Frumbernska blóðgjafa

Blóðdrykkja í hringleikahúsum og dýrablóð Denis 

Að ofan hefur því verið lýst hvernig blóðtaka var ein af höfuðstoðum læknisfræðinnar lengi vel mannkynssögunnar. Þó er ekki þar með sagt að engum hafi til hugar komið að gera hið andstæða, að bæta blóði í líkamann. Elstu heimildir um slíkt eru þó allólíkar og annars eðlis en nútíma blóðgjafir, einkum frásagnir af heilsusamlegum áhrifum þess að innbyrða blóð og var þá allajafna átt við drykkju þess.

Títtnefndur Galen mælti til að mynda með því að við hundaæði væri sjúklingum gefið blóð úr hreysiköttum eða hundum. Ráðleggingar sínar byggði hann bæði á krufningu dýra og eldri hugmyndum Hippókratesar svo og vessakenningunni.

Frægasta dæmið um blóðdrykkju í heilsubótarskyni er að líkindum að finna í lýsingum Pliniusar hins eldri á því hvernig áhorfendur í hringleikahúsum Rómarveldis áttu það til að ryðjast inn á svið hringleikahúsanna í þeim tilgangi að drekka blóð fallinna skylmingaþræla. Þannig töldu þeir sig geta öðlast hlutdeild í þeim krafti og því hugrekki sem bjó í skylmingaþrælnum í lifanda lífi. Svo mikil brögð urðu að þessari hegðun áhorfenda að keisarinn Septimus Severus fann sig knúinn til þess árið 193 e.Kr. að gefa út sérstaka tilskipun þess efnis að athæfi þetta væri bannað! Tengdist þessi trú rómverskra borgara ævafornum hugmyndum um að í blóðinu sé sjálfur lífskrafturinn fólginn. Sem er kannske ekki algalin hugmynd þótt í trú umræddra Rómverja hafi óneitanlega gætt allnokkurrar einföldunar.

Þessi trú Rómverjanna átti eftir að verða lífseig og er vel þekkt í sögunni. Sem þekkt dæmi úr bókmenntum og dægurmenningu mætti nefna vampíruna, sem nærist á blóði annarra og getur í krafti þess öðlast eilíft líf. Vampírur eru ekki aðeins fyrirbrigði úr bókum og kvikmyndum heldur eru þær fyrirferðarmiklar í hjátrú víða um lönd og lifðu löngum góðu lífi í alþýðutrú. Þaðan hafa þær síðan fundið sér leið inn í bókmenntir, dægurmenningu og almannavitund samtímans.

Það kann að sýnast undarlegt að tengja hugmyndina um vampíruna við blóðgjafir, en þegar rætt er um forsögu blóðgjafa er sem fyrr segir að nokkru stigið inn á svið goðsögunnar. Það er enda varla fyrr en á 19. öld sem menn fara með vísindalegum aðferðum að þekkja eiginleika og virkni blóðs, þótt mönnum hafi lærst sitthvað í gegnum aldirnar og á síðustu öldunum þar á undan hafi þekking á líkamsstarfseminni aukist til muna. Lengst af var blóðið einkum þekkt sem dulúðugur, dumbrauður vökvi sem skildi á milli lífs og dauða. Lífsvökvinn.

Annað og sértækara dæmi um hjátrú tengda blóði er saga Elísabetar Báthory. Elísabet þessi var ungversk greifynja á 16. öld og að líkindum eitt afkastamesta morðkvendi sögunnar. Í tímans rás hefur saga hennar þó afbakast nokkuð og fengið á sig þjóðsögulegan blæ. Hefur greifynjunni meðal annars verið gefið að sök að hafa baðað sig upp úr blóði fórnarlamba sinna, ungra kvenna, til að halda í æskuljómann. Sú trú á sér langa sögu og er talin eiga rætur sínar að rekja til Forn-Egypta en heimildir benda til þess að þeirra á meðal hafi þrifist trú á allsherjar lækningamátt blóðbaða. Engar heimildir benda til þess að kvitturinn um blóðböð Báthory greifynju sé á rökum reistur en hann rennir þó frekari stoðum undir það sem áður var sagt, um langlífa trú á dulúðuga eiginleika blóðs.

En nóg af hryllingi. Líkt og áður segir var það blóðtakan sem átti eftir að verða ráðandi læknismeðferð frá klassískum tíma Grikkja og Rómverja og allt fram á 19. öld. Tilraunir með blóðgjafir voru lengst af bæði fáar og umdeildar í samanburði og oftar en ekki fremur tengdar hjátrú og óglöggum ystu jöðrum læknisfræðinnar heldur en henni sjálfri.

Fyrsta dæmið um blóðgjöf sem mögulega var eitthvað í líkingu við þá sem við þekkjum úr heilbrigðisþjónustu nútímans er frá lokum 15. aldar. Samkvæmt sumum túlkunum ku páfinn Innocensíus VIII hafa þegið blóð þriggja ungra pilta í veikindum þeim sem þó áttu eftir að leiða hann til dauða. Eins og fyrr segir er um túlkun að ræða og fræðimenn eru fjarri á einu máli um það hvort Innocensíus drakk blóð piltanna eða fékk það um æð. En þótt hugmyndir manna um blóð og blóðrás væru lengi vel byggðar á hindurvitnum og hjátrú voru líka stigin skref í átt til betri þekkingar á þessu sviði. Arabíski læknirinn Ibn al-Nafis lýsti ferð súrefnissnauðs blóðs frá hjarta til lungna þar sem upptaka súrefnis fór fram og aftur til hjartans á 13. öld. En þar sem hann var uppi og starfandi á tíma bæði Mongólainnrása úr austri og krossferða úr vestri höfðu uppgötvanir hans lítil sem engin áhrif í Evrópu lengi vel.

Fyrsti Evrópumaðurinn til að lýsa fyrirbrigðinu svo óyggjandi sé vitað er Spánverjinn Michael Servetus, sem gerði það í ritinu Christianismi Restitutio um miðbik 16. aldar. Servetusi var þó ekki ætlað að hafa áhrif á lækningasöguna, en fyrir utan að rit hans væri guðfræðirit en ekki læknisfræði var það ásamt honum sjálfum bannfært, og líkt og hann sjálfur enduðu mörg eintök þess á bálkestinum. Sextánda öldin var háskaleg fyrir framsækna lækna ekki síður en guðfræðinga, en Servetus var hvort tveggja!

Það var á 17. öld sem boltin tók virkilega að rúlla. Þá tóku að birtast á prenti víðsvegar í Evrópu læknisfræðirit þar sem lesa mátti nýjar og róttækar hugmyndir um starfsemi líkamans. Smám saman nálguðust menn blóðgjafir til lækninga, viðruðu til að mynda hugmyndir um inngjöf víns í æð til heilsubótar, spreyttu sig á blóðskiptum hænsna í milli og veltu jafnvel upp hugmyndinni um blóðgjafir í æðar manna á prenti.

Eitt það sem sterkast orkaði til að kveikja þennan áhuga manna á blóði og má kalla risaskref í sögu læknavísindanna voru tilraunir, uppgötvanir og skrif enska læknisins Williams Harveys (f. 1578 – d. 1657) sem hann birti í verkinu De Motu Crodis árið 1628. Harvey nam við hinn fræga læknaskóla í Padúa á Ítalíu og byggði að nokkru á verkum forvera síns þar á bæ, Ítalans Realdo Colombo sem hafði komist að sömu niðurstöðum og Servetus um blóðrásina en alls óháð honum. Harvey staðfesti með tilraunum þær niðurstöður, bætti við þær og kom hugmyndinni um alssherjarblóðrás líkamans á framfæri. Þar með má segja að áhuga manna hafi verið vakinn fyrir alvöru. Áður hafði útbreiddasta kenningin um flæði blóðs í líkamanum verið sú að því skolaði einfaldlega fram og aftur, næsta handahófskennt eða í takti við hreyfingar líkamans. Þriðji Padúa-maðurinn sem nefna verður í þessu samhengi er Giovanne Colle sem árið 1628, sama ár og rit Harveys um blóðrásina kom út, skrifaði um blóðgjafir sem mögulega leið til að lengja líf. Líklegt verður að teljast að hann hafi þekkt til verka Harveys en ekkert bendir þó til þess að Colle hafi reynt að gera alvöru úr þessari hugmynd sinni.

Á næstu áratugum í kjölfar þessara uppgötvana lifnaði mjög yfir tilraunum aðlútandi blóðgjöfum og ritaðar heimildir eru til um ýmis tæki sem hönnuð voru í þeim tilgangi að taka mönnum blóð og gefa öðrum. Segja má að 17. öldin hafi verið gróskutími í þessum fræðum. Undarlegt nokk eru þó fáar heimildir til þess efnis að blóðgjöf hafi verið reynd. Tilraunir voru þó gerðar á skepnum, hundum einkum, með gjöf ýmissa vökva og lyfja í æð. Þegar komið er fram yfir miðja öldina fer svo að bera á raunverulegum tilraunum til blóðgjafa. Nokkur áhöld eru um nákvæmar dagsetningar fyrstu blóðgjafanna en heimildir benda þó sterklega til þess að fyrstur til að framkvæma blóðgjöf frá skepnu til skepnu hafi verið enski læknirinn Richard Lower, í nóvember 1666. Fyrstur til þess að framkvæma blóðgjöf frá skepnu til manns var þó að líkindum Jean Denis, einn hirðlækna Lúðvíks XIV Frakklandskonungs – Sólkonungsins – í júní 1667. Áhugavert er að Lower virðist hafa hugsað tilraunir sínar á nótum líkari þeim sem gert er nú til dags en Denis. Þannig kynnti Lower niðurstöður sínar fyrir enska vísindafélaginu og lýsti því hvernig hann framkvæmdi velheppnaða blóðgjöf á hundi.

Denis á hinn bóginn hugsaði blóðgjafir sem meðferð við geðveiki. Það var einmitt þess vegna sem hann kaus að nota lambsblóð til tilrauna sinna fremur en mannsblóð, hann taldi það laust við ástríður og lesti – og má í þeirri skoðun hans sjá hve fornar hugmyndir um blóðið voru þrautseigar. Denis gerði fjölda tilrauna árið 1667 og fram á 1668 en þá kom að tilraun sem átti eftir að hafa afdrifarík áhrif á sögu blóðgjafa um langt skeið.

Denis var þá fenginn til að taka til meðferðar hinn þrjátíuogfjögurra ára gamla Antoine Mauroy sem lýst var sem óðum. Lýsti sjúkleiki hans sé að sögn meðal annars í því að hann hljóp allsnakinn og öskrandi um götur Parísar. Denis gaf Mauroy blóð úr kálfi. Um tíma í kjölfar aðgerðarinnar var tvísýnt um líf Mauroys en þó braggaðist hann að lokum. Lifði hann svo nokkra mánuði uns hann lést að því er virtist óforvarendis. Það tók íhaldssöm læknastétt Parísarháskóla óstinnt upp og fór svo að tilraunir með blóðgjafir voru alfarið bannaðar í Frakklandi. Sá úrskurður hafði áhrif yfir til Englands þar sem sambærilegar tilraunir lögðust af og árið 1679 fór svo að sjálfur páfinn í Róm lýsti yfir banni á blóðgjöfum. Að því sögðu er vert að benda á að skilningur þeirra 17. aldar manna sem fengust við tilraunir með blóðgjafir var fjarri þeim sem síðar varð og í engu tilfelli var blóðgjöf beinlínis nefnd sem meðferð við alvarlegri blæðingu.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania