Aðrir blóðflokkar

Flestir blóðflokkamótefnavakar eru framleiddir á rauðu blóðkornunum en mótefnavakar Lewis og Chido/Rogers kerfanna myndast annars staðar í líkamanum og eru sogaðir á yfirborð rauðu blóðkornanna.

Blóðflokkamótefnavökum má skipta í tvo hópa

  1. Prótínefni sem myndast eftir forskrift gena
  2. Fjölsykrur á glykóprótínum og glýkólípíðum – gen valda myndun hvata sem kallast glýkósýltransferasar og þessi ensím sjá um að framleiða mótefnavakann.

Þó að ABO og Rhesus blóðflokkarnir séu mikilvægastir við blóðinngjafir geta margir aðrir blóðflokkar valdið aukaverkun við blóðinngjöf (HTR=“Haemolytic Transfusion Reaction“) og nýburagulu (HDN=“Haemolytic Disease of the Newborn“).

Blóðflokkar voru áður notaðir við rannsóknir á glæpum og í barnafaðernismálum en það hefur nú lagst af með tilkomu HLA og DNA rannsókna.
Auðvelt er að nota blóðkorn til rannnsókna vegna þess hve auðvelt er að ná í þau og tiltölulega auðvelt er að gera kekkjunarpróf. Bygging og erfðir himnu-prótína og -lípíða rauðra blóðkorna er nokkuð vel þekkt.

Blóðflokkakerfi eru hópar mótefnavaka sem eru framleidd af samsætum genum.

Flest blóðflokkagen eru jafnríkjandi og sýna viðkomandi mótefnavaka í svipgerð. T. d. er sá sem erfir K og k gen bæði með K og k mótefnavaka á rauðum blóðkornum. Við flokkun greinist sá einstaklingur K+ og k+. Einstaklingur sem er arfhreinn fyrir K mótefnavaka greinist K+, k-.

Á árunum 1950-60 var lýst byggingu og myndun ABO kerfisins. Seint á áttunda áratug tuttugustu aldar var amínósýruröð M og N mótefnavakanna greind.
Frá árinu 1986 hefur DNA tæknin gert mögulegt að greina gerð flestra rauðkornamótefnavaka. Auðveldara er að spá fyrir um starfsemi og hlutverk mótefnavakanna þegar bygging þeirra er þekkt. Í sumum tilvikum hefur einnig verið hægt að sýna fram á virknina.

Sumir mótefnavakanna eru aðeins á rauðu blóðkornunum, önnur finnast einnig í vefjum og á öðrum blóðfrumum.

Heiti blóðflokkamótefnavaka

Alþjóðasamtök blóðinngjafafræða kallast ISBT (“International Society of Blood Transfusion”). Árið 1980 var stofnuð nefnd á vegum þeirra sem reyndi að sameina nafngiftir á blóðflokkamótefnavökum og flokka þau. Niðurstöður frá nefndinni voru birtar árið 1988. Blóðflokkamótefnavökunum var skipt í 26 kerfi. Hverjum mótefnavaka var gefið sex tölustafa tákn. Fyrstu þrír tölustafirnir vísa til blóðflokkakerfisins sem mótefnavakinn tilheyrir (001-026), safni (205-210) eða seríu (700 fyrir lágtíðnimótefnavaka, 901 fyrir hátíðnimótefnavaka). Seinni þrír tölustafirnir eru sértækir fyrir mótefnavakann.

Tafla: Helstu blóðflokkakerfin

Helstu blóðflokkakerfin

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania