Blóðtökur fyrr á öldum

Galen, ögður og bíldskerar

Blóðlækningar eiga sér langa og áhugaverða sögu. Merkilegt nokk koma blóðgjafir þó aðeins við sögu lítils hluta hennar. Lengst af var þeim lækningum sem snéru að blóðbúskap mannsins að langmestu leyti þveröfugt farið – allsráðandi voru blóðtökur.

Blóðtökur voru stundaðar fram á síðari hluta nítjándu aldar, um það leyti sem vísindalegur grundvöllur blóðgjafa nútímans var að byrja að mótast. Þær höfðu þá verið stundaðar um þriggja árþúsunda skeið að minnsta kosti svo vitað sé eða allt frá stórveldistíma Egypta. Meðal annars hafa varðveist skrif um þær frá klassískri fornöld Grikkja og ber þar kannske helst að nefna verk Hippókratesar, sem nefndur hefur verið faðir læknisfræðinnar. En þótt deila megi um það hversu lengi blóðtökur hafa nákvæmlega verið stundaðar er víst að hugmyndir Forn-Grikkja um tengsl frumefnanna fjögurra: jarðar, lofts, elds og vatns og hinna fjögurra vessa mannslíkamans áttu eftir að hafa feykileg og segja má ráðandi áhrif á vestræna læknisfræði allt fram á nýöld. Enn sér þessarar arfleifðar merkis í ýmsum evrópskum tungumálum, þar á meðal íslensku þegar talað er um svartagallsraus eða melankolíu. Svartagall var einn umræddra vessa og var talinn stýra skapbrigðum og andlegu ástandi manna. Hinir vessarnir voru gult gall, slím og blóð. Veikindi voru talin stafa af ójafnvægi á milli vessanna og meðferðir fólust oftar en ekki í því að tilteknu magni eins eða annars vessa var hleypt af líkamanum.

Á fyrstu öld eftir Krist voru blóðtökur þegar orðnar útbreidd lækningaraðferð en vegur þeirra jókst þó til muna á annarri öld þegar rómverski læknirinn og heimspekingurinn Galen frá Pergamum lýsti því ræðu og riti hvernig blóð væri ráðandi vessi. Galen var snjall ræðumaður og rithöfundur og átti auðvelt með að hrífa fólk til fylgis við hugmyndir sínar. Áhrif hans urðu enda gríðarleg og liggja hugmyndir hans meðal annars mjög til grundvallar evrópskrar miðaldalæknisfræði.

Notkun blóðagða í læknisfræðilegum tilgangi hefur nokkuð sótt í sig veðrið á síðustu áratugum, svosem í kjölfar vefjaígræðslu. En jákvæðir eiginleikar blóðögðunnar hafa þekkst frá fornu fari. Líkt og er um blóðtöku með opnun æðar má finna vitnisburð um notkun blóðagða til lækninga meðal forn-Egypta. Elsta heimildin er áletrun í egypsku grafhýsi sem talið er vera frá árabilinu 1567-1308 f.Kr. Elsta ritaða heimildin er þó komin frá gríska skáldinu og lækninum Níkander frá Kolófón. Hann orti meðal annars ljóðabálkinn Þeríöku, Θηριακά, þar sem hann lýsir eituráhrifum ýmissa dýrabita. Þar kemur þó einnig fram það öndvegisráð að beita blóðögðum til að draga eitur úr líkama þess sem bitinn hefur verið.

Á næstu öldum um og eftir Krists burð fer síðan skrifum um notkun blóðagða til lækninga smám saman fjölgandi og er þar mælt með þeim til meðferðar við hinum ólíkustu kvillum, allt frá því að hreinsa eitur eins og fyrr hefur verið lýst til þess að bregðast við lifrarkvillum og blóðgnótt, draga úr bólgum, magaverkjum og yfirdrifinni kynþörf. Meðal annarra höfunda fornaldar sem fjölluðu um lækningagildi blóðagða eru ofangreindur Galen, Rómverjinn Plinius hinn eldri og gríski sjöundu aldar læknirinn Páll frá Aegineta. Hinn síðastnefndi hafði líkt og Galen afar mikil áhrif á bæði vestræn og íslömsk læknavísindi allt fram á nýöld og í skrifum hans og ýmissa sporgöngumanna hans lifðu blóðögðulækningar góðu lífi allt fram á 19. öld þegar þær áttu sína gullöld í Frakklandi.

Blóðtökur voru stundaðar á Íslandi eins og annarsstaðar í Evrópu og virðast hafa sótt í sig veðrið eftir siðaskipti. Mest voru þær iðkaðar af ólæknismenntuðum mönnum, svokölluðum bíldskerum. Eru þeir kenndir við bílda sem voru algeng tól til blóðtöku. Þó er einnig vitað að lækningar voru stundaðar af þjónum kirkjunnar og á Skriðuklaustri, þar sem ýmislegt bendir til að hafi verið lækningamiðstöð eða hospital fyrr á öldum, hafa meðal annars fundist tveir bíldar við uppgröft. Bæði er vitað að munkarnir í klaustrinu tóku sér blóð fimm sinnum á ári af trúarlegum ástæðum en einnig er þekkt að blóðtaka var eitt þeirra meðala sem beitt var gegn holdsveiki, sem allt fram á nítjándu öld var landlæg hérlendis sem víðar.

Í Íslenzkum þjóðháttum lýsir Jónas Jónasson frá Hrafnagili blóðtökuvenjum hérlendis á fyrri öldum. Kemur þar fram að á líkamanum hafi verið alls fimmtíuogþrír blóðtökustaðir og fór staðarval hverju sinni eftir því hvaða kvilli hrjáði sjúkling. Fyrir gat komið að opna þurfti æðar á fleiri en einum stað í einu og algengt var að fólki væri látið blæða á fimm til sex stöðum í senn. Dæmi þekktust af mun fleiri, allt upp í átján. Annað sem mjög varð að hafa í huga voru tímasetningar og taldist Jónasi til að þrettán dagar mánaðar hefðu verið taldir henta til blóðtöku, en aðrir dagar alls ekki. Þá varð ennfremur að taka aldur sjúklingsins með í reikninginn, ungu fólki skyldi taka blóð á vaxandi tungli en því eldra á minnkandi tungli.

Eins og gefur að skilja gat allnokkur hætta verið fólgin í blóðtökum, ekki síst þar sem sú trú var við lýði að ef blóðið fossaði greitt væri mikið loft í því og þeim mun brýnna að það fengi að flæða. Naumast þarf að sökum að spyrja ef bíldskeri hitti á slagæð sjúklings og ekkert var að gert í góðri trú! Eftir því sem menntuðum læknum fjölgaði smám saman hérlendis og þekking jókst á starfsemi líkamans lögðust blóðtökur smám saman af og voru mjög orðnar hverfandi upp úr 1870. Fylgdi sú þróun hér á landi hliðstæðum breytingum erlendis. Læknavísindum fleygði fram og tekið var að móta fyrir mörgu því sem einkennir greinina enn í dag. Að því sögðu er vert að skoða forsögu þess að tekið er að beita blóðgjöfum með markvissum hætti í læknisfræðilegum tilgangi á fyrri hluta 20. aldar, bæði hér á landi og annarsstaðar.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania