Upphaf blóðbankastarfsemi á Íslandi

Rover-skátar og blóðgjafasveitir 

Framan af var blóðgjafarþjónusta víðast hvar í veröldinni í formi sveita sjálfboðaliða sem verið höfðu blóðflokkagreindir og skráðir og skuldbundu sig til að mæta þangað sem þeirra var þörf og gefa blóð þegar kallið barst. Fyrsta starfsemin sem skipulögð var á þessa vísu hérlendis var blóðgjafasveit Rover-skáta Væringjafélagsins í Reykjavík, sem sett var á laggir árið 1935.

Blóðgjafir voru þá enn sem komið var framkvæmdar í mun minni mæli en síðar varð. Fyrir tíma blóðgjafaskrár skáta ku hjúkrunarnemar, læknakandidatar og fleiri einkum hafa verið fengnir til að gefa blóð eftir því sem aðstæður kröfðust en vitanlega var sú tilhögun lítt áreiðanleg. Reyndar voru ástæðurnar fyrir því öllu skrautlegri en maður gæti ímyndað sér nú á tímum, en á þessum tíma var sú hugmynd ráðandi innan læknisfræðinnar að karlmenn væru heppilegri til blóðgjafa en konur og hjúkrunarnemarnir því ekki ákjósanlegir blóðgjafar! Reynt hafði verið að leysa úr þessari klemmu sjúkrahússins með því að fá lögregluþjóna bæjarins til að gefa blóð þegar þurfa þótti en þeirri umleitan lækna Landspítalans var synjað af yfirmönnum lögreglunnar í Reykjavík.

Það urðu því skátarnir sem fyrstir urðu til þess að stofna með sér félagsskap um blóðgjafir. Þetta tiltæki reykvískra Rover-skáta var ekki tilkomið fyrir einskæra tilviljun. Enskir Rover-skátar höfðu hafið viðlíka starfsemi nokkrum árum fyrr og á ferðalagi þar í landi árið 1930 kynntist danski skátaforinginn Tage H. Carstensen starfi hinna ensku blóðgjafasveita. Carstensen flutti hugmyndina með sér heim til Danmerkur þar sem blóðgjafasveitir skáta, Spejdernes og Væbnernes Frivillige Bloddonorkorps, voru stofnaðar tveimur árum síðar, árið 1932.

Hinir íslensku Rover-skátar höfðu þessa starfsemi félaga sinna í Danmörku að fyrirmynd þegar þeir byrjuðu blóðgjafarstarfsemi sína árið 1935. Var það gert undir handleiðslu Guðmundar Thoroddsens prófessors á handlækningadeild Landsspítalans. Blóðgjafastarf reykvískra skáta var þó með heldur lausmótaðra lagi fyrstu árin en þó voru þeir skátar sem tekið gátu þátt í starfinu skráðir niður og blóðflokkaðir. Aðeins var um að ræða karlmenn en konur tóku ekki þátt í starfi Rover-skáta. Leifur Guðmundsson, sem skráður er númer sjö í blóðgjafasveitina var þeirra fyrstur til að gefa blóð samkvæmt skrá sem haldin var yfir starfsemina. Í þessa daga voru vinnferlar aðlútandi blóðgjöfum með öllu lausmótaðra lagi en síðar varð. Þegar umrædd skrá er skoðuð er til að mynda áhugavert að sjá hversu mismikið blóð menn gáfu. Ennfremur að ef tiltekinn gjafi kom oftar en einu sinni, eða oftar en tvisvar, gaf viðkomandi einatt mismikið í hvert skipti og má sjá að mönnum voru dregnir allt frá sjötíu millilítrum í og upp í áttahundruðogfjörutíu. Virðist svo vera sem þörf hverju sinni hafi mestu ráðið um það hversu mikið blóð menn gáfu.

Það var svo á fundi Rover-skáta í Reykjavík í ársbyrjun 1939 sem upp kom sú hugmynd að stofna formlega blóðgjafasveit. Úr varð að á fundinum var samþykkt reglugerð fyrir sveitina, nafn hennar ákveðið „Blóðgjafasveit skáta í Reykjavík" og stofnendur hennar taldir allir þeir skátar sem gefið hefðu blóð. Sveitin kom saman um vorið sama ár og var þeim Jóni Oddgeiri Jónssyni og Þorsteini Bergmann falið að vinna að skipulagningu og frekari eflingar sveitarinnar. Þeir Jón og Þorsteinn urðu einskonar varðstjórar sveitarinnar og til þeirra leituðu læknar þegar á blóði þurfti að halda og sáu þeir þá um að virkja meðlimi sveitarinnar. Meðlimirnir voru blóðflokkaðir og undirgengust læknisskoðun tvisvar á ári og fengu skírteini þar sem fram komu blóðflokkur þeirra og staðfesting þess að þeir hefðu undirgengist læknisskoðun. Var til þess mælst að félagar í blóðgjafasveitinni lifðu heilbrigðu líferni, neyttu áfengis í hófi og reyktu lítið! Meginreglan var sú að blóðgjafi gæfi um fimmhundruð millilítra blóðs í hvert skipti en þó gat svo farið að þeir yrðu að gefa upp undir einn lítra. Varðstjórarnir sáu svo um að hæfilegur tími liði á milli blóðgjafa hvers skáta, að minnsta kosti þrír mánuðir. Fljótlega eftir stofnun sveitarinnar voru meðlimir hennar orðnir fimmtíu talsins. Í framhaldi af stofnuninni tóku svo ýmsir aðrir hópar sig til og stofnuðu formlegar sveitir blóðgjafa, sem einnig störfuðu í samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk. Hefur þessi siður að nokkru haldið velli eftir stofnun Blóðbankans þó með óformlegra móti sé, og mætti í því samhengi nefna starfsmenn ýmissa fyrirtækja og stofnana, meðlimi nemendafélaga, félagasamtaka svo sem Lions og Round Table og fleiri. Til að byrja með tók Landspítali upp á því með sjálfum sér að greiða dálitla þóknun fyrir blóðgjafir líkt og þá tíðkaðist víða erlendis, fimmtán krónur fyrir hverja gjöf. Skátarnir stofnuðu árið 1940 með sér sérstakan sjóð, sjúkrasjóð skáta, og runnu allar greiðslur vegna blóðgjafa beint í hann. Úr honum var sjúkum skátum síðan veitt eftir þörfum. Árið áður en hin formlega blóðgjafasveit skáta var stofnuð fengu blóðgjafar úr röðum skáta þrjúhundruðfjörutíuogfimm krónur fyrir vikið. Á fyrsta heila starfsári sveitarinnar, 1941, gáfu meðlimir hennar alls um fjórtán lítra af blóði í þrjátíu blóðgjöfum.

Starfsemin var þó með allólíku lagi framan af þar eð ekki var eiginlegum blóðbanka fyrir að fara og möguleikar til geymslu blóðs ekki fyrir hendi. Blóðgjafa og blóðþega var því stefnt saman upp á Landspítala eða annarri sjúkrastofnun eftir atvikum og blóðið leitt beint úr gjafanum yfir í þegann. Ýmislegt fleira við þessa starfsemi kann að koma okkur nútímafólki spánskt fyrir sjónir svo sem það að til að tryggja flæði blóðs í rétta átt var hafður hæðarmunur á bekkjum gjafa og þega svo að blóð streymdi niður frá gjafanum, jafnt þótt að notast væri við þartil gerða dælu. Þá var á þessum tíma beitt staðdeyfingum við blóðgjafir sem ýmsir þeir sem þekktu tímana tvenna í blóðgjafahlutverkinu sögðu síðar meir að hefðu síst verið til þess fallnar að gera aðgerðina þægilegri! Það kann að virðast hjákátlegt en er þó ekki svo mjög úr takti við blóðgjafir á síðari tímum að reynt var að koma í veg fyrir að gjafi og þegi sæjust, jafnt þótt þeir lægju hlið við hlið. Enn fremur var þess svo gætt að þeir fengju ekki pata af nöfnum hvor annars. Eitt er það svo sem ekki er á minnstu skjön við það sem við eigum að venjast í dag en það er sá siður að bjóða blóðgjöfum að þiggja veitingar eftir blóðgjöf, í öllu falli kaffi, gosdrykk eða ávaxtasafa. Hefur sá siður haldist alla tíð.

Árið 1941 hóf Rauði kross Íslands beina aðkomu að blóðbankamálum á landinu þegar hann gekkst fyrir stofnun blóðgjafaþjónustu líkri þeirri sem stofnuð var á Englandi tuttugu árum fyrr. Í 12. tölublaði Sjómannablaðsins Víkings frá árinu 1941 er fjallað um þetta framtak og í því samhengi talað um stofnun blóðbanka. Má því að vissu leyti segja að þar sé um að ræða fyrstu stofnun blóðbanka á Íslandi, þótt ekki sé þar átt við blóðbanka í þeim skilningi sem lagður er í það hugtak í dag. Er það í öllu falli hið fyrsta sem birtist um blóðbankastarfsemi á prenti á Íslandi. Í Víkingi kemur enn fremur fram að nemendur Sjómannaskólans hafi verið fyrstir til að gefa sig fram til blóðgjafa.

Miðað við þróun þessara mála erlendis voru framfarirnar þó hægar á Íslandi, svo hægar að ýmsum þótti nóg um. Í Þjóðviljanum 31. desember 1947 birtist harðorð grein eftir Ragnheiði Ólafsdóttur sem spurði þess hví ríkisstjórnin sæji ekki til þess að stofnaður yrði eiginlegur blóðbanki í landinu, til að leysa af hólmi „það úrelta fyrirkomulag, að nokkrir skátapiltar og stúlkur gefa blóð öðru hvoru." Í greininni vísar Ragnheiður til eigin reynslu frá Svíþjóð þar sem almennir blóðbankar að hinni bandarísku fyrirmynd voru þá teknir til starfa.

Stuðningsmenn stofnunar almenns blóðbanka þurftu ekki að bíða ýkja lengi eftir því að hreyfing kæmist á málið í kjölfar skrifa Ragnheiðar. Níels Dungal, sem þá var forstöðumaður Rannsóknastofu Háskólans, skrifar grein í Stúdentablaðið árið 1948 þar sem hann lýsir heimsókn sinni í enskan blóðbanka. Í greininni kemur líka fram að áform voru þá þegar uppi um að koma á fót blóðbanka í Reykjavík. Af skrifum Níelsar má enn fremur ráða að áformin hafi þá þegar verið vel á veg komin, þótt framkvæmdir hefðu ekki enn hafist. Téður Níels var enda einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Blóðbankans og var hlutur hans í henni slíkur að ekki væri orðum aukið að kalla hann stofnanda bankans, ef tiltaka á einn mann sérstaklega í því samhengi. Níels sá meðal annars um skipulagningu húsrýmis í Blóðbankanum til að það hentaði starfseminni. Mikið samband var líka á milli Rannsóknastofu Háskólans og Blóðbankans á fyrstu árum hans. Skrifum Níelsar til stuðnings birtist svo grein í Vísi þann 14. júlí 1948 þar sem haft er eftir Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, að fyrirhuguð sé bygging húss fyrir blóðbanka á lóð Landspítalans. Drög höfðu þá þegar verið lögð að gerð hússins og bæðis stærð þess og tilhögun ákveðin að nokkru. Má því segja að þegar hér er komið við sögu hafi boltinn sannarlega verið farinn að rúlla.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania