Blóðgjafar

Til að mæta þörfum samfélagsins þarf Blóðbankinn um 16.000 blóðgjafa á ári eða 70 blóðgjafa á dag. Haft er samband við 8 -10.000 virka blóðgjafa á ári hverju og gefa þeir u. þ. b. 15.000 blóðgjafir. Traust og örugg blóðgjöf byggir á heilbrigðum blóðgjöfum. Gott heilsufar er því forsenda blóðgjafar og mikilvægt að kynna sér reglur sem gilda varðandi blóðgjafir. Með því að gefa blóð gefur þú dýrmæta gjöf og getur þannig bjargað mannslífi á einfaldan hátt.

 

Get ég orðið blóðgjafi?

 • Ef þú ert á aldrinum 18 - 65 ára, yfir 50 kg að þyngd og heilsuhraust/ur getur þú gerst blóðgjafi
 • Í hvert skipti sem þú kemur til að gefa blóð þarftu að framvísa persónuskilríkjum með mynd og þú ert skráður í tölvukerfi Blóðbankans
 • Þú þarft að fylla út heilsufarsskýrslu sem þú undirskrifar og samþykkir þar með að allar upplýsingarnar sem þú gefur upp séu réttar
 • Jafnframt samþykkir þú að gefa blóð, sjá bækling "upplýsingar varðandi blóðgjöf"
 • Hjúkrunarfræðingur fer yfir heilsufarsskýrsluna með þér og mælir blóðþrýsting og púls
 • Heilsufarsskýrslan er mikilvægur liður í öryggisneti Blóðbankans og á að tryggja öryggi bæði blóðgjafa og blóðþega
 • Starfsfólk Blóðbankans er bundið þagnarskyldu svo farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál
 • Þér er velkomið að spyrja starfsfólk Blóðbankans spurninga hvenær sem er í blóðgjafarferlinu
 • Við fyrstu komu gefur þú ekki blóð heldur eru einungis tekin blóðsýni til:
 •     Blóðflokkunar- og rauðkornamótefnaskimunar
 •     Járnbirgðamælingar
 •     Almennra blóðrannsókna
 •     Skimunar fyrir lifrarbólgu B og C auk HIV, ásamt sárasótt (sýfilis)
 • Eftir u. þ. b. 2 vikur mátt þú koma og gefa blóð ef niðurstöður blóðrannsókna eru í lagi 
 • Ef eitthvað er athugavert við niðurstöðurnar er haft samband við þig
 • Karlar geta gefið blóð á 3ja mánaða fresti og konur á 4ra mánaða fresti
 • Virkir blóðgjafar geta gefið blóð til 70 ára aldurs
 • Sjá leitarsíðuna http://blodgjafi.is varðandi reglur Blóðbankans um heilsufar og blóðgjafir

Hvernig fer blóðgjöf fram?

 • Mjög mikilvægt er að hafa borðað og drukkið vel fyrir blóðgjöfina
 • Gefðu þér góðan tíma; sjálf blóðgjöfin tekur um 5-8 mínútur en heimsóknin í heild tekur að jafnaði 30-40 mínútur
 • Blóðtakan fer fram í blóðtökusal þar sem blóðgjafinn liggur á þægilegum bekk
 • Nál sem er áföst einnota söfnunarpoka er stungið í bláæð gjafans
 • Fyrst er tekið blóð í sýnapoka og síðar í blóðtökupoka
 • Meðan á blóðgjöfinni stendur er blóð úr sýnatökupokanum sett í sýnaglös fyrir smitskim, blóðflokkun og almenna blóðrannsókn
 • Í hverri blóðgjöf eru teknir 450 ml af blóði sem er um 10% af heildarblóðmagni meðalmanns
 • Þú getur hætt við að gefa blóð eða stöðvað blóðgjöf hvenær sem er, án þess að gefa upp ástæðu

Hvers þarf ég að gæta eftir blóðgjöfina? 

 • Eftir blóðgjöf er blóðgjafa boðið upp á kaffi og meðlæti á kaffistofu blóðgjafa
 • Við mælum með að blóðgjafi setjist niður í minnst tíu mínútur til að jafna sig eftir gjöfina
 • Æskilegt er að hafa umbúðir á stungustað í a. m. k. sex klst. til að koma í veg fyrir sýkingu
 • Hlífa skal handlegg fyrstu klukkustundirnar og ekki lyfta þungu, þar sem stungustaður getur opnast eða blætt undir húð og myndast mar
 • Ekki fara í sund sama dag og blóð er gefið m. a. vegna sýkingarhættu
 • Ekki fara í leikfimi eða aðrar íþróttir sama dag og blóð er gefið þar sem hætta er á að þú finnir fyrir minnkuðu þoli, svima eða jafnvel getur liðið yfir þig
 • Gott er að drekka meira en venjulega daginn sem blóð er gefið, t. d. vatn eða djús til að vinna upp vökvatap
 • Æskilegt er að borða járnríkt fæði
 • Komi upp einhver vandamál/aukaverkanir ert þú vinsamlegast beðin(n) að hafa samband við Blóðbankann, næstu heilbrigðisstofnun eða á Slysa- og bráðadeild Landspítalans í Fossvogi
 • Vinsamlegast látið starfsfólk Blóðbankans vita hafi aukaverkana orðið vart, sem og ef þú veikist á innan við viku eftir blóðgjöf; síminn er 543 5500
 • Ef blóðgjafi er heilsuhraustur finnur hann yfirleitt ekki fyrir neinum óþægindum við að gefa blóð
 • Mögulegar aukaverkanir eru svimi, marblettur, eymsli eða verkur í handlegg, staðbundin húðerting/ofnæmi og almenn vanlíðan eða þreyta
 • Sjaldgæfar aukaverkanir eru yfirlið, bláæðabólga, sýking á stungustað og taugaskaði 

Hvenær má ég ekki gefa blóð?

Sjá hér almennt um frávísanir.
Sjá leitarsíðu Blóðbankans http://blodgjafi.is þar sem hægt er að fletta upp atriðum varðandi heilsufar sem geta haft áhrif á blóðgjöf.
Athugið að þessi síða fjallar ekki um lyf né ferðalög. Vinsamlegast hafið samband við starfsfólk blóðsöfnunar varðandi slíkar fyrirspurnir (s.543-5500).

Hvar get ég gefið blóð?

Blóðbankinn Reykjavík 

Snorrabraut 60 
(milli Domus Medica og Road House) 
sími: 543 5500

Opnunartími: 
mánudaga: 11:00-19:00 
þriðjudaga og miðvikudaga: 08:00-15:00 
fimmtudaga: 08:00-19:00 
föstudaga: lokað

 

Blóðbankinn Akureyri

Glerártorgi
sími: 824-2423

Opnunartími: 
mánudaga til miðvikudaga: 08:15-15:00
fimmtudaga: 11:30 - 18:30
föstudaga: lokað

 
 

Blóðbankabíllinn


Til að auðvelda blóðgjöfum að gefa blóð fer Blóðbankabíllinn reglulega í blóðsöfnunarferðir, bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og út á land.

Til að fá Blóðbankabílinn á þinn vinnustað eða í þitt sveitarfélag, vinsamlegast sendið tölvupóst á
 blood@landspitali.is og tiltakið nafn vinnustaðarins og fjölda starfsmanna.

Sjá:
 Áætlun bílsins.

 

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania