Þróun starfsemi Blóðbankans

Þegar Blóðbankinn tók til starfa haustið 1953 voru starfsmenn hans fimm. Í dag eru þeir um fimmtíu. Í ljósi þess mætti segja – óvarlega og án sérstakrar sögulegrar úttektar – að hann hafi tífaldast að umsvifum á þeim sextíu árum sem liðin eru frá stofnuninni. Blóðsöfnun hefur reyndar aukist mun meir en svo en ekki er þó ætlunin hér að fara út í nákvæma útreikninga á stækkun bankans. Hitt er áhugavert að skoða hvernig starfsemi bankans hefur breyst í tímans rás.

Til hæginda verður þróunarsögu bankans gróflega skipt í þrjá hluta. Fyrst er að nefna blóðsöfnun, þá blóðhlutavinnslu og þjónusturannsóknir og í þriðja lagi vísindastarf. Enn mun svo hinum þremur hlutum að nokkru skipt eftir efni. Það væru ýkjur að kalla mörk þessara þriggja sviða fljótandi, hið rétta er að þau eru ekki til. Hvað sem öllum deildarskiptingum líður verður sviðaskipting sögunnar alltaf tilbúningur. Skörun er mikil og flokkun tiltekinna atriða undirorpin mati hverju sinni. Með því að greina söguna í smærri þætti auðveldum við okkur þó að fá heildarsýn yfir hana, eins undarlegt og það kann að hljóma. Í öllu falli verður sýnin skýrari.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania