Stofnun Blóðbankans

Nokkuð ber í milli öðrum síðar tíma heimildum þar sem segir að Valtýr Albertsson læknir hafi fyrstur manna hreyft hugmyndinni um stofnun blóðbanka í Reykjavík árið 1949. Hitt er víst að á fundi Læknafélagsins það ár lagði Valtýr til að stofnaður yrði blóðbanki og má ætla að upptaka málsins á þeim vettvangi hafi enn aukið þrýsting á yfirvöld um að hefja framkvæmdir. Það var svo enda hinn 17. september 1949 sem bygging blóðbankahússins á horni Barónstígs og Eiríksgötu hófst. Var byggingin sem fyrr segir sérstaklega hugsuð undir starfsemi Blóðbankans og hönnuð og byggð sem slík.

Þörfin fyrir blóðbanka sýndi sig enn greinilega í maí árið eftir þegar mislingafaraldur gekk yfir Reykjavík. Til þess að verja þá sem ástands síns eða aðstæðna vegna máttu illa við mislingasmiti var tekið upp á því að útbúa blóðvökva með mótefni til að gefa viðkomandi. Til þess að vinna blóðvökvann þurfti vitanlega blóð og því voru þeir sem höfðu smitast og náð átján ára aldri hvattir til að gefa blóð á Rannsóknastofu Háskólans. Fengju viðkomandi sjötíuogfimm krónur greiddar fyrir blóðgjöfina, að því gefnu að þeir gætu framvísað læknisvottorði smiti til sönnunar. Á þessum árum tíðkaðist það enn víða á Vesturlöndum að blóðgjafar fengju greitt fyrir viðvikið og sú tilhögun því ekki úr takti við það sem gerðist í nágrannalöndunum.

Skömmu áður en mislingafaraldurinn kom upp hafði framtíð hins væntanlega blóðbanka reyndar enn skýrst. Elías Eyvindsson var þá ráðinn sem svæfingalæknir við Landspítalann en undangengin þrjú ár hafði hann lagt stund stund á svæfingalæknisfræði svo og deyfingar við skurðaðgerðir í Mayo-spítalanum í Rochester í Minnesota – sem einmitt var í fararbroddi í blóðbankastarfsemi á heimsvísu. Elías var þá jafnframt ráðinn til Rannsóknarstofu Háskólans „og síðan til að veita forstöðu blóðbanka, ef til kemur," eins og segir í Lögbirtingarblaðinu 21. apríl 1951. Líkt og bent var á í Læknablaðinu þetta sama ár eru lok málsgreinarinnar um ráðningu Elíasar sérlega varfærnislega orðuð, ekki síst í ljósi þess að hús Blóðbankans hafði þegar hér var komið við sögu þegar verið reist að mestu. Einhver tregða var þó í kerfinu, nóg til þess að fyrrnefndur Níels Dungal sá sig ítrekað knúinn til þess í greinum í Fréttabréfi um heilbrigðismál þetta sama ár að ítreka þörfina fyrir blóðbanka í Reykjavík. Notar hann meðal annars grein sína um uppgötvun bandarískra vísindamanna á því að nýtast megi við gammaglóbúlín í blóði til að bólusetja gegn mænusótt til að hnýta í yfirvöld vegna tafa á frágangi og standsetningu Blóðbankans. Í hyggju væri einmitt, segir Níels, að vinna téð gammaglóbúlín í Blóðbankanum. Hið sama gerir Níels svo í grein sinni um blóðbankastarfsemi í Miami í Bandaríkjunum um haust 1951 þar sem hann bendir á nauðsyn blóðbanka fyrir krabbameinsmeðferðir. Níels nýtti fleiri tækifæri til að brýna nauðsyn stofnunar Blóðbankans í Fréttabréfi um heilbrigðismál, en þess má reyndar geta að hann ritstýrði því sjálfur.

Um þetta leyti virðist forvígismönnum um stofnun blóðbanka enda hafa verið farin að gremjast nokkuð töfin á stofnun hans. Kemur þetta berum orðum fram í Morgunblaðinu hinn 3. ágúst 1952. Þar kemur líka fram að húsið við Barónstíg hafði þá staðið svo gott sem fullklárað um alllangt skeið en aðeins var eftir að ganga frá innra byrði Blóðbankans og tækjum.

Sumarið 1953 var svo ráðist í lokaundirbúning að stofnun bankans og í ágúst var hann svo gott sem tilbúinn. Aðeins var þá eftir að ganga lítillega frá innréttingum en öll nauðsynleg áhöld til reiðu. Kostnaður við stofnun Blóðbankans nam alls um hálfri annarri milljón króna á þávirði og komu peningarnir að mestu úr ríkissjóði en þó lagði Reykjavíkurbær til tvöhundruðsjötíuogníuþúsund krónur til framkvæmdarinnar. Smíði sjálfs hússins kostaði um milljón krónur. Ráð var gert fyrir því að bankinn tæki til starfa um mánaðarmót októbers og septembers. Þau áform gengu að mestu eftir, með dálítilli seinkun og Blóðbankinn tók formlega til starfa hinn 14. nóvember. Blóðsöfnun hafði þó hafist í vikunni á undan og fyrsta blóðtakan var raunar framkvæmd nærri tveimur vikur fyrr, 2. nóvember. Það var svo nokkuð viðeigandi í samhengi við framtak Íslandsdeildar Rauða krossins tólf árum áður að fyrstir til að gefa blóð í hinum nýja blóðbanka voru nemendur Stýrimannaskólans og á fyrstu starfsviku hans gáfu um sjötíu þeirra blóð.

Starfsemi Blóðbankans var ekki ýkja stór í sniðum til að byrja með. Auk Elíasar Eyvindssonar yfirlæknis störfuðu fjórar manneskjur hjá bankanum, þar á meðal Halla Snæbjörnsdóttir hjúkrunarkona sem hafði kynnt sér starfsemi hliðstæðra stofnana í Bandaríkjunum og þekkti þar af leiðandi vel til þeirra. Elías hafði líka að sótt sér nokkra menntun í blóðbankafræðum til Boston í Bandaríkjunum, þar sem hann dvaldi við nám í þrjá mánuði vor og sumar 1953. Aðrir starfsmenn bankans við stofnun hans voru Ívana Eyjólfsdóttir aðstoðarstúlka, Sonja Hákonardóttir skrifstofustúlka og Guðmunda Guðmundsdóttir starfsstúlka. Þegar hér var komið við sögu var þörfin fyrir blóðbanka í Reykjavík orðin afar brýn og í ræðu Níelsar Dungal við opnun hans kom meðal annars fram að vöntun á blóði hefði að nokkru staðið í vegi fyrir því að læknar, einkum skurðlæknar, hefðu getað framkvæmt allar nauðsynlegar aðgerðir. Má af því ráða að tafir við stofnun bankans hafi staðið læknisvísindum í landinu fyrir þrifum. Um hlutverk stofnunarinnar í upphafi segir eftirfarandi í opinberum Heilbrigðisskýrslum fyrir árið 1953:

 

[T]ilgangur hennar [er] sá að hafa stöðugt til taks nægilegt magn af blóði, þannig að það fullnægi þörfum sjúkrahúsanna í Reykjavík og víðar, eftir því sem við verður komið. Enn fremur eru sjúklingar með alvarlegt blóðleysi sendir í blóðbankann, þar sem þeim er gefið blóð. Auk þess annast stofnunin blóðflokkun og aðrar rannsóknir í sambandi við blóðflokka.

 

Í skýrslunni er talað um „Reykjavík og víðar[,]" en frá upphafi var það skýrt að Blóðbankinn væri starfræktur fyrir landið allt og Níels Dungal hamraði á því í ræðunni við opnun bankans. Þegar bankinn hóf starfsemi sína var fólst hún ekki í öðru en söfnun og geymslu blóðs en þó höfðu þá þegar verið pöntuð frá Bandaríkjunum tæki til vinnslu gammaglóbúlíns, sem meðal annars var notað gegn mænusótt, úr því blóði sem ekki var notað innan þeirra þriggja vikna geymslumarka sem blóð í vörslu bankans hafði. Líkt og starfsmannafjöldi Blóðbankans við stofnun hans ber með sér var starfsemin öll miklum mun minni en síðar varð. Raunar hafði bankinn aðeins efri hæð Blóðbankahússins til umráða í upphafi. Á neðri hæðinni hafði hins vegar Rannsóknastofa Háskólans aðstöðu og voru þar meðal annars haldnar skepnur í rannsóknatilgangi! Að því sögðu er vert að skoða sögu húsnæðismála bankans.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania