Leit
Loka

Tilkynningar

Blóðbankinn mun í framtíðinni ekki mæla með gjöf RhD Ig (Rhesus D immunoglobulin, Rhophylac®) þegar RhD neikvæðir karlmenn eða konur yfir fimmtugu fá RhD jákvæðar blóðflögueiningar.

Áfram verður mælt með gjöf RhD Ig fyrir RhD neikvæða kvenkyns sjúklinga undir 50 ára aldri sem fá RhD jákvæðar blóðflögueiningar. Meginregla Blóðbankans verður áfram sú að gefa sjúklingum blóðflögueiningar í „sínum" RhD blóðflokki. RhD neikvæðir sjúklingar munu því sem fyrr aðeins fá RhD jákvæðar blóðflögur í undantekningartilfellum, til dæmis þegar um skort á RhD neikvæðum blóðflögueiningum er að ræða. Rétt er að taka fram að afar litlar líkur eru á því að RhD neikvæður einstaklingur sem fær RhD jákvæðar blóðflögueiningar myndi RhD mótefni, þar sem magn rauðkorna í blóðflögueiningum sem framleiddar eru í Blóðbankanum er óverulegt.

Bakgrunnur

Rhesus sameindir eru ekki tjáðar á blóðflögum en eru hins vegar ríkulega tjáðar á rauðkornum. Blóðflögueiningar unnar úr heilblóði eða með blóðskilju innihalda lítið magn rauðra blóðkorna. Mögulegt er að sjúklingar sem þiggja blóðflögueiningar geti myndað mótefni gegn framandi yfirborðssameindum rauðra blóðkorna blóðgjafans. Vegna þessa er sjúklingum sem eru Rhesus D neikvæðir (tjá ekki RhD prótein á sínum eigin rauðkornum) að jafnaði gefnar blóðflögueiningar frá RhD neikvæðum blóðgjöfum. Þetta kemur í veg fyrir myndun RhD mótefna í tengslum við blóðflögugjafir. Hafi sjúklingur einu sinni myndað RhD mótefni mun hann/hún ávallt þurfa RhD neikvæða blóðhluta í framtíðinni til þess að forðast blóðrof (hemolysu) sem getur verið alvarleg aukaverkun. Alvarlegasta afleiðing RhD mótefnamyndunar er þó fóstur- og nýburablóðrof (hemolytic disease of the fetus and newborn) sem getur þróast þegar RhD neikvæðar konur ganga með RhD jákvæð börn. Til þess að koma í veg fyrir RhD mótefnamyndun og vandamál tengd meðgöngu er stefna Blóðbankans sú að gefa RhD neikvæðum konum undir fimmtugu ekki RhD jákvæða blóðhluta, en komi slík tilfelli upp er mælt með gjöf RhD Ig.

 

Virðingarfyllst,

 

Anna Margrét Halldórsdóttir, sérfræðilæknir

Þorbjörn Jónsson, yfirlæknir


Tilkynning frá Blóðbanka_RhD pós flögur til RhD neg þega.pdf

Blóðbankinn hefur hafið afgreiðslu á smithreinsuðu ("pathogen inactivated") plasma til deilda. Vinnsluaðferðin kallast Intercept og er frá fyrirtækinu Cerus. Að jafnaði verður allt plasma framleitt í Blóðbankanum Intercept meðhöndlað og kemur þessi nýja gerð í stað hefðbundins plasma áður. Þar sem Blóðbankinn á enn talsverðan lager af frystu hefðbundnu plasma í vissum blóðflokkum munu notendur þó ýmist fá smithreinsað eða hefðbundið plasma á næstu mánuðum.

Frá október 2012 hafa öll blóðflöguþykkni framleidd í Blóðbankanum verið smithreinsuð með þessari aðferð og er komin góð reynsla á framleiðslu og notkun smithreinsaðra blóðflögueininga.

Intercept meðhöndlað plasma er í öllum aðalatriðum unnið á sama hátt og áður þ.e. annars vegar úr heilblóði blóðgjafa og hins vegar með blóðfrumuskilju (aferesu). Þó hefur sú breyting orðið á framleiðslu heilblóðsplasma að fyrir smithreinsun er fimm plasmaeiningum blandað saman en síðar skipt aftur upp í sex minni plasmaeiningar. Á þennan hátt fæst staðlaðri vara með minni breytileika hvað varðar innihald. Eins og aðrir blóðhlutar lýtur framleiðsla smithreinsaðs plasma gæðastaðli Evrópuráðs sem gerir kröfur um innihald t.d. hvað varðar storkuþætti.

Við smithreinsun með Intercept aðferð er amotaselini (psoralen afleiðu) bætt í eininguna. Amotosalen veldur krossbindingu á erfðaefni við ljómun með útfjólubláu ljósi (UVA) en krossbundið erfðaefni er óvirkt. Að lokinni ljómun er meginhluti amotosalens fjarlægður úr einingunni.

Meginkostir Intercept

  • Intercept óvirkjar fjöldann allan af bakteríum og veirum sem smitast geta við blóðhlutagjöf
  • Intercept óvirkjar hvít blóðkorn sem valdið geta aukaverkunum

Innihald smithreinsaðra plasmaeininga:

Rúmmál: um 200 ml
Frumuinnihald: Rauð blóðkorn < 6,0 x109/L, Hvít blóðkorn < 0,1 x109/L, Blóðflögur < 50 x109/L
Storkuþættir: FVIII ≥ 50 IU/dl, Fíbrinogen ≥ 60% miðað við ferskt plasma

Geymsla og endingartími:

Plasma er geymt fryst við -30°C og er endingartími 2 ár. Þegar pöntun á plasma berst er plasmað þítt í Blóðbankanum og sent til notenda. Plasma sem hefur verið afhent til deildar skal nota við fyrsta tækifæri og innan þess tímaramma sem kemur fram á fylgiseðli. Leyfilegur tími frá frátöku til notkunar eru 24 klst ef plasmað er geymt í viðurkenndum blóðkæli eða blóðkælitösku með hitamæli.

Merkingar á smithreinsuðu plasma.

 

Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans 16. maí 2014

 

 

Blóðbankinn hefur hafið framleiðslu á svonefndu "pathogen inaktiveruðu" (smithreinsuðu) blóðflöguþykkni til deilda. Vinnsluaðferðin kallast Intercept og er frá fyrirtækinu Cerus. Að jafnaði verða öll blóðflöguþykkni frá Blóðbankanum Intercept meðhöndluð og kemur þessi nýja gerð í stað hefðbundinna og geislaðra blóðflögueininga áður.

Við “pathogen inaktiveringu” (smithreinsun) er amotosaleni (psoralen afleiðu) bætt í eininguna. Amotosalen veldur krossbindingu á erfðaefni við ljómun með útfjólubláu ljósi (UVA), en krossbundið erfðaefni er óvirkt. Að lokinni ljómun er meginhluti amotosalens fjarlægður úr einingunni. Í Intercept blóðflögum er einnig ný og endurbætt næringarlausn fyrir blóðflögur (SSP+).

Intercept meðhöndlað blóðflöguþykkni er í öllum aðalatriðum unnið á sama hátt og áður þ.e. annars vegar úr heilblóði blóðgjafa og hins vegar með blóðfrumuskilju (aferesu).

Kostir Intercept

  • Intercept óvirkjar fjöldann allan af bakteríum og veirum sem smitast geta við blóðhlutagjöf
  • Intercept óvirkjar hvít blóðkorn sem valdið geta aukaverkunum
  • Intercept lengir endingartíma blóðflagna úr 5 dögum í 7
  • Intercept kemur í stað geislunar á blóðflögum

Innihald:

Í einni einingu af blóðflöguþykkni eru blóðflögur úr heilblóði átta blóðgjafa en í einni einingu af blóðskiljuflögum (aferesu) eru blóðflögur frá einum gjafa.

Í báðum gerðum af blóðflögueiningum eru u.þ.b. 250-300x 109 blóðflögur.

Rúmmál: 170-210 ml, þar af eru um 30-45% blóðvökvi (plasma).

Öll blóðflöguþykkni verða áfram síuð í gegnum sérstaka hvítkornasíu og eru því hvítkornafrí (< 1 x 106 hvít blóðkorn í einingu).

Geymsla og endingartími:

Endingartími er 7 sólarhringar í Blóðbankanum við +20°C til +24°C á stöðugri hreyfingu. Blóðflöguþykkni sem hefur verið afhent til deildar skal nota við fyrsta tækifæri og innan þess tímaramma sem kemur fram á fylgiseðli. Leyfilegur tími frá frátöku til notkunar eru 4 klst.

 

Ýmis gögn (PDF):

Frá og með lokum janúar 2013 eru allar rauðkornaeiningar sem framleiddar eru í Blóðbankanum við Snorrabraut hvítkornasíaðar (leukofiltration; prestorage leukoreduction; universal leukoreduction). Þessi breyting felur í sér mikinn heilsufarslegan ávinning fyrir sjúklinga og skapar jafnframt hagræðingu. Á næstu vikum verður sett upp framkvæmdaáætlun fyrir samskonar ferli fyrir blóð sem safnað er í starfsstöð Blóðbankans á Akureyri.

Á síðustu árum höfum við innleitt framleiðslu hvítkornasíaðra blóðhluta fyrir ákveðna hópa sjúklinga. Þetta eru td. sjúklingar með illkynja blóðsjúkdóma, sjúklingar sem bíða líffæraígræðslu og öll börn undir 18 ára aldri. Samtals hafa þetta verið uþb. 25% allra framleiddra rauðkornaeininga. Aðrir sjúklingar hafa fengið rauðkornaeiningar sem innihalda hvítkorn, í sumum tilvikum með tilheyrandi aukaverkunum. Um margra ára skeið hafa allar blóðflögueiningar verið hvítkornasíaðar.

Vegna heilsufarslegs ávinnings fyrir sjúklinga hefur sambærileg ráðstöfun verið gerð síðustu 15-20 árin í mörgum löndum s.s. Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Sviss, Kanada og Bandaríkjunum, auk margra Norðurlandanna. Þessi framkvæmd hefur fest sig í sessi sem mikilvæg öryggisráðstöfun til hagsbóta fyrir sjúklinga. Það er því klárlega tímabært að stíga þetta skref hér á landi.

Ávinningur sjúklinga vegna notkunar á hvítkornasíuðum blóðhlutum.

  • Hvítkornasíun kemur að miklu leyti í veg fyrir hitahækkun sem aukaverkun eftir blóðinngjöf (febrile non-hemolytic transfusion reaction).
  • Notkun á hvítkornasíuðum blóðhlutum dregur úr myndun mótefna gegn vefjaflokkasameindum (HLA mótefna). Þessi mótefni geta komið fram hjá sjúklingum sem þurfa mikið magn blóðhluta s.s vegna blóðsjúkdóma. Þau geta m.a. valdið ónógri hækkun á blóðflögum við blóðflögugjöf og aukið líkur á höfnun líffæragræðlings.
  • Hvítkornasíun dregur úr líkum á CMV smiti með blóðhlutum, þar sem CMV veiran er aðallega til staðar í hvítum blóðkornum. Þetta hefur þýðingu í tilviki ónæmisbældra sjúklinga sem eru í aukinni áhættu fyrir CMV sýkingar.
  • Allmargar rannsóknir hafa gefið vísbendingar um betri bata hjá sjúklingum sem fá hvítkornasíaða blóðhluta í hjartaskurðaðgerð í samanburði við sjúklinga sem fá ósíaða blóðhluta.
  • Hvítkorn í blóðhlutum geta valdið ónæmisbælingu hjá sjúklingum og í kjölfarið aukið tíðni almennra sýkinga hjá þeim. Með notkun á hvítkornasíuðum blóðhlutum má draga úr tíðni sýkinga eftir skurðaðgerðir og þannig etv. stytta legutíma og forðast óþarfa álag og kostnað vegna sýkinga.
  • Ákveðnar vísbendingar eru jafnframt til staðar um að ónæmisbæling vegna hvítkorna í blóðhlutum geti valdið aukinni tíðni á endurkomu fastra æxla eftir aðgerð. Með hvítkornasíun má þannig hugsanlega lækka endurkomu slíkra æxla eftir aðgerð.
  • Hvítkornasíun blóðhluta dregur úr skemmdum á rauðum blóðkornum við geymslu (storage lesion) og hefur þar af leiðandi margvíslegan ávinning fyrir sjúklinga.

Með notkun á hvítkornasíuðum blóðhlutum skapast margvísleg hagræðing á LSH:

  • Færri aukaverkanir verða eftir blóðinngjöf.
  •  Einfaldar vinnuferli við pöntun blóðhluta og birgðahald.

     

Febrúar 2013
Sveinn Guðmundsson
yfirlæknir Blóðbankans
sveinn (hjá) landspitali.is 

 

Gagnlegar vísindagreinar um hvítkornasíun blóðhluta

 

Merkingar hvítkornasíað rauðkornaþykkni