Leit
Loka

Rannsóknir

Hér neðan eru helstu upplýsingar um þær rannsóknir sem gerðar eru í Blóðbankanum.

ABO blóðflokkakerfið ásamt Rh-blóðflokkakerfinu (Rhesus) mynda sameiginlega það sem í daglegu tali er kallaður blóðflokkur einstaklings. Mótefnavakar (antigen) eru prótein eða fjölsykrur á yfirborði rauðra blóðkorna.

Þegar beðið er um ABO flokkun og skimun fyrir blóðflokkamótefnum á beiðni til Blóðbankans eru sýnin fullflokkuð í ABO og Rh D blóðflokka og skimuð fyrir blóðflokkamótefnum.

Fullflokkun felst í því að blanda rauðum blóðkornum sjúklings saman við mótefnin anti-A, anti-B og anti-D. Einnig er athugað hvort anti-A og/eða anti-B mótefni í plasma sjúklings passi við rauðkornaflokkunina.
Skimun fyrir blóðflokkamótefnum felst í því að blanda rauðum blóðkornum með þekktum mótefnavökum saman við plasma sjúklings við 37°C og athuga hvort rauðkornin kekkjast. Slík kekkjun bendir til þess að plasma sjúklings innihaldi mótefni sem bindast rauðum blóðkornum.

Auk ABO og Rhesus blóðflokkakerfanna eru þekktir fjölmargir aðrir svipgerðarflokkar sem hafa minna vægi við blóðhlutagjöf. Þeir eru þó þeirrar náttúru að geta valdið mótefnamyndun hjá sjúklingum sem gefið er rauðkornaþykkni eða hjá konum við meðgöngu. Þeirra mikilvægustu eru Rhesusflokkar (C, E, c og e), Kell (K), Duffy (Fya, Fyb), og Kidd (Jka, Jkb).

Meðal sjúklinga finnast mótefni gegn svipgerðaflokkum (öðrum en ABO og Rhesus blóðflokkunum) í 1-3% tilfella. Sjá nánar Greining blóðflokkamótefna.ABO flokkun

Mótefnavakar ABO-blóðflokkakerfisins eru á rauðum blóðkornum og reyndar flest öllum kjarnafrumum líkamans. Blóðflögur tjá ABO blóðflokka en í minna mæli. Mótefnavakarnir í ABO kerfinu eru tveir, A og B.

Sérstaða ABO blóðflokkakerfisins felst ekki síst í því að allir mynda mótefni gegn þeim A og/eða B mótefnavökum sem þeir bera ekki á fyrsta aldursári ("náttúruleg mótefni"). Mótefni ABO blóðflokkakerfisins eru anti-A, anti-B og anti-AB.

 

 Flokkur
        (Svipgerð)      

      Mótefnavaki á    
rauðum
blóðkornum

        Mótefni í blóðvökva      

    A    

 Anti-B

 Anti-A

               O

        Anti-A, Anti-B        

 AB

A og B 

Hvorugt 

 

Náttúruleg mótefni gegn A og B mótefnavökunum geta verið ákaflega virk. Nái þau að bindast blóðkornum sem eru gefin ranglega milli einstaklinga við blóðhlutagjöf geta þau valdið alvarlegum aukaverkunum og jafnvel dauða á skömmum tíma.

Hlutfall ABO blóðflokkanna á Íslandi:

Hlutfall ABO blóðflokkanna á Íslandi:

 

Rhesus D flokkun

Rhesus mótefnavaka er aðeins að finna á rauðum blóðkornum. Þótt Rhesus blóðflokkakerfið samanstandi af nokkrum mótefnavökum (t.d. D, C, E, c, e og Cw) er venjulega einungis tekið tillit til D við val á rauðkornaþykkni til blóðinngjafar.
Mótefnamyndun gegn Rh D er nær undantekningarlaust afleiðing ónæmissvars vegna meðgöngu eða blóðhlutagjafar og er D mótefnavakinn öflugasti mótefnavaki sem þekkist.
Á Íslandi eru um 15% einstaklinga RhD neikvæðir en um 85% RhD jákvæðir.

Skimun fyrir blóðflokkamótefnum

Skimun fyrir blóðflokkamótefnum er athugun á því hvort sjúklingur er með blóðflokkamótefni. Það er gert með því að blanda saman plasma sjúklings við blóðkorn með þekktum mótefnavökum. Ef rauðu blóðkornin kekkjast er ljóst að sjúklingurinn hefur myndað mótefni gegn einhverjum mótefnavaka sem er á yfirborði þeirra.
Næsta skref er að greina mótefnin til þess að hægt sé að gefa sjúklingnum rauðkornaþykkniseiningar sem ekki bera viðkomandi mótefnavaka.
Mótefnaskimun er gerð á öllum blóðsýnum sjúklinga sem send eru til Blóðbankans sem og sýnum frá barnshafandi konum í mæðraeftirliti.

Ekki er hægt að gera fullkomna ABO flokkun fyrir börn yngri en fjögurra mánaða í vegna þess að þau hafa yfirleitt ekki myndað anti-A og/eða anti-B mótefnin.

Ungbarnasýni eru því aðeins flokkuð á rauðum blóðkornum en plasmaflokkun á anti-A og anti-B er sleppt.

Alltaf er gert beint Coombs próf (sjá "Beint Coombspróf í plúslista hér neðar á síðunni) á ungbarnasýnum til að athuga hvort mótefni frá móður séu bundin rauðum blóðkornum barnsins.

Niðurstöður á blóðflokkun og beinu Coombs prófi birtast í Heilsugátt fyrir þá sem hafa aðgang að henni eða er tilkynnt símleiðis til ljósmæðra/hjúkrunarfræðinga/lækna á viðkomandi fæðingarstofnun. Sé Coombs prófið jákvætt er niðurstaðan ávallt tilkynnt símleiðis.

Naflastrengsblóðflokkun er gerð á blóði úr naflastreng frá fæðingum allra Rhesus D neikvæðra kvenna á Íslandi. Ef naflastrengsblóðið reynist Rhesus D jákvætt er móðurinni gefið anti-D immúnóglóbúlín til þess að fyrirbyggja myndun anti-D mótefnis.

Mótefnið sem gefið er binst Rhesus D jákvæðum rauðum blóðkornum barnsins sem kunna að hafa komist í blóðrás móðurinnar við fylgjurof í fæðingunni. Ónæmiskerfi móðurinnar kemst þannig ekki í snertingu við D mótefnavakann því hann er bundinn við anti-D immúnóglóbúlínið sem henni var gefið. Ónæmiskerfi móðurinnar eyðir þeim blóðkornum sem eru bundin mótefninu.

Beint Coombs próf (sjá plúslista neðar á síðunni) er ávallt gert um leið og naflastrengsblóð er flokkað til þess að athuga hvort mótefni frá móður séu bundin rauðum blóðkornum barnsins.

Niðurstöður á blóðflokkun og beinu Coombs prófi birtast í Heilsugátt fyrir þá sem hafa aðgang að henni eða er tilkynnt símleiðis til ljósmæðra/hjúkrunarfræðinga/lækna á viðkomandi fæðingarstofnun. Sé Coombs prófið jákvætt er niðurstaðan ávallt tilkynnt símleiðis.

Mikilvægt er að gefa Rhesus D neikvæðum mæðrum Rhesus D jákvæðra barna anti-D immúnóglóbúlín innan 72 klukkustunda frá fæðingu. Ef niðurstöður naflastrengsflokkunar hafa ekki borist fyrir þann tíma skal gefa konunni anti-D immúnóglóbúlín til að fyrirbyggja mótefnamyndun.

BAS/BKS próf fela í sér staðfestingu á ABO og Rh D blóðflokki ásamt skimun fyrir blóðflokkamótefnum. Niðurstöður blóðflokkunar eru bornar saman við eldri niðurstöður sjúklings í tölvukerfi Blóðbankans.

Ef engin mótefni greinast og niðurstöður blóðflokkunar eru í samræmi við fyrri niðurstöður, má taka frá rauðkornaþykkni í sjúklinginn.

BAS og BKS próf er í raun og veru sama prófið. Munurinn liggur í því að eftir BAS próf má taka frá rauðkornaþykkni strax í sjúklinginn (svokallað tölvukrosspróf) en eftir BKS próf þarf að krossprófa sýni úr hverri rauðkornaþykkniseiningu á móti blóðsýni úr sjúklingnum.

Forsenda þess að hægt sé að nota BAS og tölvukrosspróf er að tölvukerfið sem notað er sé fullgilt með tilliti til þess að:

 1. Leyfa ekki frátöku á röngum blóðflokki í sjúklinginn
 2. Þeir sjúklingar sem hafa greinst með blóðflokkamótefni séu útilokaðir frá tölvukrossprófi
 3. Tölvukrosspróf sé ekki hægt að gera á sjúklingum sem ekki hafa verið blóðflokkaðir áður
 4. Sjúklingar með blóðflokkamisræmi, jákvætt DAT (beint Coombspróf) og aukaverkun eftir blóðhluta séu útilokaðir frá tölvukrossprófi nema að fengnu leyfi læknis

Sjúklingar sem ekki uppfylla skilyrði BAS prófs eru meðal annars:

 • Þeir sem hafa greinst með blóðflokkamótefni
 • Þeir sem eru með óljósan ABO og/eða Rh-D blóðflokk

BAS/BKS próf gilda í þrjá sólarhringa frá sýnatökudegi og því er ekki er hægt að gera BAS/BKS próf úr sýnum sem eru eldri en þriggja sólarhringa.
Hægt er að panta BAS/BKS próf án þess að panta rauðkornaþykkniseiningar. Ef sjúklingur þarf rauðkornaþykkni síðar er hægt að panta það í síma, meðan BAS/BKS prófið er í gildi.

Mögulegt er að framlengja BAS próf fyrir vissa sjúklinga. Í þeim tilvikum er BAS prófið gert og sett í  biðstöðu í allt að 10 daga. Um leið og teknir eru frá blóðhlutar verður BAS prófið gilt og verður gildistími þess þrír sólarhringar. BAS prófið getur þó aldrei gilt lengur en framlengingin gildir.
Til þess að framlengja BAS próf þarf að fylla út í viðeigandi reit á beiðni til Blóðbankans og þarf læknir eða staðgengill hans að kvitta fyrir.

Forsendur fyrir framlengingu á BAS prófi:

 • Sjúklingur má ekki hafa þegið blóðhluta síðastliðna 3 mánuði
 • Sjúklingur má ekki vera í meðgöngu, og ekki hafa verið barnshafandi síðastliðna 3 mánuði
 • Sjúklingur má ekki hafa þegið líffæri síðastliðna 3 mánuði
 • Sjúklingur hefur aldrei verið með jákvætt Coombs próf

 

Beint Coombs próf eða DAT ("Direct Antiglobulin Test") er athugun á því hvort mótefni hafa sest utan á rauð blóðkorn í líkamanum. Þessi rannsókn er notuð t.d. þegar grunur leikur á að mótefni sjúklings valdi niðurbroti á blóðfrumum ("Immune Hemolytic Anemias).

Prófið byggist á notkun AHG („Anti Human Globulin") sem getur tengt IgG mótefni á yfirborði rauðu blóðkornanna saman þannig að rauðkornin kekkjast saman í sýnaglasi.

 

null

Ástæður fyrir jákvæðu beinu Coombsprófi geta verið ýmsar en hér eru nokkur dæmi:  

 • Nýburagula vegna blóðflokkamótefna (HDN = "Hemolytic Disease of the Newborn").
  IgG blóðflokkamótefni frá móður geta komist yfir fylgjuna og bundist fósturblóðkornum sem bera viðkomandi mótefnavaka. Þá verður Coombs próf barnsins jákvætt. Rhesus-mótefnið anti-D er einna hættulegast þessara mótefna en önnur blóðflokkamótefni geta einnig valdið nýburagulu og fer alvarleikinn eftir eiginleikum mótefnisins.
    
 • Aukaverkun eftir blóðinngjöf (HTR = „Hemolytic Transfusion Reaction").
  Við blóðinngjöf getur sjúklingur myndað blóðflokkamótefni. Blóðflokkamótefnin setjast á gjafakornin og geta valdið aukaverkun og jákvæðu beinu Coombs prófi.  
    
 • Blóðleysi vegna sjálfsónæmis eða lyfja ("Autoimmune and Drug-Induced Hemolytic Anemias" = AIHA).
  Sjálfs-mótefni ("auto antibodies") geta bundist eigin blóðkornum sjúklings, t.d. hjá sjúklingum með sjálfsofnæmissjúkdóma eða með illkynja blóðsjúkdóma. Einnig geta ýmis lyf orsakað jákvætt Coombs próf svo sem penicillin og methyldopa.

Skimun fyrir kuldavirkum blóðflokkamótefnum er athugun á því hvort sjúklingur hafi blóðflokkamótefni sem aðeins greinast í kulda (við u.þ.b. +4°C). Plasma sjúklings er blandað saman við rauð blóðkorn með þekktum mótefnavökum og blandan er látin bíða í kæli í eina klukkustund. Ef kekkjun verður í blöndunni er ljóst að sjúklingurinn hefur myndað kuldavirkt blóðflokkamótefni.

Þessi tegund skimunar er gerð fyrir opnar hjartaaðgerðir þar sem kæling er notuð í aðgerð. Ef kuldavirk skimun er jákvæð er einnig athugað hvort blóðflokkamótefnin greinist við stofuhita (u.þ.b. +22°C).

Þessi tegund skimunar er í sumum tilvikum notuð til að styðja við greiningu blóðflokkamótefna (sjá "Greining blóðflokkamótefna" í plúslista hér neðar á síðunni).

 

Greinist mótefni við skimun fyrir blóðflokkamótefnum þarf að greina hvaða mótefni það eru. Notaðar eru sérhæfðar greiningaraðferðir sem byggja á hegðun og eðli mótefnanna.

Mótefnagreining getur verið tímafrek og í sumum tilfellum kallað á umtalsvert magn sýnis frá sjúklingi.  Mótefnagreining felst í því að blanda plasma sjúklings saman við mismunandi rauðkornagerðir m.t.t. mótefnavaka. Hluti af greiningarferlinu felst í því að svipgerðaflokka (sjá í plúslista hér neðar á síðunni) sjúklinginn og prófa mótefnið við mismunandi aðstæður svo sem mismunandi hitastig og að nota hvata.

Varast ber að gefa sjúklingi sem greinst hefur með blóðflokkamótefni rauðkornaþykkni áður en niðurstöður mótefnagreiningar liggja fyrir.
Þetta á einnig við um neyðarblóð!

Blóðflokkamótefni geta myndast við blóðinngjöf, á meðgöngu eða við fæðingu ef blóðblöndun milli móður og fósturs á sér stað. Mótefni í plasma barnshafandi kvenna geta komist yfir fylgju og haft áhrif á fóstrið.

Magnmæling á mótefni í blóði móður hefur praktíska þýðingu þegar um er að ræða mótefni sem valdið geta fóstur- og nýburagulu (HDN/HDF). Ef mótefnið er klínískt mikilvægt þarf að leggja mat á styrk mótefnisins í plasma með reglulegu millibili til þess að athuga hvort styrkur þess fari vaxandi í meðgöngunni. Það er gert með svokallaðri títermælingu.

Títermæling gefur ekki upplýsingar um eiginlegt magn mótefnis, heldur gefur til kynna hvort styrkur mótefnis fari hækkandi þar sem styrkurinn er ávallt borinn saman við eldra sýni úr verðandi móður.

Sérfræðingar á Landspítala fá ávallt tilkynningu um klínískt mikilvæg mótefni.

Þegar flokkað er í aðra blóðflokka en ABO og Rhesus D er talað um svipgerðaflokkun ("phenotyping").

Sjúklingar sem sjúkdóms síns vegna þurfa á endurteknum blóðinngjöfum að halda eru gjarnan flokkaðir í 13 svipgerðaflokka. Það er gert til þess að auðvelda greiningu blóðflokkamótefna sem kunna að myndast síðar. Þar sem rauð blóðkorn gefinni frá rauðkornaeiningu lifa í 3-4 mánuði í blóðrás blóðþegans er ekki er mögulegt að svipgerðaflokka þegann í þrjá mánuði eftir blóðinngjöf.

Helstu svipgerðaflokkar eru:

Rhesus mótefni önnur en D

Helstu klínískt mikilvægu mótefnin, fyrir utan anti-D, sem tilheyra Rhesuskerfinu eru C, E, c, e og Cw.

 Mótefni gegn C, E, c og e flokkum eru klínískt mikilvæg þó mótefnavakarnir séu ekki eins mótefnahvetjandi og Rhesus D. Þau geta öll valdið alvarlegum aukaverkunum við blóðinngjöf og nýburagulu.

Sjúklingum sem eru með blóðflokkamótefnin anti-C, anti-E, anti-c eða anti-e fá ætíð rauðkornaþykkni sem ekki ber viðkomandi mótefnavaka.
Anti-Cw getur verið klínískt mikilvægt. Þetta er algengt mótefni og getur verið náttúrulegt, þ.e. verið í einstaklingum án þess að þeir hafi komist í snertingu við mótefnavakann svo vitað sé. Krosspróf er látið ráða þegar valið er rauðkornaþykkni í sjúklinga með anti-Cw (þ.e. ekki er nauðsynlegt að finna Cw neikvæða einingu).

Anti-K (Kell) og anti-k (Cellano)

K er mótefnavaki sem er mjög mótefnahvetjandi. Talið er að hann komist næst D mótefnavakanum í því tilliti.  Um 90% einstaklinga eru K neikvæðir.

Mótefnið anti-K er klínískt mikilvægt og getur valdið aukaverkunum eftir blóðinngjöf, alvarlegri nýburagulu og fósturdauða. Mótefnið virðist geta komið fyrir að rauð blóðkorn myndist eðlilega í fóstri. Því er fylgst mjög vel með konum í meðgöngu sem eru með anti-K og eiga K jákvæðan barnsföður.

Konum á barneignaraldri sem ekki bera K mótefnavakann er gefið K neikvætt rauðkornaþykkni til að koma í veg fyrir að þær myndi anti-K.

Anti-Fya og anti-Fyb (Duffy mótefni)

Tveir mótefnavakar tilheyra Duffy blóðflokkakerfinu og kallast þeir Fya og Fyb (Duffy A og Duffy B).

Mótefni gegn þessum mótefnavökum eru klínískt mikilvæg og geta valdið skyndilegum aukaverkunum eftir blóðinngjöf og nýburagulu í börnum mæðra sem eru með mótefnið. Um 32% einstaklinga eru Fya neikvæðir og um 20% Fyb neikvæðir.

Nánast engir einstaklingar af hvíta kynstofninum eru neikvæðir í bæði Fya og Fyb blóðflokki. Sú svipgerð er hins vegar algeng hjá svörtum einstaklingum og hefur það sennilega þróast þannig vegna þess að Duffy mótefnavakarnir virka eins og viðtakar fyrir malaríusníkilinn. Þeir sem hafa ekki Duffy mótefnavakana fá því síður malaríu.

Anti-Jka og anti-Jkb mótefni (Kidd mótefni)

Mótefnavakarnir sem tilheyra Kidd blóðflokkakerfinu kallast Jka og Jkb.

Mótefnin anti-Jka og anti-Jkb eru afar varhugaverð. Þau geta myndast við blóðinngjöf, við blóðblöndun á meðgöngu eða við fæðingu. Mótefnið hverfur fljótt úr blóðrásinni þannig að erfitt getur verið að greina það. Ef sjúklingur fær blóð með mótefnavakanum síðar getur magn mótefnisins hins vegar aukist aftur og valdið síðbúinni aukaverkun sem getur verið mjög alvarleg.

Sjaldgæft er að þessi mótefni valdi nýburagulu.

Anti-M, anti-N, anti-S og anti-s

Mótefni gegn M og N mótefnavökunum eru venjulega ekki klínískt mikilvæg. Þau eru yfirleitt af IgM gerð og kuldavirk. IgM mótefni komast ekki yfir fylgju.

Ef þessi mótefni greinast við 37°C og eru af IgG gerð geta þau verið klínískt mikilvæg. Sjúklingum með slík mótefni er gefið rauðkornaþykkni sem ekki ber viðkomandi mótefnavaka.

Mótefnin anti-S og anti-s eru sjaldgæfari en anti-M og líklegri til þess að vera klínískt mikilvæg. Þessi mótefni hafa átt þátt í alvarlegum aukaverkunum eftir blóðinngjöf. Nokkur dæmi eru um nýburagulu af völdum anti-S og anti-s mótefna.

Rhesus D neikvæðum konum í meðgöngu er boðið upp á Rhesus D skimun á fóstri. Sjá nánar um rannsóknina undir Rhesusvarnir á Íslandi, Rhesus D fósturgreining.

 

Svör við rannsóknum sem gerðar eru í Blóðbankanum birtast í Heilsugátt. Auk þess má sjá niðurstöður rannsókna í Interinfo (gátt inn í Blóðbankakerfið) fyrir þær deildir sem hafa aðgang.

Hér má nálgast nánari leiðbeiningar um svör og Heilsugátt.