Innleiðing gæðastaðla

Á 10. áratugnum var hafið mikilvægt starf í Blóðbankanum við innleiðingu formlegra gæðastaðla fyrir starfsemi bankans. Var ráðist í þetta verk að frumkvæði Blóðbankans meðal annars vegna þess að regluverk um starfsemi bankans skorti hér á landi. Sá skortur hafði reyndar lengi verið tilfinnanlegur. Viðleitni í þessa átt hafði þannig hafist löngu fyrr innan bankans. Árið 1978 skrifaði Ólafur Jensson eftirfarandi í samantekt sem hann sendi stjórnarnefnd ríkisspítalanna:

Síðustu fjögur ár hefur verið leitast við að gera umbætur, sem stefna að því marki að fullnægja staðli þeim, sem settur er af sérstakri nefnd Evrópuráðs um blóðbankastarfsemi. Þessar umbætur ná til starfsliðs, tækjabúnaðar og húsnæðis.

Áfram stóð það lengi vel alfarið upp á bankann sjálfan að skapa sér starfsramma. Þannig var það að árið 1996 hóf Blóðbankinn undirbúning fyrir innleiðingu alþjóðlegra staðla, svokallaðra ISO-staðla. Það er að nokkru til marks um skort á regluverki að ekki fyrr en tveimur árum síðar var á Alþingi samþykkt þingsályktunartillaga sem tryggja átti öryggi blóðbankaþjónustu við þjóðarvá, með tilliti til húsnæðis, fjölda blóðgjafa og starfsliðs.

Það var svo í mars 2000 sem Blóðbankinn fékk vottun á starfsemi sinni á sviði blóðsöfnunar, blóðhlutavinnslu, veiruskimunar, blóðflokkunar, gæðaeftirlits og fleiri starfsemisþátta samkvæmt hinum alþjóðlega ISO-9002-gæðastaðli. Varð hann þar með fyrsta stofnunin innan íslenska heilbrigðiskerfisins til að hljóta slíka vottun og enn fremur fyrstur blóðbanka á Norðurlöndum. Segja má að sérlega viðeigandi hafi verið að bankinn fengi vottunina á einmitt þessu ári en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO hafði tileinkað árið blóðgjöfum og voru þær því nokkuð í deiglunni.

Árið eftir voru tekin í notkun tæki og mótað vinnuferli sem snertir blóðflokkanir og skyldar aðferðir, svo og veiruskimun. Talsvert annríki var í bankanum vegna þess. Hin nýju tæki og vinnuferli kröfðust nákvæmra fullgildinga eins og gert er ráð fyrir í ISO-staðlinum. Nýr tækjabúnaður til blóðflokkunar leysti af hólmi 7 ára gamla blóðflokkunarvél sem ekki þótti lengur skila sínu hlutverki eins og vera skyldi og nýr búnaður til veiruskimunar sem einnig var tekinn í gagnið uppfyllti fullkomlega alþjóðlegar kröfur um rekjanleika og vinnuaðferðir.

Enn dró til tíðinda á þessari vegferð bankans árið 2002, nánar tiltekið í mars, þegar hann hlaut alþjóðlega ISO-9000 fyrir allflesta þætti starfseminnar. Í júlí sama árs bættist svo við afgreiðsla blóðhluta til deilda fyrir ákveðna sjúklinga. Blóðbankinn var eina opinbera stofnunin á Íslandi sem hafði fengið slíka vottun á starfsemi sinni og jafnframt fyrsti blóðbankinn á Norðurlöndum til að ná svo langt í vottunarferlinu. Var þá svo komið að allir starfsþættir Blóðbankans nema vefjaflokkun höfðu alþjóðlega vottun.

Um haustið 2003 skilaði Blóðbankinn áliti til heilbrigðisráðuneytisins um tilskipan Evrópusambandsins um blóðbankaþjónustu, þar sem lögð var áhersla á nauðsyn þess að skilgreina skýrar hlutverk Blóðbankans á landsvísu. Sama ár var farið að merkja blóðhluta eftir alþjóðlegum ISBT128-staðli.

Það var svo loks hinn 24. maí 2006 sem þáverandi heilbrigðisráðherra setti reglugerð 441/2006, um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og tóku ákvæði hennar mið af tilskipunum Evrópuþings og -ráðs um gæða- og öryggisstaðla á þessu sviði, svo og um tæknilegar kröfur. Samkvæmt reglugerðinni skyldi LSH starfrækja blóðbanka sem hefði með höndum blóðbankaþjónustu á landsvísu. Í reglugerðinni er ennfremur gert ráð fyrir útibúi á Akureyri til blóðsöfnunar og blóðhlutavinnslu og að sjúkrahúsið þar og LSH gerðu með sér þjónustusamning um starfsemina. Reglugerðin miðaði að því að skapa samhæfða blóðbankaþjónustu á landinu öllu, að tryggja nægilegan fjölda blóðgjafa, nægilegar blóðhlutabirgðir á hverjum tíma og dreifingu blóðhluta eftir þörfum innanlands. Skyldi landið þannig vera sjálfbært með tilliti til blóðhluta og aðgengi landsmanna jafnt. Hún miðaði einnig að því að blóðhlutar séu gefnir af fúsum og frjálsum vilja og án endurgjalds og að öryggi blóðþega og blóðgjafa sé tryggt. Samkvæmt teglugerðinni rann svo blóðbanki Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri inn í Blóðbankann í Reykjavík og varð hluti hans árið 2007

Að ofan hefur aðeins verið stiklað á stóru og óhætt að segja að fjölmargt annað hafi breyst í starfsháttum og tækjabúnaði Blóðbankans, ekki hvað síst á síðustu áratugum. Er það í raun efni í sérstakt verk. En auk þess sem breytingar hafa orðið á þeirri starfsemi sem sem snýr að bjóðgjöfum og –vinnslu, svo og ýmsum þjónusturannsóknum sem bankinn hefur sinnt hefur líka verið unnið í honum margvíslegt vísindastarf.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania