Stofnfrumuígræðsla

Háskammta krabbameinslyfjameðferð í kjölfar söfnunar eigin blóðmyndandi stofnfrumna (autologous hematopoietic stem cell transplantation) er meðferðarúrræði sem boðið er upp á hérlendis við ýmsum blóðsjúkdómum og krabbameinum. Byrjað er á að safna stofnfrumum úr blóði og frysta þær. Eftir það fer sjúklingurinn í háskammta lyfjameðferð, sem hefur þau áhrif að auk krabbameinsfrumna deyja einnig heilbrigðar blóðfrumur. Til að koma blóðfrumumyndun aftur af stað að lokinni meðferð fær sjúklingurinn síðan stofnfrumurnar sínar til baka.

Tilfærsla (mobilization) stofnfruma úr blóði í merg

Áður fyrr voru blóðmyndandi stofnfrumur teknar úr beinmerg með tilheyrandi óþægindum fyrir gjafann. Í dag eru stofnfrumur hins vegar fyrst og fremst einangraðar úr blóði. Með inngjöf á vaxtarþætti t.d. granulocyte-colony stimulating factor (G-CSF) fara stofnfrumur úr beinmerg út í blóðrásina. Hlutfall blóðmyndandi stofnfrumna (CD34+ frumur) af heildarfjölda hvítfrumna í blóði fer þá úr <0,01% í 0,05-2,5%.

Stofnfrumusöfnun

Þegar fjöldi stofnfrumna í blóði er í eða yfir 20 CD34+ frumur/µl er þeim safnað úr blóði sjúklinga með blóðfrumuskilju (apheresis). Markmiðið er að sjúklingurinn eigi a.m.k. 4,0 x 106 CD34+ frumur/kg að söfnun lokinni fyrir eina inngjöf. Afurðin er síðan unnin, fryst og geymd í frystikistum við hitastig fyrir neðan -145°C. Til að frumurnar lifi frystinguna af eru þær frystar í lausn sem inniheldur dimethyl sulfoxide (DMSO). DMSO kemur í veg fyrir að ískristallamyndun verði við frystinguna innan frumu og þar með rof á frumuhimnu.

Stofnfrumuinngjöf

Að lokinni háskammta krabbameinslyfjameðferð fær sjúklingurinn stofnfrumurnar til baka. Frumurnar eru teknar úr frysti, þíddar hratt upp á sjúkradeild (bedside) í 37°C heitu vatnsbaði og gefnar sjúklingi. Að öllu jöfnu fer fjöldi daufkyrndra hvítfrumna (neutrophila) upp í 0,5 x 109/l á 9-15 dögum og fjöldi blóðflaga upp í 20 x 109/l á 10-25 dögum. 

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania