Vísindastarf og rannsóknir

Vísindastarf í Blóðbankanum hófst að miklu leyti með ráðningu Ólafs Jenssonar í stöðu yfirlæknis árið 1972. Staða hans var um margt frábrugðin stöðu forrennara hans þar sem hann var fyrsti forstöðlæknirinn sem gegndi þeirri stöðu í fullu starfi. Fyrri yfirlæknar höfðu fengið þá stöðu í kaupbæti ef svo má segja með stöðu svæfingayfirlæknis á Landspítalanum, það er að segja þeir sem ekki tóku stöðuna að sér tímabundið þegar ekki fengust aðrir til að sinna henni. En Ólafur var líka ástríðufullur vísindamaður og duglegur rannsakandi sem réði um margt þróun bankans frá ráðningu sinni og næstu tvo áratugina. Að því sögðu lagði forrennari hans í starfi, Valtýr Bjarnason, þó líka stund á merkilegar rannsóknir í bankanum, einkum á síðari árum sínum í starfi. Niðurstöður helstu rannsóknar Valtýs birtust þó ekki fyrr en nokkrum árum eftir að hann lét þar af störfum.

Í apríltölublaði hins virta tímarits Annals of Human Genetics 1973 birtist greinin „The Blood Groups of Icelanders." Höfundar greinarinnar eru skráðir O. Bjarnason, V. Bjarnason, J.H. Edwards, S. Friðriksson, M. Magnússon & A.E. Mourant og D. Tills. Grein þessi fjallar eins og nafnið gefur til kynna um blóðflokkasamsetningu Íslendinga, tengsl þjóðarinnar við nágrannaþjóðir og mögulegt mannfræðilegt ætterni hennar. Við vinnslu greinarinnar var byggt var á viðamiklum gögnum Blóðbankans um blóðgjafa, blóðþega og væntanlegar mæður (upplýsingum um blóðflokka sem fengust við mæðraeftirlit). Náðu þessi gögn aftur til stofnunar bankans árið 1953 og fram til 1967. Um var að ræða um það bil tólfþúsund blóðgjafa, álíka marga blóðþega og um sextánþúsund mæður. Voru gögn Blóðbankans líkt og áður hefur komið fram færð inn í tölvu og keyrð saman við Þjóðskrá þannig að unnt var að bera áreiðanleg kennsl á einstaklinga hverra ABO-blóðflokkar og Rhesus voru þekktir og ennfremur að sjá hver var fæðingastaður viðkomandi. Hafði Valtýr varið talsverðum hluta síðustu þriggja til fjögurrar ára sinna sem yfirlæknir Blóðbankans í rannsókn á umræddum gögnum og úrvinnslu þeirra.

Áður en grein Valtýs og samstarfsmanna um blóðflokka Íslendinga birtist hafði þó hafist önnur rannsókn í Blóðbankanum undir stjórn þá nýráðins yfirlæknis, Ólafs Jenssonar. Það var í júlí 1972 og hefur umrætt verkefni verið nefnt Systkinabarnarannsóknin. Var hún fyrsta meiriháttar verkefni Blóðbankans á sviði mannerfðafræði. Rannsóknin sem var allmikil að umfangi tók til fimmhundruðogfimm einstaklinga úr eitthundrað fjölskyldum þar sem foreldrar voru systkinabörn. Til rannsóknarinnar var stofnað af erfðafræðinefnd Háskólans sem hafði yfirumsjón með henni en hún var unnin í samvinnu ýmissa innlendra og erlendra aðila. Framkvæmd rannsóknarinnar fór svo fram í Blóðbankanum undir stjórn Ólafs. Segja má að hún hafi verið bæði fyrirmynd og æfing fyrir starfsfólk bankans sem í kjölfar hennar tókst á við allmörg meiriháttar verkefni af líku tagi og um árabil hverfðust þær rannsóknir sem þar fóru fram að miklu leyti um mannerfðafræði. Það var engin tilviljun.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania