Sértæk blóðsöfnun

Í sértækri blóðsöfnun eru notaðar blóðfrumuskiljur við söfnun einstakra blóðhluta. Blóðfrumuskiljan skilur frá þann blóðhluta sem safna á, en aðrir hlutar blóðsins renna aftur til blóðgjafans. Með sértækri blóðsöfnun fer fram söfnun á blóðflögum eða blóðvökva.

Eftirspurn eftir mismunandi blóðhlutum er mismikil. Sértæk blóðsöfnun gerir Blóðbankanum kleift að stýra framleiðslunni þannig að hún sé í samræmi við eftirspurn.
Í hverri sértækri söfnun getur hver blóðgjafi gefið tvær til þrjár einingar af sams konar blóðhluta.

Þeir sem uppfylla eftirfarandi lágmarksskilyrði koma til greina sem sértækir blóðhlutagjafar:

 • Vera fullfrísk(ur) og á aldrinum 18 - 65 ára
 • Uppfylla allar heilsufarskröfur Blóðbankans um heilblóðsgjöf
 • Vera að lágmarki 170 cm að hæð, 70 kg að þyngd og hafa að lágmarki 4,5 L blóðrúmmál
 • Hafa gefið heilblóð áður án aukaverkana og vera með góðar bláæðar í báðum handleggjum

Hafir þú áhuga á að gerast sértækur blóðgjafi leitaðu þá upplýsinga hjá hjúkrunarfræðingum Blóðbankans.

Blóðflögugjöf Blóðvökvagjöf

Til að verða blóðflögu-
gjafi þarft þú að auki:

Hvernig fer blóðflögugjöf fram?

 • Nál sem er áföst einnota söfnunarsetti er stungið í bláæð
 • Blóðfrumuskilja dælir blóðinu um skilvindu þar sem það aðskilst í rauðkorn, blóðvökva og blóðflögur
 • Rauðkornin eru gefin til baka til blóðgjafa ásamt hluta af blóðvökva
 • Söfnunartíminn er u. þ. b. 70-90 mín
 • Meðan á blóðflögugjöfinni stendur, situr gjafinn í þægilegum stólbekk með borð fyrir framan sig, þar sem hann getur unnið í tölvu, horft á sjónvarp eða lesið. Honum er velkomið að gæða sér á veitingum af kaffistofu blóðgjafa sem honum eru réttar eftir þörfum, þar sem hann getur ekki skroppið frá meðan á gjöf stendur
 • Líða þurfa tvær vikur á milli gjafa

Hvert er hlutverk blóðflagna?

Blóðflögur gegna til dæmis hlutverki við stöðvun blæðinga og viðgerð æðaveggja.

Hverjir þurfa blóðflögur?

Blóðflöguþykkni eru m. a. gefin fólki í krabbameinsmeðferð, en eru einnig notuð við miklar blæðingar, slys og flóknar aðgerðir, s. s. hjartaaðgerðir.

Varðveisla:

Blóðflögur eru mjög viðkvæmar og eru geymdar í sérstökum skápum við 22C° á stöðugri hreyfingu. Geymslutími er sjö sólarhringar (ein vika).

Til að verða blóðvökva-
gjafi þarft þú að auki:
 • Vera karlmaður
 • Hafa serum próteinmælingu að lágmarki 60 g/L
 • Vera í blóðflokki AB

Hvernig fer blóðvökvagjöf fram?

 • Nál sem er áföst einnota söfnunarsetti er stungið í bláæð
 • Blóðskilja dælir blóðinu um síu þar sem blóðvökvi er skilinn frá
 • Rauðkorn og blóðflögur eru gefin til baka til blóðgjafa
 • Söfnunartíminn er u. þ. b. 30 mín
 • Meðan á blóðvökvagjöfinni stendur, situr gjafinn í þægilegum stólbekk með borð fyrir framan sig, þar sem hann getur unnið í tölvu, horft á sjónvarp eða lesið. Honum er velkomið að gæða sér á veitingum af kaffistofu blóðgjafa sem honum eru réttar eftir þörfum, þar sem hann getur ekki skroppið frá meðan á gjöf stendur
 • Líða þurfa tvær vikur á milli gjafa

Hvert er hlutverk blóðvökva?

Blóðvökvi inniheldur alla storkuþætti og bætir upp tap eða þynningu á storkuþáttum.

Hverjir þurfa blóðvökva?

Blóðvökvi er einkum notaður þegar bæta þarf tap á mikilvægum storkuþáttum í blóði, t. d. við flóknar skurðaðgerðir, alvarlegar sýkingar, bruna og slys. Blóðvökvi er því mikið notaður við skurðaðgerðir og á gjörgæsludeildum.

Blóðvökvi í AB- (ABneg/ABmínus) er sérstaklega mikilvægur þar sem sjúklingar úr öllum blóðflokkum geta þegið þann blóðvökva og er AB- gefinn í neyðartilvikum þar sem blóðflokkur sjúklings er óþekktur.

Varðveisla:

Blóðvökvi er geymdur frystur við -30°C og er geymslutími tvö ár.

 

 

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania