Erfðir vefjaflokka

Gen sem geyma upplýsingar fyrir gerð vefjaflokka eru á litningi 6. Svæðið sem geymir þessi gen, er á genaríkasta svæði mannsins og hefur að geyma mörg gen sem tengjast ónæmiskerfinu. Genin eru nálægt hvert öðru og erfast því oft saman sem ein heild eða haplotypa. Hægt er með fjölskyldurannsóknum að greina hvernig þessar haplotypur erfast milli foreldra og barna.

Dæmi um hvernig HLA mótefnavakar erfast saman frá foreldrum til barna.

Hvert barn erfir eina haplotypu frá hvoru foreldri. Þar sem hvert foreldri er með tvær hapoltypur (eina á hvorum litningi) eru 50% líkur á að tvö börn sömu foreldra hafi sömu haplotypu frá sama foreldri. Þar sem möguleikar á samsetningu haplotypa foreldranna eru fjórir eru 25% líkur á að tvö börn sömu foreldra hafi báðar haplotypurnar sameiginlegar og einnig 25% líku á að þau hafi enga haplotypu sameinginlega, sjá mynd.

Vefjaflokkar sem skipta mestu máli eru: HLA-A, HLA-B og HLA-DR. Genin sem skrá fyrir þessum próteinum hafa mikinn breytileika en það er nauðsynlegt til að þessar sameindir geti þekkt sem mestan fjölda ókunnra peptíða frá sýklum.

Mikill breytileiki felur það í sér að til eru margar útgáfur af þessum próteinum og því eru litlar líkur á að tveir óskyldir einstaklingar hafi sömu gerð vefjaflokka.

Mikill breytileiki felur einnig í sér að það getur verið erfiðleikum bundið að greina á milli mismunandi vefjaflokka því fjöldi þekktra sameinda er mikill og tæknin sem notuð er til flokkunar verður að geta greint á milli þeirra.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania