Smithreinsað plasma

Blóðbankinn hefur hafið afgreiðslu á smithreinsuðu ("pathogen inactivated") plasma til deilda. Vinnsluaðferðin kallast Intercept og er frá fyrirtækinu Cerus. Að jafnaði verður allt plasma framleitt í Blóðbankanum Intercept meðhöndlað og kemur þessi nýja gerð í stað hefðbundins plasma áður. Þar sem Blóðbankinn á enn talsverðan lager af frystu hefðbundnu plasma í vissum blóðflokkum munu notendur þó ýmist fá smithreinsað eða hefðbundið plasma á næstu mánuðum.

Frá október 2012 hafa öll blóðflöguþykkni framleidd í Blóðbankanum verið smithreinsuð með þessari aðferð og er komin góð reynsla á framleiðslu og notkun smithreinsaðra blóðflögueininga.

Intercept meðhöndlað plasma er í öllum aðalatriðum unnið á sama hátt og áður þ.e. annars vegar úr heilblóði blóðgjafa og hins vegar með blóðfrumuskilju (aferesu). Þó hefur sú breyting orðið á framleiðslu heilblóðsplasma að fyrir smithreinsun er fimm plasmaeiningum blandað saman en síðar skipt aftur upp í sex minni plasmaeiningar. Á þennan hátt fæst staðlaðri vara með minni breytileika hvað varðar innihald. Eins og aðrir blóðhlutar lýtur framleiðsla smithreinsaðs plasma gæðastaðli Evrópuráðs sem gerir kröfur um innihald t.d. hvað varðar storkuþætti.

Við smithreinsun með Intercept aðferð er amotaselini (psoralen afleiðu) bætt í eininguna. Amotosalen veldur krossbindingu á erfðaefni við ljómun með útfjólubláu ljósi (UVA) en krossbundið erfðaefni er óvirkt. Að lokinni ljómun er meginhluti amotosalens fjarlægður úr einingunni.

Meginkostir Intercept

  • Intercept óvirkjar fjöldann allan af bakteríum og veirum sem smitast geta við blóðhlutagjöf
  • Intercept óvirkjar hvít blóðkorn sem valdið geta aukaverkunum

Innihald smithreinsaðra plasmaeininga:

Rúmmál: um 200 ml
Frumuinnihald: Rauð blóðkorn < 6,0 x109/L, Hvít blóðkorn < 0,1 x109/L, Blóðflögur < 50 x109/L
Storkuþættir: FVIII 50 IU/dl, Fíbrinogen 60% miðað við ferskt plasma

Geymsla og endingartími:

Plasma er geymt fryst við -30°C og er endingartími 2 ár. Þegar pöntun á plasma berst er plasmað þítt í Blóðbankanum og sent til notenda. Plasma sem hefur verið afhent til deildar skal nota við fyrsta tækifæri og innan þess tímaramma sem kemur fram á fylgiseðli. Leyfilegur tími frá frátöku til notkunar eru 24 klst ef plasmað er geymt í viðurkenndum blóðkæli eða blóðkælitösku með hitamæli.

Merkingar á smithreinsuðu plasma.

 

Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans 16. maí 2014

 

 

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania