Mótefni á meðgöngu

Myndun anti-D hjá Rh D neg barnshafandi konu

 

Nýbura- og fósturgula getur stafað af því að blóðflokkamótefni komast yfir fylgju frá móður til fósturs.

Líftími fósturblóðkorna styttist vegna mótefna frá móður sem hafa komist yfir fylgju. Þrjár megingerðir mótefna geta valdið sjúkdómi í fóstrum og nýburum. Mótefni gegn rauðum blóðkornum, mótefni gegn blóðflögum og mótefni gegn hvítum blóðkornum.

Blóðflokkamótefni valda blóðleysi, blóðflögumótefni valda blóðflögufæð og hvítkornamótefnin valda skorti á ákveðinni gerð hvítra blóðkorna.

Móðirnin myndar mótefni vegna þess að hún kemst í snertingu við mótefnavakann t.d. við blæðingu milli móður og fósturs. Mótefnið kemst yfir fylgjuna og eftir það hefst eyðing blóðkorna í fóstrinu. Einkenni koma fram á fóstrinu í kjölfarið svo sem bjúgur blæðingar og sýkingar.

Nokkrir þættir sem hafa áhrif á hvort mótefni valda gulu hjá fóstrum eða nýburum

Mismunandi mótefnavakar eru með mismikið af sameindum á yfirborði rauðra blóðkorna.

Fjöldi mótefnavaka getur haft áhrif á það hvort mótefnavakinn er líklegur til að valda nýburagulu en aðrir þættir hafa einnig mikil áhrif. ABO blóðflokkamótefni valda sjaldan alvarlegum nýburagulum en Kell og Rhesus blóðflokkamótefni valda oft alvarlegum nýburagulum.

Sumir mótefnavakar koma veikt eða ekki fram á blóðkornum fóstra eða nýbura og valda þar af leiðandi ekki sjúkdómi.

Flutningur blóðflokkamótefna um fylgju er hægur þar til á um 24 viku meðgöngu og veikjast fóstrin sjaldan fyrir þann tíma. Flutningur eykst hratt á seinni hluta meðgöngu fram að burði. Á þeim tíma er styrkur mótefnanna í fóstrinu oft hærri en í móður.

Anti-D er eitt hættulegasta mótefnið sem kona getur verið með á meðgöngu. Þegar kona sem er ekki með Rhsus D mótefnavakann (er D negatíf) gengur með barn sem er með mótefnavakann (D pósitíft), getur hún komist í snertingu við D-mótefnavakann. Það getur gerst við blóðblöndun á meðgöngu. Blóðblöndun getur átt sé stað við blæðingar, ef konan verður fyrir áverka t.d. í bílslysi, við legvatnsástungu eða vendingu á barni í móðurkviði og svo við fæðingu.

Anti-D mótefnið getur komist yfir fylgju og sest þá á rauð blóðkorn barnsins ef það er D pósitíft. Rauðum blóðkornum sem eru þakin mótefni er eytt og getur því barnið orðið mjög blóðlítið. Ef móðirin er með mikið af mótefninu getur það jaflnvel valdið dauða fóstursins.

Rhesusvarnir hófust á Íslandi í lok árs 1969. Rhesusvarnir felast í því að Rhesus-D negatífum konum sem fæða Rhesus-D pósitíf börn er gefið anti-D mótefni (immúnóglóbúlín) innan við 72 klst eftir fæðingu. Einnig er gefið anti-D mótefni við hvers konar inngrip eða hnjask á meðgöngunni.

Anti-D mótefnið sest utan á þau blóðkorn sem eru með mótefnavakann á sér, þ.e. rauð blóðkorn frá barninu sem hafa komist inn í blóðrás móður. Líkami móðurinnar eyðir þessum blóðkornum áður en hann nær að finna mótefnavakann og mynda mótefni gegn honum.

Mikilvægt er að Rhesus-D negatífar konur sem hafa fætt Rh-D pósitíft barn fái anti-D immúnóglóbúlín meðferð. Þess vegna er tekið naflastrengssýni hjá öllum börnum Rhesus-D negatífra mæðra og það flokkað til að ákvarða Rhesus-D blóðflokk barnsins.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania