Vefjaflokkar

Vefjaflokkar eru sameindir sem finnast utaná flestum frumum líkamans. Þéttleiki þessara sameinda utan á frumunum er mestur á hvítum blóðkornum. Þær hafa verið nefndar “Human leukocyte antigens” (leukocyte = hvítfrumur) því þessar sameindir fundust fyrst á hvítum blóðfrumum. Skammstöfunin HLA stendur fyrir þessar sameindir og er hún mikið notuð.

HLA sameindirnar gegna mikilvægu hlutverki í ónæmissvörun líkamans. Ef sýking kemur upp í líkamanum er peptíð sem er upprunnið úr sýklinum brotið niður í frumunni og bundið HLA sameind. Frumur ónæmiskerfisins “þreifa” á HLA sameindunum og ef frumur ónæmiskerfisins finna óþekkt peptíð sem upprunnið er t.d. úr bakteríu eða veiru, þá ræsist ónæmiskerfið.

Til að geta greint sem mestan fjölda óþekktra peptíða þarf margar gerðir af HLA sameindum. Því eru nokkur gen sem ákvarða þessar sameindir, hvert gen hefur mikinn breytileika og það leiðir til þess að margar útgáfur eru til af þessum sameindum.

Sameindir sem ákvarða vefjaflokka eru byggðar upp af tveimur próteinkomplexum. Vefjaflokkar skiptast í klassa I og klassa II eftir gerð þessara próteinkomplexa.

Klassi I: Aðeins annar próteinkomplexinn er ákvarðaður af vefjaflokkasameindum og hefur hann mikinn breytileika. Hinn próteinkomplexinn heitir β2-microglobulin og er upprunnin af öðru genasvæði. Enginn breytileiki er hjá β2-microglobulin próteinkomplexinum.

Klassi II: Báðir próteinkomplexarnir eru ákvarðaðir af vefjaflokkasameindum en aðeins annar, DRβ1, hefur umtalsverðan breytileika.

HLA mótefnavakar og gen þeirra.

HLA mótefnavakar og gen þeirra.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania