Tilurð nútímablóðgjafa

Blundell, Pasteur og Landsteiner

Hugmyndinni um blóðgjöf sem meðferð við alvarlegum blóðmissi var fyrst velt upp árið 1749 af Frakkanum Cantwell að því er best er vitað. Þá átti þó enn eftir að líða allnokkur tími uns tekið var að gera tilraunir sem horfðu að einhverju verulegu marki í átt til nútíma blóðgjafalækninga. Fyrst og fremst voru það tilraunir enska fæðingarlæknisins James Blundells (f. 1790 – d. 1877) sem komu hreyfingu á þessi mál á nýjan leik. Með nokkurri vissu má segja að Blundell hafi fyrstur manna framkvæmt blóðgjöf á milli tveggja manneskja. Þess ber að geta að á fyrri hluta 19. aldar voru enn um það talsverð áhöld meðal evrópskra lækna hvort blóðgjafir hefðu yfirleitt nokkuð til síns gildis og tilraunir Blundells því fjarri sjálfgefnar.

Um nokkurra áratuga skeið framkvæmdi Blundell fjölda tilrauna með blóðgjafir manna á milli, sem gengu misvel. Líkleg dagsetning fyrstu blóðgjafarinnar þar sem manneskju var gefið blóð úr annarri manneskju er 22. desember 1818. Blundell áttaði sig á því að ótækt væri að blanda blóði ólíkra tegunda og byggði það á eigin tilraunum. Þrennt má þó nefna sem einkum stóð í vegi fyrir honum: Fyrst er ABO-blóðflokkakerfið sem enn var handan sjóndeildarhrings læknavísindanna lengst af 19. öld. Í öðru lagi skal nefna sýkingarhættu, sem ekki var byrjað að leysa fyrr en með uppgötvunum Pasteurs þaraðlútandi á 7. áratug aldarinnar. Eins og gefur að skilja var sýkingarhætta því æði mikil þegar blóðgjafir áttu sér stað. Í þriðja lagi var sá vandi sem stafaði af kekkjun blóðs og ekki fannst praktísk lausn á fyrr en komið var fram á 20. öld.

Á árabilinu 1818 til 1829 framkvæmdu Blundell og samstarfsmenn hans alls tíu blóðgjafir, hvar af aðeins fjórar virðast hafa haft tilætluð áhrif. Af heimildum má reyndar ráða að í tveimur tilfellanna hafi sjúklingar hreinlega verið látnir áður en þeir komu til meðferðar hjá Blundell. Mikilvægi framlags hans verður þó tæpast ýkt. Eitt það sem merkast er í störfum Blundells er það hversu hann brýndi fyrir meðlæknum sínum að beita blóðgjöfum til sængurkvenna sem misst höfðu mikil blóð við fæðingu. Það var enda einmitt í þessum tilgangi sem áhugi hans á blóðgjöfum vaknaði. Árið 1824 lýsti Blundell á prenti aðferð við að dæla blóði beint úr blóðgjafa í blóðþega en þó beitti hann þeirri aðferð aldrei sjálfur, heldur safnaði blóði í þartilgert ílát og dældi því síðan þaðan yfir í sjúklingana. Árið 1830 virðist Blundell hafa misst áhugann á lækningum og lét hann í kjölfarið af þeim störfum, en hann var þá auðugur maður og hafði ráðrúm til að snúa sér að öðrum hugðarefnum. Það var svo annarra að stuðla að viðgangi þeirrar þróunar sem heita má að hann hafi hrint af stað.

Blóðgjöfum óx smám saman ásmegin á áratugunum í kjölfar starfs Blundells. Rússneskur læknir sem kynnst hafði störfum Blundells og félaga í Lundúnum framkvæmdi að líkindum fyrstu blóðgjöfina í Rússlandi árið 1832 en heimildir benda til að blóðgjafir hafi tæpast verið stundaðar í Bandaríkjunum fyrr en árið 1854. Áður höfðu þær verið framkvæmdar allvíða um Evrópu.

Fyrstur manna til að nýtast við aðferð til að færa blóð beint úr gjafa til þega var svissneski læknirinn J. Roussel, árið 1865. Það sama ár gerði Louis Pasteur líka merkar uppgötvanir sínar á áhrifum sýkla- og sveppasýkinga sem áttu eftir að hafa mikil áhrif innan læknavísindanna í heild. A.E. Wright birti árið 1894 niðurstöður tilrauna sinna með saltlausnir til að koma í veg fyrir kekkjun en þá áttu þó eftir að líða tveir áratugir og ári betur uns nothæfar lausnir á þessu vandamáli fundust og tóku að hreyfa verulega við þróun nútíma blóðbankatækni. Þess ber þó að geta að frá 8. áratug 19. aldar höfðu menn prófað sig áfram með það að fjarlægja fibrín úr blóði til að koma í veg fyrir kekkjun þess, með dálitlum árangri. Þjóðverjinn Leonard Landois sýndi árið 1875 fram á það með tilraunum hví ekki var fýsilegt að blanda saman blóði ólíkra dýrategunda, en merkilegt nokk höfðu tilraunir með gjafir á milli tegunda haldið áfram fram eftir öldinni og áttu sér öfluga málsvara lengi vel fram til uppgötvunar Landois. Þá má nefna einkennilega uppsveiflu í tilraunum til mjólkurgjafar í æð í Bandaríkjunum á 8. áratug aldarinnar. Það ævintýri var þó skammvinnt og leið undir lok um árið 1880.

Svo sem sjá má höfðu blóðgjafarfræði komist furðu skammt á veg í lok 19. aldar, frá því sem verið hafði heilum tveimur og hálfri öld fyrr. Mestu framfarirnar fram á við í þessum geira urðu í byrjun 20. aldar þegar nothæfar sótthreinsunaraðferðir fundust, þróaðir voru nothæfir storkuvarar og ABO-blóðflokkakerfið var uppgötvað.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania