Húsnæðismál Blóðbankans

Húsið við Barónstíg og hvað svo? 

Saga Blóðbankans er kannski ekki hvað síst merkileg fyrir það hversu tvíklofin hún er. Það er að segja, í einn streng er hún vitanlega saga einnar tiltekinnar stofnunar sem ætíð hefur gegnt því hlutverki að safna blóði, flokka það og geyma fyrir sjúkrastofnanir landsins. En í annan er hún saga gjörbyltingar í starfsemi. Til dæmis um það hve starfsemin er breytt má nefna eftirfarandi: Þegar stofnunin tók til starfa árið 1953 gegndi svæfingarlæknir við Landspítala stöðu yfirlæknis í Blóðbankanum í hlutastarfi og að honum meðtöldum voru starfsmenn bankans fimm talsins eins og fyrr segir. Sextíu árum síðar, árið 2013, er yfirlæknir Blóðbankans sérstaklega ráðins til þess starfs – sem þykir sjálfsagt – og starfsmennirnir um fimmtíu talsins. Gróflega má segja að á sama tímabili og fjöldi Íslendinga hefur ríflega tvöfaldast hefur starfsmannafjöldi Blóðbankans tífaldast, og er ekki vanþörf á þar eð umsvif hafa margfaldast að umfangi og gerbreyst. Til að varpa frekara ljósi á þær breytingar sem orðið hafa á starfinu mætti nefna tilkomu veiruskimunar, blóðhlutavinnslu, tölvukerfis og strangra alþjóðalegra gæðastaðla. Jafnvel tilkomu vísindastarfs, sem í dag þykir sjálfsagður hluti blóðbankastarfsemi en var ekki fyrir að fara í árdaga stofnunarinnar. Breytingarnar felast ekki bara í nýjum og betri tólum og tækjum eða síauknum umsvifum heldur líka í nýjum starfsþáttum og gerólíku verklagi og aðferðum sem áreynslulaust hafa runnið inn í það sem kalla má reglubundna blóðbankastarfsemi. Hin auknu umsvif votta um mun meira en bara fjölgun fólks eða aukna blóðþörf í takt við hana heldur einnig um ógnarhraðfara þróun.

Þannig höfum við hina tvíklofnu sögu; sögu samfellu og rofs, fasta og breytinga. Það er saga Blóðbankans. Kannski má sjá báðar þessar hliðar sögunnar í húsnæðissögu Blóðbankans – sögu breytinga sem þó áttu sér að mestu stað í einu og sama húsinu. Einhverjum kann að þykja einkennilegt í ljósi þessa að rekja þurfi húsnæðismál Blóðbankans sérstaklega. Hann var jú til húsa að Barónstíg fyrstu fimmtíuogfjögur starfsár sín. En sagan er ekki alveg svo einföld.

Rétt er að lengst af var Blóðbankinn til húsa í sama húsinu. En hitt er víst að þar gekk á ýmsu – ítrekað voru breytingar gerðar á húsinu, það lagað að starfseminni og hún á móti að því, mikið var rætt um annað húsnæði og svo mætti lengi telja. Sem sagt, Blóðbankahúsið við Barónstíg var í raun ekki bara eitt og óbreytanlegt. Til að byrja með er rétt að ítreka það sem að ofan var sagt, að til að byrja með deildi Blóðbankinn húsinu með Rannsóknastofu Háskólans, sem hafði allan kjallara hússins til umráða utan eitt herbergi sem Blóðbankinn réði. Taldi efri hæð hússins 280 fermetra. Raunar var ekki gert ráð fyrir því við hönnun hússins að Blóðbankinn þyrfti stærri hluta þess undir starfsemi sína og birtist það til að mynda í því að ekki var innangengt á milli hæða. Efri hæð hússins var enda yfrið nógu stór fyrir starfsemi bankans til að byrja með. Líkt og áður hefur komið fram voru umsvif hans miklum mun minni í upphafi en síðar átti eftir að verða og starfsmennirnir aðeins fimm (og má þá jafnframt ítreka að fyrstu nítján starfsár bankans gengu forstöðlæknar bankans þeirri stöðu aðeins í hlutastarfi, meðfram störfum sem yfirsvæfingalæknar við Landsspítalann). Raunar var svo rúmt um starfsemina til að byrja með að í desember 1953 var undirritaður samningur þess efnis að Krabbameinsfélagi Reykjavíkur væru veitt afnot af einu herbergi á efri hæð hússins til reksturs skrifstofu. Félagið flutti inn snemma næsta árs og fljótlega bættist Krabbameinsfélag Íslands í hópinn.

Tiltölulega litlar breytingar urðu á starfsemi bankans á næstu árum og reyndist húsnæðið framan af vel. Blóðsöfnun tvöfaldaðist reyndar um það bil á árunum 1953 til 1960 en var ásamt annarri starfsemi bankans þó ekki meiri en svo að húsnæðið réð vel við hana. Til marks um það má nefna að árið 1954 stóð Rauði krossinn fyrir námskeiðum í hjálp í viðlögum, sem Elías Eyvindsson hafði umsjón með, og fór kennslan fram í húsnæði bankans.

Næst dró til tíðinda í húsnæðismálum Blóðbankans í maí 1962 þegar Krabbameinsfélög Íslands og Reykjavíkur festu í sameiningu kaup á húsnæði að Suðurgötu 22 og fluttu í kjölfarið skrifstofu sína sem verið hafði til húsa í Blóðbankanum þangað. Var það vel þar sem blóðsöfnun bankans jókst jafnt og þétt allan 7. áratuginn og var í lok hans þrefalt meiri en við upphaf hans. Það var svo fljótlega upp úr því sem húsnæðisskortur tók að gera vart við sig og hófst þá barátta fyrir stærra húsnæði sem segja má að hafi staðið allt fram til ársins 2006, jafnt þótt reglulega hafi lítillega verið stækkað við það húsnæði sem stofnunin hafði til umráða.

Enska skipulags- og ráðgjafarfyrirtækið Llewelyn-Davies Weeks Forestier-Walker & Bor skilaði árið 1972 af sér skýrslu sem nefndist „Landspítalinn: Framtíðaráætlun" og var unnin fyrir Læknadeild Háskóla Íslands og Landspítala. Í henni má sjá að ekki yrði lengi unað við þáverandi húsnæðiskost Blóðbanka. Skýrsluhöfundar eru afdráttarlausir í ummælum sínum um efnið og ekki úr vegi að láta þeim eftir orðið:

 

Loks eru húsnæðismöguleikar blóðbanka ófullnægjandi, og þarf að flytja hann til þess að verða við kröfum um nægilegt húsrými. Blóðbankinn þjónar öllu landinu, en húsnæði hans er of lítið, rannsóknarstofur ófullnægjandi, og lega hans mundi hindra æskileg tengsl hans við paraklínískar rannsóknardeildir, einkum deildir fyrir blóðvatns- og ónæmisfræði. Þangað þarf einnig aðkeyrslumöguleika. (Bls. 5)

 

Ekki aðeins benda skýrsluhöfundar á að húsnæði bankans sé of lítið – þeir töldu bankann þurfa um sexhundruð fermetra til starfsemi sinnar – heldur dæma þeir það ennfremur að mörgu leyti óhentugt til þeirrar starfsemi sem þar fór fram. Síðar í skýrslunni segja höfundarnir að þeir telji æskilegast til langframa að Blóðbankinn verði tengdur annarri starfsemi sjúkrahússins mun meir, að honum verði fundinn staður

 

í húsnæði í læknadeildarbyggingunni sunnan Hringbrautar, nálægt paraklínískum deildum. Ef seinka þarf flutningi blóðbanka, og ef nýbygging slysa- og skyndilækningadeildar hefur ekki þá verið hafin, verður hagkvæmt að bæta úr núverandi húsnæðisskorti blóðbankans með því að bæta við hann til bráðabirgða rými í meinafræðibyggingunni, blokk J. Við teljum samt sem áður, að heppilegri staður fyrir hann sé sunnan Hringbrautar. Gert verður ráð fyrir blóðgeymslum í spítalanum. (Bls. 13)

 

Að þessu sögðu ber að hafa í huga að skýrsluhöfundar hugsa umsögn sína sem langtímaáætlun er taki til spítalasvæðisins alls og þar sem gert er ráð fyrir að heita má algerri endurbyggingu Landspítala. Engu að síður benda þeir á að úrbóta sé þegar þörf, að húsnæðismál séu þegar í ólestri. Þannig leggja þeir til að sem bráðabirgðaráðstöfun verði bankanum fengið eitthvað fjögurhundruð fermetra húsnæði til umráða, á meðan þess sé beðið að starfseminni verði fundinn staður í þeim sexhundruð fermetrum sem þeir telja að þurfi undir hana. Starfsemi bankans var enda farin að taka stórstígum breytingum, ekki aðeins í umsvifum heldur eðli einnig. Auk þess sem blóðsöfnun hélt áfram að aukast allan áratuginn líkt og þann fyrri höfðu smám saman bæst við ýmsir aðrir starfsþættir, markvisst rannsóknastarf var hafið, almennar Rhesus-varnir, veiruskimun blóðs, vinnsla blóðvökva og sitthvað fleira eins og raunar má ráða af fyrri tilvitnuninni í skýrsluna. Það er því hægur vandi að ímynda sér að húsnæðisþörfin hafi aukist umtalsvert.

Samdóma umsögn skýrsluhöfundanna ensku eru orð Ólafs Jenssonar þá tiltöluleg nýráðins yfirlæknis Blóðbankans í samtali við dagblaðið Tímann í ágúst árið eftir. Segir Ólafur húsnæðismál bankans vera slæm, hann þurfi minnst tvöfalt stærra húsnæði til að geta sinnt hlutverki sínu almennilega og innt af hendi þau verkefni sem honum bar. Bæta þyrfti aðstöðu fyrir bæði blóðgjafa og starfsfólk auk þess sem pláss skorti til rannsóknastarfs. Ólafur hafði raunar byrjað að berjast fyrir auknu húsrými Blóðbankanum til handa árið áður. Þann 10. mars 1972 sendi Ólafur stjórnarnefnd Ríkisspítalanna bréf þar sem hann fer þess á leit að byggð verði hæð ofan á Blóðbankahúsið. Segir hann jafnframt að vegna þrengsla sjái hann sér ekki fært að biðja um fjölgun starfsfólks nema sem svari starfsgildi einnar rannsóknarkonu en hann taldi að bankinn yrði að fjölga starfsfólki talsvert meir til að geta rækt hlutverk sitt almennilega. Nefndarmenn tóku ekki illa í tillögu Ólafs og í bókun frá fundi nefndarinnar hinn 23. október 1972 er samþykkt að nefndin mæli með því að hæð verði byggð ofan á húsið. Enn fremur er þar lagt til að þeirri starfsemi Rannsóknastofu Háskólans sem enn var í kjallara Blóðbankahússins verði tímabundið fundinn staður í leiguhúsnæði að Eiríksgötu 5. Athugasemdin um Rannsóknarstofuna er ekki tilkomin af framsýni einni saman. Ólafur hafði nefnilega ekki látið sér nægja að skrifa bréf um húsnæðisvanda Blóðbankans heldur hafði hann um haustið 1972 tekið að ryðja starfsemi Rannsóknastofunnar í kjallaranum burt, herbergi fyrir herbergi og koma þar í staðinn upp rannsóknaraðstöðu fyrir Blóðbankann. Segja má að umrætt ár hafi verið nokkurs konar kreppuár í húsnæðismálum beggja áðurnefndra stofnana, því ekki var síður þrengt að Rannsóknarstofunni árið 1972 eins og raunar um nokkurra ára skeið og er því ekki að undra að til nokkurs núnings hafi komið.

Það fór þó ekki svo að af ofanábyggingunni yrði jafnt þótt stjórnarnefndin hafi ályktað í þá veru. Um vorið 1973 hefur nefndin endurskoðað afstöðu sína lítillega, það er að segja að hún leggur til að Blóðbankanum verði fengið húsrými í fyrsta byggingaráfanga nýbygginga fyrir rannsóknarstofnanir á Landspítalalóð en þær framkvæmdir voru þá áætlaðar fyrr en seinna. Gæti hins vegar ekki orðið af þessu, bætti nefndin við, yrði ekki hjá því vikist að grípa til bráðabirgðalausna svo sem þeirrar sem Ólafur hafði lagt til. Hugmyndin um ofanábyggingu Blóðbankans átti eftir að dúkka upp höfðinu oftar á komandi áratugum og lifði lengi með Ólafi.

Það húsnæði sem bankinn hafði til umráða stækkaði enda nokkuð á 8. áratugnum þótt hvorki kæmi sú stækkun til í formi rýmis í nýbyggingu né nýrrar hæðar. Enn minnkaði það rými sem Rannsóknastofa Háskólans hafði til afnota í kjallara Blóðbankahússins árið 1976 og fékk Blóðbankinn það rými þá undir starfsemi sína. Árið 1976 flutti Rannsóknastofa Háskólans endanlega út úr kjallara hússins þegar reist var bráðabirgðahús henni til handa á lóð Landspítalans, svo bankinn hafði þá loks allt húsið til umráða. Var svo komið að á tuttuguogfimm ára afmæli bankans árið 1978 hafði hann yfir um það bil tvöfalt meira húsrými að ráða en í byrjun áratugarins, alls um fimmhundruðogsextíu fermetrum. Að því sögðu má þó minna á það sem segir í skýrslu Llewelyn-Davies Weeks Forestier-Walker & Bor frá árinu 1972, að þá þegar var það mat sérfræðinga að bankinn þyrfti að lágmarki sexhundruð fermetra undir starfsemi sína.

Síðla árs 1978 var ráðist í frekari framkvæmdir við Blóðbankahúsið sem urðu til þess að auðvelda starfsemi bankans nokkuð um sinn. Var þá byggt stigahús við gömlu bygginguna svo innangengt var á milli hæða, en svo hafði ekki verið fram að því. Í stigahúsinu voru ennfremur tvö herbergi og hafði viðbyggingin verið hönnuð með það í huga að hún styddi við þær breytingar sem gera varð á innra skipulagi Blóðbankahússins sem taldar voru óhjákvæmilegar þegar hér var komið. Starfsemi bankans hafði enda tekið stórstígum breytingum árin á undan, með stofnun nýrra rannsóknareininga og -deilda. Þrátt fyrir þessar breytingar mátti húsnæði bankans þó tæpast vera minna enda hafði hann þá búið við mikinn hússnæðisskort um alllangt skeið eins og rakið hefur verið.

Það má enda sjá þegar skoðaðar eru skýrslur Ríkisspítala frá 9. áratugnum að endurbæturnar sem gerðar voru árið 1978 voru skammgóður vermir. Segja má að þar verði til fastur liður í kaflanum um Blóðbankann, þar sem drepið er á slæmu ástandi í húsnæðismálum stofnunarinnar. Þrátt fyrir ítrekaðar umkvartanir forstöðulæknis og annarra starfsmanna stofnunarinnar urðu lengi vel litlar breytingar á stöðu mála. Eigi að tiltaka nokkuð yfirhöfuð mætti ef til vill nefna viðgerð á þaki Blóðbankahússins árið 1979, en hún var þá orðin afar brýn! Athyglisvert er að húsnæðismál bankans haldist óbreytt á 9. áratugnum þegar það er haft í huga að áfram héldu miklar umbreytingar á starfsemi hans. Sú stöðuga aukning sem varð í blóðsöfnun bankans allt frá byrjun 7. áratugarins stöðvaði þó loks árið 1984, og má rekja þá breytingu til tilkomu HIV-veirunnar og ótta fólks við hana. Þessi samdráttur í blóðsöfnun þýddi þó síst að starfsemi bankans drægist saman enda jókst blóðhlutavinnsla mjög á sama tíma auk þess sem blóðsöfnun tók fljótlega að aukast á nýjan leik. Blóðhlutavinnslan var sérstaklega fyrirferðarmikil og tengdist því mjög að árið 1986 var byrjað að framkvæma hjartaskurðaðgerðir hérlendis sem eins og gefur að skilja jók þörf fyrir blóðhluta gífurlega. Það var því nokkur þraut að rýma alla starfsemi bankans í hinu mjög svo takmarkaða húsnæði.

Það ber nokkuð merkilegt vitni um hina undarlegu stöðnun í húsnæðismálum bankans að árið 1988 virtist sem enn væri að komast hreyfing á byggingu hæðar ofan á Blóðbankahúsið. Samþykkti borgarstjórn þá teikningar af þriðju hæð sem embætti húsameistara ríkisins hafði unnið. Sem fyrr varð þó ekki af framkvæmdum um sinn en þremur árum síðar, árið 1991, var í útgjaldaáætlun ríkisspítala fyrir árið 1992 gert ráð fyrir þrjátíu milljónum króna til stækkunar á Blóðbankanum. Virtist þá sem af hinum löngu fyrirhuguðu framkvæmdum ætlaði loks að verða. Ekki var þó ráðist í umræddar framkvæmdir árið 1992. Þann 11. nóvember 1993 birtist í Tímanum grein um Blóðbankann í tilefni af fjörutíu ára starfsafmæli hans. Þar er rætt við Ólaf Jensson um starfsemi bankans og koma húsnæðismálin til tals. Segist Ólafur þar „vænta þess að hafist verði handa við byggingu hæðar ofan á Blóðbankahúsið á næsta fjárhagsári[.]" Þá voru liðnir ríflega tveir áratugir frá því að Ólafur hreyfði fyrstur manna hugmyndinni og kom henni á framfæri við yfirstjórn Landspítalans. Skemmst er frá því að segja að Ólafi varð ekki að ósk sinni. Hringferð þessarar hugmyndar á tveimur áratugum, sem lá meðal annars utan um brottflutning Rannsóknarstofu Háskólans úr kjallara og byggingu stigahúss, sýnir það kannski best hversu mikils vandræðagangs gætti í húsnæðismálum bankans. Áratugum saman var ljóst að ekki yrði við svo unað en hvernig sem á því stóð virtust ekki koma fram hugmyndir að framtíðarbreytingum sem sátt náðist um eða sem unnt var að framkvæma. Þannig varð lítil breyting á þessum málum sem þó skiptu svo miklu fyrir starfsemi stofnunarinnar. Aðeins voru gerðar bráðabirgðaendurbætur þegar starfsemin krafðist þess svo mjög að hún myndi hreinlega stöðvast ef ekkert yrði að gert. Þó gekk þetta svo enn um sinn.

Árið 1994 voru enn gerðar nokkrar endurbætur á Blóðbankahúsinu, einkum á aðstöðu blóðgjafa. Var ráðist í þær framkvæmdir í kjölfar skipulagsbreytinga á tölvu- og tækjavæðingu bankans. Enn um sinn urðu slíkar innri tilfæringar einu breytingarnar sem gerðar voru á húsakosti bankans enda þótt löngu væri ljóst að starfsemin krefðist stóraukins húsnæðis. Þegar Ólafur Jensson lét af stöðu yfirlæknis í lok árs 1994 hafði hann starfað við bankann í tuttuguogtvö ár og allan þann tíma barist fyrir stærra húsnæði. Vissulega höfðu orðað talsverðar breytingar á aðbúnaði bankans og húsakosti hans við Barónstíg, en engin bylting hafði þó orðið þar á og raunar voru húsnæðismálin enn með lagi líku því sem talið hafði verið óviðunandi í Weeks-skýrslunni svonefndu frá árinu 1972.

Undir lok 10. áratugarins kom til tals hjá stjórn Ríkisspítalanna að Blóðbankinn fengi nýjan og hentugri samastað í nýrri og endurbyggðri Templarahöll. Í viðtali við Morgunblaðið sagði Sveinn Guðmundsson yfirlæknir bankans það hús hafa ýmsa kosti sem henta myndu rekstri Blóðbankans, en þó komst þessi tillaga aldrei af hugmyndastiginu.

 

Árið 2002 kom enn fram hugmynd að verulegum endurbótum á húsnæðismálum bankans. Stjórn Landspítala - Háskólasjúkrahúss fór þess þá á leit við skipulagsyfirvöld í Reykjavík að fá að byggja um 960 fermetra viðbyggingu á þremur hæðum við húsnæði Blóðbankans. Komst nokkur hreyfing á þessi mál. Framkvæmdastjórn LSH beitti sér fyrir áætlanagerð og undirbúningi fyrir viðbygginguna sem hugsuð var til framtíðar og með henni skyldi verða hægt að leiða starfsemi bankans inn í nýja tíma. Í ársskýrslu LSH fyrir árið 2002 segir berum orðum að húsnæði bankans sé „fyrir löngu orðið of þröngt og ófullkomið fyrir starfsemina." Skemmst er frá því að segja að ekkert var af umræddum áformum. Ásmundur Brekkan, prófessor emeritus og fyrrum forstöðulæknir, kom með enn eina tillögu í grein í Morgunblaðinu árið 2005 þegar hann lagði til að Blóðbankanum yrði fundinn staður í gömlu Heilsuverndarstöðinni, sem hann kvað henta vel til þess hlutverks. Ekkert varð frekara úr þeirri hugmynd en um þetta leyti virtist þó vera svo sem að loks kynni að verða af flutningi Blóðbankans í hentugra húsnæði. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2006 var „heilbrigðisráðherra heimilt að selja gamla Blóðbanka-húsið á horni Barónstígs og Eiríksgötu og kaupa eða leigja annað hentugra[,]" líkt og segir í Stjórnartíðindum frá desember 2005. Komust þessi mál í kjölfarið á fullt skrið og í júní 2006 fékk Blóðbankinn, þá enn til húsa við Barónsstíg eftir heil fimmtíuogþrjú ár, leyfi heilbrigðisráðuneytis og fjármálaráðuneytis til að flytja starfsemi sína um haustið í leiguhúsnæði við Snorrabraut 60, þar sem Skátabúðin og síðar líftæknifyrirtækið Urður Verðandi Skuld höfðu áður verið til húsa. Nokkur styr átti eftir að standa um skiptingu nýja hússins, en hvernig sem á það var litið voru flutningarnir gríðarstórt skref fram á við. Það var svo loks hinn 7. maí 2007 sem Blóðbankinn hóf starfsemi í nýjum húsakynnum sínum að Snorrabraut 60, eftir fimmtíuogfjögur ár í upprunalegu húsnæði sínu. Í því ljósi einu saman mega flutningarnir kallast tímamót. Bankinn er enn að Snorrabraut 60. Húsið er á þremur hæðum og telur um sextánhundruðogfimmtíu fermetra og til að byrja með var gert ráð fyrir að Blóðbankinn fengi um tólfhundruð fermetra þar af til afnota. Síðar hefur enn rýmkað um starfsemi bankans og er húsið allt nú haft undir starfsemi hans. Á miðhæð fer fram móttaka blóðgjafa og blóðsöfnun og þar er að finna hina frægu kaffistofu Blóðbankans. Á fyrstu hæð og þeirri þriðju fer síðan fram önnur starfsemi, blóðhlutavinnsla, geymsla, þjónusturannsóknir og fjölbreytt vísindastarf auk þess sem þar eru matsalur og önnur aðstaða fyrir hinn stóra hóp starfsólks sem núorðið starfar við bankann.

 

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania