfsmönnum á lyflækningasviði II. Söfnun stofnfrumna fór fram á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga 11B þar sem annað af tveimur frumuskiljutækjum Blóðbankans var staðsett. Hlutverk starfsmanna bankans var söfnun stofnfrumnanna með blóðfrumuskiljum (aferesis), vinnsla, gæðaeftirlit og frysting stofnfrumnanna. Fyrsta stofnfrumusöfnunin fór fram 9. til 12. desember og gekk að óskum.

Rúmu árið síðar, í janúar 2005, kynnti Blóðbankinn íslenska stofnfrumugjafaskrá sem verða skyldi hluti af norsku stofnfrumugjafaskránni. Stofnfrumur eru einkum notaðar við meðferð sjúklinga með illkynja blóðsjúkdóma eða eitlaæxli en þó er þeim jafnframt beitt við meðferð sjúklinga með meðfædda ónæmisgalla. Stefnt er að hnattvæðingu stofnfrumugjafaskráa og var þetta framtak liður í þeirri viðleitni. Sé sjálfboðaliði með sama, eða mjög líkan, vefjaflokk og sjúklingur með illkynja sjúkdóm einhvers staðar í heiminum er þess farið á leit við viðkomandi að hann gefi sjúklingi stofnfrumur. Með stofnun skrár á Íslandi jukust enn frekar líkur á því að sjúklingar hér á landi gæti fengið stofnfrumur ef á þarf að halda og var því um afar mikilvægt framtak að ræða. Íslendingar tóku kynningu bankans vel og tugir fólks gáfu sig fram til gjafa strax í fyrstu viku. Liður í þessu verkefni bankans var einnig opnun vefjarins stofnfrumur.is, þar sem fræðast mátti um stofnfrumur og framgöngu stofnfrumurannsókna hér á landi og erlendis.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania